Blaðamaður í krossferð gegn tjáningarfrelsinu

frettinGeir Ágústsson, InnlentLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Í alvöru, blaðamaður Heimildarinnar? Í alvöru?

Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður hjá Heimildinni, hefur stefnt Páli Vilhjálmssyni og Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Reynt verður á hvort að Árvakur beri ábyrgð á ærumeiðandi ummælum á Moggablogginu.

„Ef það verður niðurstaðan að fjölmiðlalögin eigi við gæti það haft þýðingu síðar meir fyrir Árvakur varðandi hvað fólk er að skrifa inn á þetta bloggsvæði,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Aðalsteins.

Sjaldan hefur klígja blaðamanns yfir tjáningarfrelsi óbreyttra borgara verið jafnáberandi. Og auðvitað yfir tjáningu annarra blaðamanna.

Nú hef ég skrifað á Moggabloggið síðan í apríl 2007 og hef alla tíð kunnað vel við að fá að gera það nokkuð óáreittur, og þá sérstaklega á veirutímum. Moggabloggið jafnast á við skoðanapistlana á visir.is, en án markvissrar ritskoðunar (einstaka Moggabloggari hefur verið bannaður en sem betur fer fáir).

Rétt eins og visir.is gerir stundum mat úr skoðanagreinum sínum þá gerir Morgunblaðið stundum mat úr Moggabloggum. Alls ekki oft, en stundum.

Rétt eins og fréttamenn dv.is vísa í aðsendar greinar í Morgunblaðinu eða á eigin svæði.

Rétt eins og fréttamenn RÚV ef einhver frægðarsólin tjáir sig á fjésbókinni.

DV hefur meira að gert sér mat úr Moggabloggum, og er þá mikið sagt.

Núna ætlar blaðamaður, sem hatar greinilega tjáningarfrelsið og telur að einhver lög eigi að setja því takmörk, að reyna draga fjölmiðil fyrir fætur hins opinbera og spyrða saman framhaldsskólakennara úti í bæ við starfsemi fjölmiðilsins.

Eins og aðförin að kennaranum sé ekki nóg?

Þetta er greinilega blaðamaður sem fór ekki út í fag sitt með það að markmiði að segja fréttir, fjalla um menn og málefni, kryfja málin og afhjúpa spillingu, og í leiðinni draga að sér lesendur og áskrifendur. Nei, hann fór út í fag sitt til að reyna þagga niður í öðrum. Öðrum fjölmiðlum. Einstaklingum úti í bæ. Framhaldsskólakennara, sem er vel á minnst með meiri lestur en fjölmiðill hins klígjugjarna blaðamanns, að mér skilst.

Ef þessi blaðamaður, þessi andstæðingur tjáningarfrelsisins, fær svo mikið sem hænufeti framgengt í vegferð sinni þá er illt í efni.

En þótt blaðamaðurinn haldi að Moggabloggið sé upphaf og endir tjáningar íslenskra borgara á netinu, án aðkomu ritstjóra, þá er það svo sannarlega ekki raunin. Ef honum tekst að lokka þungan fót yfirvalda til að traðka á Moggablogginu þá spretta tíu önnur upp, og hætt við að þau verði síður kurteis í garð fasista en nú er raunin.

Skildu eftir skilaboð