Styrktarreikningur stofnaður fyrir heimilislausu feðgana

frettinInnlentLeave a Comment

Styrktarreikningur hefur verið stofnaður fyrir þá Ólaf Snævar Ögmundsson eldri borgara og hreyfihamlaðan son hans Auðunn Snævar Ólafsson.

Í síðustu viku fjallaði Fréttin um útburð feðganna úr íbúð sem þeir leigðu hjá leigufélaginu Ölmu. Síðan þá hafa feðgarnir verið á hrakhólum. Þeir komust inn á gistiheimili á Eyrarbakka nú um helgina, en eru nú komnir aftur til Reykjavíkur og hafa m.a. átt fund með félagsþjónustunni og leigufélaginu Brynju, sem heldur úti íbúðir fyrir öryrkja.

Þar sem Auðunn er hreyfihamlaður og þarf að notast við hjólastól, er möguleiki á að hann einn fái litla íbúð á vegum félagsins, en faðir hans er ekki öryrki heldur ellilífeyrisþegi og getur því ekki fengið að vera með honum íbúðinni.

Félagsþjónustan segist ekki geta hjálpað Ólafi þrátt fyrir að vera með þjónustuíbúðir aldraðra á sínum snærum, og hefur borið því við að marga ára bið sé eftir því að komast í íbúðir á þeirra vegum. Félagsþjónustan virðist því ekki taka tillit til neyðarástands.

Þá var haft samband við hjúkrunarheimilið Eir sem hafa einhverjar lausar íbúðir en leiguverðið er hátt, á bilinu 387.000 - 416.000 kr. á mánuði. Sú fjárhæð er einfaldlega of há fyrir feðgana. Ólafur fær einungis ellilífeyri og Auðunn er á örorkubótum og myndu því allar ráðstöfunartekjur ganga upp í leigu.

Ólafur biðlar því nú til almennings í von um að einhver geti aðstoðað þá feðga með húsnæði, og eins hefur verið stofnaður styrktarreikningur til að geta staðið skil á leiguverði á gistiheimilinu sem þeir fá að vera á í fjóra daga til viðbótar. Ólafur tekur þó fram að hann sé mjög þakklátur ef sonur hans fengi íbúð eða herbergi hjá öryrkjabandalaginu, en segist ekki vita hvað verði um sig, kannski að hann þurfi að sofa í bílnum.

Fyrstu nóttina sem þeir feðgar voru heimilislausir, þurftu þeir að greiða 50.000 kr. fyrir nóttina á hóteli í Hafnarfirði. Þar sem Auðunn þarf að notast við hjólastól er nauðsynlegt að lyfta sé í húsinu eða aðgengi fyrir hjólastóla.

Reikningsnúmerið á styrktarreikningum er 0123-05-3207 Kt.180644-4829

Skildu eftir skilaboð