Heimasmíðaðar flaugar Hamas og Islamic Jihad hafa drepið fjölmarga á Gaza gegnum tíðina

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir1 Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Hinn 17. október síðastliðinn varð sprenging við Al-Ahli al-Arabi sjúkrahúsið á Gaza og hundruðir eru sagðir látnir. Hamas kenndi strax Ísraelum um en Ísraelar sögðust ætla að rannsaka málið. Margir virðast hafa trúað því að þessi sprenging hafi verið viljaverk og fordæmdu m.a. WHO, Trudeau forseti, Guðni forseti (á X) og Rauði kross Íslands meinta árás á spítalann. RKÍ sagði á Facebook:

„Spítali á að vera griðastaður til að varðveita mannslíf, ekki vettvangur dauða og eyðileggingar. Enginn sjúklingur ætti að vera drepinn í sjúkrarúmi. Engir læknar ættu að tína lífi á meðan þeir reyna að bjarga öðrum. Spítalar verða að njóta verndar í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög“. Mjög margir virðast hafa trúað því að Ísraelsher hafi borið ábyrgð á árásinni.

Víða í arabaheiminum brutust út mótmæli gegn Ísrael. Stórir hópar mótmæltu á götum úti í Jórdaníu, Líbanon, Íran, Írak, í borgum Vesturbakkans s.s. Ramallah og í Tyrklandi þar sem mótmælendur reyndu að komast inn í sendiráð Ísrael en tyrknesku lögreglunni tókst að verja það.

Léleg flugskeyti Palestínumanna

Ef til vill hefur það ekki farið hátt að heimasmíðuð flugskeyti Palestínumanna eru ekki sérstaklega vel gerð og drífa ekki alltaf út af Gaza svæðinu. Hinn 16. maí í sumar mátti lesa í Spectator greinina "The Inconvenient Palestinians" um dauða fjögurra Gazabúa, þar af þriggja undir lögaldri, er létust vegna þess að eldflaugar Islamic Jihad voru gallaðar. Af einhverjum ástæðum er umheiminum sama um þá Palestínumenn er látast með sviplegum hætti - nema Ísraelar hafi valdið dauða þeirra - sem á einnig við um blökkumenn í Bandaríkunum. Þótt um 90% deyddra blökkumanna falli fyrir hendi annarra blökkumanna þá sýna fjölmiðlarnir afdrifum þeirra aðeins áhuga ef vegandinn er hvítur.

 Í fyrra mátti lesa í Haaretz að 200 eldflaugar frá Gaza hefðu klikkað í síðustu hrinu deilunnar og drepið a.m.k. 15 almenna borgara. Árið áður mátti lesa í skýrslu BESA hugveitunnar við Bar-Ilan háskólann í Ísrael að 680 eldflaugar Palestínumanna hefðu sprungið innan Gaza í átökunum í maí það ár. Eldflaugar Hamas settu bæði íbúa Ísraels og Gaza í hættu, sögðu þeir, og áætlaði hugveitan að 91 Gazabúi hefði fallið það árið vegna eldflauga sem rötuðu ekki á þann stað sem þeim var ætlaður.

Flaug frá Islamic Jihad talin hafa ollið sprengingunni

Samdægurs eftir sprenginguna sendi  GeoConfirmed, hópur sem var stofnaður til að fylgjast með stríði Úkraínumanna og Rússa, út yfirlýsingu um að eldflaug sem hópar Palestínumanna hefði sent á loft hefði sprungið í lofti og hluti braksins hefði lent í garði Al-Ahli Arab sjúkrahússins. Hinn 18 október mátti svo lesa um niðurstöður af rannsóknum Ísraelsmanna. Þar er ýmislegt tínt til: radarupplýsingar um að flaugum hafi verið skotið frá Gaza og skotlínan hafi legið yfir sjúkrahúsið, ein þeirra hafi orðið stjórnlaus (sýnd á vídeói), hrapað og eldur brotist út á sama tíma og kviknaði í sjúkrahúsinu og hljóðupptaka þar sem Hamasliðar ræða sín á milli um að eldflaug frá Islamic Jihad hafi lent á sjúkrahúsinu.

Sterkustu gögnin eru þó myndir af sjúkrahúsinu og bílastæði þess eftir hina meintu árás. Veggir þess standa óskaddaðir og nálægar byggingar virðast ekki hafa orðið fyrir skemmdum. Hluti bílanna á bílastæðinu er brunninn en aðrir virðast óskemmdir. Enga gíga eins og þá er sprengjur Ísraelshers skilja eftir sig er að sjá. Niðurstaða talsmanns IDF, Daniel Hagari, er að flaug frá Palestínumönnum sjálfum hafi sprungið í loftinu yfir spítalanum. Samkvæmt Daily Mail er Marc Garlasco, fyrrum rannsakandi stríðsglæpa hjá SÞ honum sammála um að flaugin hefði ekki komið frá Ísrael. Minnstu flaugar þeirra skilji eftir sig gíga sem eru 3 metrar í þvermál. Einnig er vitnað í Tal Hagin, sérfræðing í greiningu gagna í deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna, sem segir að trúlega hafi stýribúnaður R-160 flaugar (sem Palestínumenn nota gjarnan) verið gallaður og vegna þess að hún hafi aðeins farið skamma vegalengd og verið enn full af eldsneyti valdið sprengingu á jörðu niðri.

Hve mörgum Gazabúum skyldu eldflaugar þeirra hafa grandað gegnum tíðina?

One Comment on “Heimasmíðaðar flaugar Hamas og Islamic Jihad hafa drepið fjölmarga á Gaza gegnum tíðina”

  1. Það er sannað að ísraelar sprengdu þennan spítala í loft upp. Þetta var bandarísk 2,000 punda JDAM sprengja sem sprakk rétt fyrir ofan skotmarkið og skildi þ.a.l. ekki eftir gíg né miklar skemmdir en olli þeim mun meiri skaða á fólki. Myndband af atburðinum hefur verið staðfest af NYT að hafa verið frá þessum stað á þessum tíma. Það er frettin.is ekki til sóma að vera að verja svona augljósan stríðsglæp.

Skildu eftir skilaboð