Stríð og fjöldamorð

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Um 300 þúsund manns, hið minnsta, hafa fallið í stríði Rússa og Úkraínumanna. Enginn talar um fjöldamorð. Ástæðan er að allur þorri fallinna er hermenn. Fjöldamorð er þegar varnarlausir almennir borgarar eru myrtir. Þann 7. október frömdu hryðjuverkasamtökin Hamas fjöldamorð í Suður-Ísrael.

Ljósmyndin í þessari frétt og hér ofar sýnir m.a. ungar konur, sennilega á leið í vinnu eða skóla morgunsárið 7. október. Hamasliðar leituðu uppi varnarlausa og drápu með köldu blóði. Tilgangurinn er ekki hernaðarlegur. Myndskeið með fréttinni sýnir hryðjuverkamann hlaupa elta stúlku til að skjóta kúlu í höfuð hennar. Ekki stríð heldur fjöldamorð.

Eftir fjöldamorðin flúðu Hamasliðar til heimkynna sinna í Gaza. Þeir tóku með sér yfir 200 gísla, þar af mörg börn. Þeir nýttu m.a. sjúkrahús í Gaza til að fela gíslana. Öryggismyndavélar sýna svart á hvítu að hryðjuverkamenn Hamas gengu inn um aðalinngang sjúkrahúss með vélbyssur í hendi og gísla meðferðis.

Hryðjuverkamenn nota borgara í Gaza og gísla sem mannlega skildi

Ísraelsher gerði innrás í Gaza í tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi að koma morðingjum undir manna hendur. Í öðru lagi að frelsa gíslana. Í hernaðaraðgerðum Ísraela hafa margir óbreyttir borgarar fallið. Það er eðli stríðs í þéttbýli. Hamas hóf stríð með fjöldamorðunum 7. október. Ekki er til neitt sem heitir mannúðlegt stríð. En það eru til reglur, t.d. að nota ekki sjúkrahús undir hernað. Hamas virðir engar slíkar reglur. Enda hryðjuverkasamtök.

Í stríðinu í Úkraínu er deilt um land og rétt minnihlutahópa, rússneskumælandi íbúa Úkraínu. Í deilum arabaheimsins og Ísraela er einnig deilt um land og rétt minnihlutahópa. En annað og meira hangir á spýtunni: tilveruréttur Ísraelsríkis.

Balfour-yfirlýsingin frá 1917 gaf gyðingum rétt til heimkynna í landinu helga. Saga gyðinga er eldri en Rómarveldis. Júdea er nafn á ævagömlu konungsríki Ísraela með Jerúsalem sem höfuðborg.

Fram að Balfour-yfirlýsingunni fór lítið fyrir þjóðríkjum þar syðra um aldir. Tyrkjasoldán réð fyrir svæðinu fram að fyrra stríði en Bretar og Frakkar gerðu sig gildandi eftir fyrra stríð og fram yfir það seinna. Ný ríki, t.d. Sýrland, Líbanon, Írak og Jórdanía, voru búin til með strikum á landakorti, einkum af breskum og frönskum embættismönnum, einnig Ísrael. Þannig gerðust kaupin á eyrinni.

Arabar, og múslímar almennt, t.d. Persar í Íran, hafa ekki fallist á búsetu gyðinga í hundrað ár. Enn síður kættust þeir 1948 er Ísraelsríki var stofnað. Stríð Ísraels við nágrannaríki 1948, 1956, 1967 og 1973 eru til marks um það.

Íslam er eingyðistrú, líkt og kristni og gyðingdómur. Íslam yngsta útgáfan, verður til á 7. öld eftir Krist, og tekur sitt lítið af hverju frá fyrirmyndum sínum. Sterk hefð i múslímatrú, sem lifir góðu lífi enn í dag, er að aðgreina trúaða frá vantrúuðum. Hvorki er þessi hefð lifandi í kristni né gyðingdómi, sem hafa veraldarvæðst síðustu par hundruð ár eða svo. Trúarmenning múslíma fór á mis við Gutenberg og upplýsinguna.

Hryggstykkið í andófi múslímaríkja gegn tilveru Ísrael er trúarmenningin, íslam. Tvær megingreinar íslam, súnni og sjíta, sameinast þar en sitja að öðru leyti ekki á sátts höfði.

Í kalda stríðinu naut Ísrael stuðnings vestursins en arabaheimurinn hallaði sér að Sovétríkjunum. Við lok kalda stríðsins fyrir 30 árum misstu múslímar baklandið og efnahagslegt veldi þeirra þvarr, m.a. vegna olíuvinnslu með nýrri tækni. Ef vesturlönd væru einhuga um tilverurétt Ísraels myndi múslímaheimurinn sætta sig við orðinn hlut og taka gott og gilt Ísraelsríki, semja um það sem útaf stendur. En öfl á vesturlöndum eru í bandalagi með Hamas og harðlínumúslímum, sem vilja afmá Ísrael af landakortinu. Við sjáum örútgáfu bandalagsins á litla Íslandi.

Einir 315 starfsmenn Háskóla Íslands, um þriðjungur akademíska starfsliðsins, skrifa undir yfirlýsingu sem gæti verið saman á sellufundi Hamas. Ísrael er kennt við nýlendustefnu, þjóðarmorð og stríðsglæpi. Ekki eitt orð um fjöldamorðin 7. október. Norðurslóðadeild Hamas starfar af krafti í Háskóla Íslands. Á meðan hryðjuverkasamtökin eiga slíka bakhjarla vítt og breitt á vesturlöndum er engin hætta á öðru en að þau láti áfram til sín taka og leggi á ráðin um frekari fjöldamorð.

Blóðþyrstir vestur á Melum ættu leggja við hlustir þegar sonur eins af stofnendum Hamas talar. Maðurinn heitir Mosab Hassan Yousef. Skilaboðin: valið stendur á milli villimennsku og siðmenningar.

One Comment on “Stríð og fjöldamorð”

 1. Israhell stofnaði hamas til þessa glórulausi glópur.

  https://theintercept.com/2018/02/19/hamas-israel-palestine-conflict/

  Hamas eða ISIS israel security intelligence services. Kúkur eða skítur sama sama
  fjöldamorð á borgurum er fjöldamorð hvort sem að litlu hatta kallarnir geri það eða tusku hattarnir
  ordo ab chao
  Tek hvorki þátt né afstöðu með eða móti svona glórulausri red team blue team fyrir fullorðin börn.

Skildu eftir skilaboð