Þökkum öryrkjum á hverju kvöldi

frettinInnlentLeave a Comment

Einar G Harðarson skrifar:

Eftir morgunkaffið hugsum við lítið um slys og veikindi þegar við höldum út í daginn full bjartsýni og vonar. Fjarlægt er huga flestra sú staðreynd að á hverjum degi er fast hlutfall slysa og veikinda ár eftir ár. Skráð slys hjá Almannatryggingum árið 2014 voru 2157. 2015 voru þau 2126, og þar á eftir 2156. Frávikið er lítilsvert; á hverjum degi eru sömu líkur á því að heilbrigð manneskja í dag verði öryrki á morgun. Teljumst við heppin þegar við komum heil heim á kvöldin?

Fjöldin allur er til af greinum stjórnmálamanna um fögur fyrirheit til öryrkja, en reyndin er sú að ómögulegt virðist að afhenda öryrkjum það sem var tekið af þeim eftir hrun. Árið 2009 var lagt á tekjutenging við öryrkjabætur og gátu öryrkjar ekki lengur aflað tekna án þess að það yrði tekið af þeim. Margt var tekið af landsmönnum í hruninu en grátlegt er að þeim sem minnst mega sín hefur gengið verst að fá fjárhagslega hlut sinn bættan. Svo ekki sé minnst á þau óhagræði og vanlíðan sem felst í slysum og sjúkdómum.

Tekjutengingin hvetur öryrkja til að vinna minna

Sagt er að það kosti tugi milljarða að afnema tekjutenginguna, en sú spá virðist ekki taka til greina að án hennar myndu þeir öryrkjar sem geta unnið meira, vinna meira. Það mun samsvara tugum milljarða til markaðarins og þar af leiðandi til ríkisins. Tekjutengingin hvetur öryrkja hins vegar til að vinna minna og það er slæmt fyrir alla.  

Öryrki með 500,000kr. í laun á mánuði auk lífeyris hefur endurgreitt lífeyrin að fullu með sköttum. Það er gefið að ekki allir öryrkjar geta unnið fyrir slíkar upphæðir en það þyrfti ekki marga til að jafna út kostnaðinn. Með kerfinu eins og það er í dag vinna jafnvel þeir sem geta það lítið sem ekkert. Að afnema tekjutenginguna væri það minnsta sem við getum gert. Raunar ættum við að greiða öryrkjum mannsæmandi laun það sem eftir er, punktur. Ekki orð um það meir.

Staðan er sú að ekki nokkur heilbrigð manneskja í dag myndi vilja lifa við kjör samfélagsins ef slys skyldi henda hana á morgun, en á móti eigum við ekki að sannfærast einungis af hræðsluáróðri um okkar eigin hagsmuni. Hér erum við að ræða um hagsmuni ríkisins, frjálsa markaðarins, menningarinnar, og einstaklinganna sem tóku á sig slysin og sjúkdómana fyrir okkar hönd.

Þökkum því öryrkjum "sem tóku á sig"  þau óumflýjanlegu slys sem verða og sýnum það í verki en ekki orðum.

Höfundur er löggiltur fasteignasali 

Skildu eftir skilaboð