Biskupinn yfir Íslandi situr umboðslaus

frettinInnlent, Jón MagnússonLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Biskupinn yfir Íslandi situr umboðslaus, deilir og drottnar og skammtar meintum undirsátum sínum tíma og tíðir heimildar- og umboðslaust.

Úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar kvað í gær upp þann úrskurð að biskupinn yfir Íslandi væri vanhæf til að gegna embætti frá því að skipunartími hennar rann út 1. júlí 2022.

Í sjálfu sér þurfti enga úrskurðarnefnd til að komast að þeirri niðurstöðu að þegar skipunartími embættismanna er liðinn, þá eru þeir umboðslausir eins og forsetar Íslands og Bandaríkjanna hafa engar heimildir að loknu kjörtímabili til að ragast í stjórnunarmálefnum. En þeim Donald Trump og Agnesi M. Sigurðardóttur sést yfir þessar einföldu staðreyndir.

Skipunartími Agnesar fyrrverandi biskups rann út 1. júlí 2022. Biskup hlutaðist ekki til um að eftirmaður hennar yrði kjörinn eða leita eftir endurkjöri. Hún sat sem fastast ólöglega. 

Forherðing Biskups var raunar svo algjör að hún fékk eitt fáránlegasta lögfræðiálit sem samið hefur verið á Íslandi, þar sem lögmaður hennar komst á þeirri niðurstöðu, að embættismaður ef hann væri kirkjunnar maður gæti haldið starfi sínu áfram þó kjörtímabil eða skipunartími væri liðin. Álitið var byggt á svipuðum forsendum og 2 plús 2 séu fimm og Vatnajökulsþjóðgarðurinn sé aldingarður.

Þegar einfaldar staðreyndir eru reknir framan í umboðslausa biskupinn, þá ætlar hún að áfrýja málinu að því er segir „með hagsmuni þjóðkirkjunnar að leiðarljósi.“

Forherðing biskups er algjör. Hagsmunir þjóðkirkjunar er að hún hætti strax að þykjast vera biskup. 

Ef til vill væri eðlilegt að biskupinn yfir Íslandi og lögmaður hennar skoðuðu 116 gr. almennra hegningarlaga nú þegar biskupinn hefur verið veginn og léttvæg fundin, en þar segir: 

„Hver, sem tekur sér eitthvert opinbert vald, sem hann ekki hefur, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári eða, ef miklar sakir eru, fangelsi allt að 2 árum.“

Agnes biskup. Þú hefur verið vegin og léttvæg fundinn. Gerðu þjóðkirkjunni það gagn að axla ábyrgð og tryggja að lögmætur biskup geti tekið til starfa sem fyrst. 

Þarf e.t.v. ósýnileg hönd að skrifa á vegginn "mene tekel parsin" eins og mig minnir að standi í Daníelsbók til að biskup skynji sinn vitjunartíma.

Skildu eftir skilaboð