Þrýst á Úkraínu að semja við Rússa

frettinPáll Vilhjálmsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Leynilegt samkomulag er á milli Biden Bandaríkjaforseta og Scholz kanslara Þýskalands að binda endi á Úkraínustríðið og þvinga Selenskí forseta að samningaborðinu. Þýska útgáfan Bild segir að Bandaríkin og Þýskaland muni draga úr stuðningi við Úkraínu til að knýja á um samninga. Það verði gert á bakvið tjöldin. Opinberlega verði sagt að stuðningur haldi áfram en í reynd fær Úkraína minni pening og færri vopn.

Aðrir fjölmiðlar, t.d. Telegraph, taka upp á sína arma frétt Bild og segja vaxandi þrýsting á Úkraínu að semja. Útlitið er svart á vígvellinum.

Gagnsókn Úkraínu, sem hófst 4. júní í sumar, rann út í sandinn í september. Víglínan breyttist litið sem ekkert. Síðan hafa Rússar sótt í sig veðrið og ógna nú Adievka, hernaðarlega mikilvægri borg í Donbass-héruðunum. Rússar ráða um fimmtungi Úkraínu. Innrás Rússa, sem hófst í febrúar 2022 hefur kostað um 300 til 500 þúsund mannslíf.

Yfirlýst markmið Rússa er tvíþætt. Í fyrsta lagi að tryggja réttindi rússneskumælandi ríkisborgara Úkraínu. Í öðru lagi að koma í veg fyrir að Úkraína gangi í Nató. Hernaðarbandalagið með Úkraínu innanborð myndi ógna öryggishagsmunum rússneska ríkisins, er viðkvæðið í Moskvu.

Varla er tilviljun að í gær birtist viðtal við David Arakhamia sem fór fyrir úkraínsku sendinefndinni er ræddi friðarsamkomulag við Rússa í mars 2022, tveim mánuðum eftir að stríðsátök hófust. David Arakhamia segir að Rússar hafi fyrst og fremst viljað tryggja að Úkraína yrði hlutlaust land, yrði ekki Nató-ríki. Drög að samkomulagi voru undirrituð í Istambúl, Tyrklandi.

Boris Johnson þáverandi forsætisráðherra Bretlands fór til Kænugarðs, með umboð frá Biden Bandaríkjaforseta, eftir að Istambúl-drögin voru undirrituð, og setti Selenskí forseta úrslitakosti. Vesturlönd myndu hætta stuðningi við Úkraínu ef samið yrði við Rússa. Þar með var friðarsamningur úr sögunni. Úkraína stendur og fellur með vestrænu fjármagni og vopnum.

Í mars 2022 var staða Úkraínu öllu betri en hún er í dag. Landið var um það bil í heilu lagi og mannfall enn tiltölulega lítið. Í dag eru Rússar búnir að innlima Donbass-héruðin í Rússland auk héraðanna Kherson og Saparósíja. Um 200-300 þúsund Úkraínumenn hafa fallið. Efnahagskerfið er stórskaddað og innviðir að hruni komnir. Milljónir hafa flúið land. Konur eru sendar á vígvöllinn og deyja þar í skotgröfum. Herkvaðning gildir um alla á aldrinum 17 til sjötugs.

Selenskí forseti neitar alfarið að semja við Pútín starfsbróður sinn í Moskvu. Kannski verður það ekki hann sem semur. Ef leyniáætlunin, sem Bild segir frá, fær framgang lýkur stríðinu líklega öðru hvoru megin við áramót og ekki seinna en næsta vor, í tæka tíð fyrir bandarísku forsetakosningarnar 5. nóvember á næsta ári. Stríðslok verða með eða án Selenskí sem forseta Úkraínu.

Skildu eftir skilaboð