Kjörgengi Trumps hafnað

frettinBjörn Bjarnason, Erlent, Stjórnmál1 Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Aldrei fyrr hefur reynt á þetta ákvæði gagnvart forsetaframbjóðanda eða fyrrverandi forseta. Niðurstaðan veldur uppnámi í kosningabaráttunni.

Hæstiréttur Colarado-ríkis í Bandaríkjunum komst þriðjudaginn 19. desember að þeirri niðurstöðu að Donald Trump væri ekki kjörgengur í forkosningum repúblikana í ríkinu vegna forsetakosninganna í nóvember 2024. Vísaði rétturinn til 14. viðaukagreinar bandarísku stjórnarskrárinnar.

Niðurstaða dómaranna er að Trump hafi gerst brotlegur, hann hafi á sínum tíma svarið bandarísku stjórnarskránni hollustu en síðan tekið þátt í samblæstri gegn henni og ríkinu 6. janúar 2021 með því að hvetja til atlögu gegn þingi Bandaríkjanna.

Fjórir dómarar af sjö standa að dóminum. Í rökstuðningi þeirra segir að ekki hafi verið létt fyrir þá að komast að þessari niðurstöðu. Þeir hafi staðið frammi fyrir áhrifaríku og alvarlegu úrlausnarefni. Þeim séu einnig ljósar hátíðlegar skyldur sínar til að fara að lögum hvað sem öllu öðru líði og án tillits til þess hvernig almenningur bregðist við því sem þeim beri að gera lögum samkvæmt. Meirihlutinn telji að Trump sé óhæfur til að gegna embætti forseta samkvæmt 3. lið 14. viðaukans við stjórnarskrána.

Donald Trump

Aldrei fyrr hefur reynt á þetta ákvæði gagnvart forsetaframbjóðanda eða fyrrverandi forseta. Niðurstaðan veldur uppnámi í kosningabaráttunni. Hún hefur nú þegar borið mikinn svip af því að þar er annars vegar tekist á fyrir dómstólum og hins vegar á almennum stjórnmálavettvangi. Prófkjör hefjast í einstökum ríkjum í janúar 2024 og veldur dómurinn í Colarado óvissu langt út fyrir landamæri ríkisins. Spurningar vakna hvort leitað verði til dómstóla í öðrum ríkjum til að sannreyna hvort Trump sé kjörgengur þar.

Donald Trump var á kosningafundi í Iowa-ríki sama dag og Colarado-dómurinn féll. Hann minntist ekki á dóminn á fundinum en Steven Cheung, talsmaður kosningastjórnar Trumps, fordæmdi dómarana fyrir að gera tilraun til að útiloka þann frambjóðanda sem nyti mesta fylgis meðal repúblikana og kannanir sýndu sigurstranglegri en Joe Biden forseta. Málinu yrði skotið til Hæstaréttar Bandaríkjanna í Washington.

Kosningastjórnin sagði að gripið hefði verið til „alvarlegra andlýðræðislegra aðgerða“ gegn Trump. Hæstiréttur Bandaríkjanna myndi örugglega og fljótt dæma Trump í vil og binda enda á allar and-bandarískar lagaflækjur gegn honum. Repúblikaninn Mike Johnson, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, tók undir með kosningastjórn Trumps. Fólkið en ekki dómarar ætti að velja forseta Bandaríkjanna.

Allir dómarar í Hæstarétti Colorado eru skipaðir af demókrötum. Sex dómarar í Hæstarétti Bandaríkjanna, meirihluti réttarins, eru skipaðir af repúblikönum, þar af þrír af Donald Trump sjálfum. Þessir dómarar telja hins vegar allir að dæma eigi eftir bókstaf laganna og hafna „framsækinni“ túlkun, það er að dómarar taki fram fyrir hendur löggjafans.

Þetta eru ekki einu málaferlin gegn Trump. Kosningabaráttan í Bandaríkjunum verður háð í réttarsölunum af meiri þunga en áður næstu vikur. Donald Trump verður útmálaður sem þolandi óbærilegs óréttlætis og þannig grafið undan réttatrríkinu í örlagaríkum átökum.

One Comment on “Kjörgengi Trumps hafnað”

  1. btw, the 14th amendment is not applicable to the president. lol its unconstitutional law-fare. not to mention he was never found guilty of insurrection, which is what the 14th amendment is about. the biden crime family is flailing because according to all polling trump is winning regardless of what they try with the media. ég nenni ekki að skrifa þetta á íslensku… eins og þið eruð góð með suma hluti eru þið eftir á með aðra. fíla samt það sem þið gerið

Skildu eftir skilaboð