Óttinn við sannleikann

frettinInnlent, PistlarLeave a Comment

Eftir Kristján Hreinsson:

Íslendingar hafa lengi séð ærna ástæðu til að óttast sannleikann. Svo er því komið þannig fyrir að þeir sem þrá að varpa ljósi á þennan sannleika eru sagðir fullir af fordómum, þeir eru sagðir móðga fólk, eru sagðir hata fólk og sagðir hinir verstu menn, skúrkar og skítseiði. Varnarræða þeirra sem óttast sannleikann er árás á þá sem segja satt. Þeir sem sætta sig við lygina eru fljótir að skilgreina sig sem góða fólkið, þeir sætta sig við það sem í borði er. Í dag þykjast þeir vera góðir sem ekki svara fyrir sig, þegja og láta segja sér að halda kjafti. Að þora ekki að tjá sig það er að vera aumingi en það heitir í dag að vera góður og tilheyra góða fólkinu. Að samþykkja valdníðslu það er ekkert annað en aumingjadómur. Þennan sannleika má þó enginn maður opinbera. Þessi sannleikur er nefnilega móðgandi, meiðandi og lyginni líkastur.

Skerðing tjáningarfrelsis og átroðningur öfgafullra hræsnara

Þegar ég tala gegn skerðingu tjáningarfrelsis, átroðningi öfgafullra hræsnara og bendi á siðleysi það sem felst í svokallaðri pólitískri rétthugsun, þar sem fólk vill banna orð, rétta kynhlutföll tungumáls og leiðrétta það sem áður hefur verið skrifað, þá segir fólk: „Þú óttast breytingar.“ Staðreyndin er aftur á móti sú að ég óttast ekki breytingar þær sem íslenskan verður fyrir. Enda væri óðs manns æði að óttast slíkt. Íslenskan er hvort eð er dauðadæmd sem tungumál. Móðurmál mitt er þegar orðið að flatneskju bómullarkynslóðarinnar, þar sem vart verður þverfótað fyrir klisjum, slettum og slepjulegu tildri í nafni pólitískrar rétthugsunar. Ég óttast ekki breytingar tungunnar. Ég óttast aftur á móti sinnuleysi fólks, þöggun og þjónkun við sýndarmennsku í ýmsu formi. Ég óttast tilgerð, útþynnt umburðarlyndi, allar aðferðirnar sem ýtt er að fólki og ég óttast þvaðrið sem fólk kokgleypir í blindni. Ég óttast andlega kúgun og þvinganir sem settar eru fram í gegnum tungumálið. Ég óttast að tjáningarfrelsið sé í húfi. Tungumálið geymir nefnilega hugsun okkar og hugsun okkar geymir tungumálið. Ef við leyfum það að orðræða í ritlist sé leiðrétt í nafni rétthugsunar og leyfum að orð séu bókstaflega  bönnuð þá leyfum við sjálfskipuðum yfirboðurum að banna okkur tiltekna hugsun.

Lygin sem troðið er í fjöldann í formi skilgreininga

Ég óttast lygina sem troðið er í fjöldann í formi skilgreininga. Tilteknir hópar skilgreina sig sem öðruvísi fólk og hljóta þar með vald til að tröllríða öllu og öllum. Í nafni öðruvísi fólks eru fánar á hverju horni, regnbogagötur og svo er herlegheitum öðruvísi fólks fagnað með skrautsýningu í ágúst. Öðruvísi fólk sér um kynfræðslu fyrir börn, ýtir undir eitt og annað sem öðrum þykir miður og ýtir undir boð og bönn í tungutaki. Góða fólkið situr hjá og þögn er sama og samþykki.

Ég óttast skilgreiningarnar – þær eru gerðar á svo kolröngum forsendum og af svo mögnuðum öfuguggahætti að blekkingin blasir við öllum sem nenna að hugsa.
 Varðandi það hvort sumir menn eru öðruvísi, hinsegin eða venjulegir, þá er hin eina rétta skilgreining einfaldlega svona: Allir menn eru menn og þeir eiga það sameiginlegt að vera allir öðruvísi – allir hinsegin, allir ólíkir öllum öðrum.

Höfundur er rithöfundur og skáld.

Skildu eftir skilaboð