Eftir Þorgeir Eyjólfsson:
Umfangsmiklar breytingar á reglum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) eru í undirbúningi en stefnt er að staðfestingu endurskoðaðra reglna ásamt nýju faraldursregluverki á þingi samtakanna í maí 2024. Reglurnar eru bindandi fyrir aðildarþjóðir WHO.
Breytingar á reglum WHO þurfa einungis meirihluta atkvæða aðildarþjóða samtakanna. Það sem fæstir vita er að í reglum WHO er sérstaklega kveðið á um að breytingar á reglunum (IHR 2005) þarfnist ekki samþykkis á þjóðþingum aðildarlandanna eða stofnana þeirra.
Regludrögin gera ráð fyrir framsali aðildarþjóðanna til WHO á faraldursákvörðunum í stóru sem smáu. Þannig munu samtökin öðlast vald til að ákveða innilokanir og grímuskyldu svo dæmi sé tekið. Nýlegar fréttir greina frá samkomulagi WHO við ESB um kaup á rafrænu vottunarkerfi sambandsins um bólusetningar til nota á heimsvísu.
Að WHO öðlist aðild að ákvörðunum varðandi ferðafrelsi þarf sérstaka skoðun. Það er fráleitt að samtökin geti gert kröfu til einstaklings, sem þarf að ferðast milli landa eða jafnvel innanlands, um tilteknar bólusetningar með óreyndum efnum sem kunna að reynast skaðleg eins og flestum er í fersku minni eftir reynsluna af mRNA covid-bóluefnunum. Hætt er við að fyrsta tækifæri verði notað til þess að útvíkka miðlægt rafrænt vottorð um bólusetningar þannig að þvingunar- og drottnunarvald raungerist yfir þegnum þjóða með rafrænum skilríkjum til daglegra athafna líkt og kínverska þjóðin þekkir á eigin högum.
Ekki hefur orðið vart umræðu hérlendis um fyrirhugaðar breytingar og hvort hyggilegt sé að sóttvarnaráðstafanir á eyju í miðju ballarhafi verði þær sömu og ráðstafanir í landluktu ríki í Evrópu svo dæmi sé tekið. Að sjálfsögðu er ekki hægt að gera þá kröfu til landsmanna að ræða um breytingar á regluverki WHO sem fæstir vita að eru í farvatninu. En þá kröfu má gera til okkar helstu fjölmiðla og þingmanna. Að óbreyttu sýnist stefna í að heilbrigðisráðherra skuldbindi Ísland til aðildar að breyttum reglum án umræðu á Alþingi.
Ámælisvert er sinnuleysi þingmanna um heilbrigði landsmanna. Þeir ómaka sig ekki í ræðustól með fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um ástæður umframdauðsfalla á Íslandi, sem eru með þeim mestu í Evrópu, eða óska skýringa ráðherra á greinilegu orsakasambandi bólusetninga með mRNA bóluefnunum og fjölda dauðsfalla. Þingmenn forðast að spyrja heilbrigðisráðherra hvernig hann rökstyður framhald bólusetninga eldri borgara þvert á niðurstöður rannsókna sem birtar hafa verið í virtum vísindaritum sem hver af annarri sýna fram á skaðsemi bóluefnanna. Ljóðlína úr Íslandi Jónasar Hallgrímssonar leitar á hugann: "Nú er hún Snorrabúð stekkur.”
Höfundur er eftirlaunaþegi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2023.
One Comment on “Viljum við kínversk mannfrelsishöft?”
Ágætis grein þegar kemur að sannleikanum um öfgastýringu allt þar til þú ferð að gera samlíkingu með aðferðunum og líkja því við það sem þú telur að sé aðeins gert í kína?
Ætli það sé ekki betri samlíking með þessari aðferðafræði og vestrænu Íslenskt-Bandarísku lýðræði sem gengu akkurat út á þessar aðferðir og svo úthrópum alla aðra einræðisherra sem eru ekki að gera eins og við. Það er það sem kallað er VESTRÆNT LÝÐRÆÐI!