100 dagar á Gaza: Gíslana heim!

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Hinn 12. janúar voru 100 dagar liðnir frá því að Hamas fjöldamyrti fólk í Negev eyðimörkinni og enn eru um 132 gíslar á Gaza, ekki allir lifandi því miður. Til að sýna samstöðu með þeim sem enn eru þar innilokaðir hefur verið boðað til 100 mínútna verkfalls í Ísrael í dag klukkan 11 að morgni, sunnudaginn 14 janúar, að beiðni aðstandenda gíslanna og með samþykki verkalýðsleiðtoga.

Víða hafa menn límt upp myndir af gíslunum og þær einnig víða verið rifnar niður. Í New York hefur hópur manna setið fyrir Antonio Guterres, framkvæmdastjóra SÞ snemma á föstudagsmorgnum. Sú aðgerð hófst eftir að Guteres sagði að árás Hamas „hefði ekki átt sér stað í tómarúmi". Með tímanum finnst mótmælendum að votti á skilningi hjá Guterres og jafnvel samstöðu með þeim. Eftir að hann hafði horft á 47 mínútna mynd, upptökur frá árásinni, spurði einn skipuleggjenda Guterres hvernig hefði verið að horfa á hana og hann svaraði: „Mannlegt eðli gerist ekki verra" og samdægurs krafðist hann þess á X (Twitter) að allir gíslarnir yrðu skilyrðislaust látnir lausir. Mótmælendurnir vilja gjarnan að Guterres fordæmi innrásina umbúðalaust. „Ég kynni að meta það ef hann segði að nauðganir og mannrán auk morða á saklausu fólki flokkist ekki undir lögmæta andspyrnu", sagði Shany Granot-Lubaton, einn skipuleggjenda mótmælanna.

Sameinuðu þjóðirnar hafa legið undir ámæli um áhugaleysi á að rannsaka kynferðisglæpi Hamasliða gegn konum í innrásinni 7. okt. en nú hefur verið tilkynnt að Pramila Patten, sérstakur fulltrúi SÞ hvað kynferðisofbeldi á stríðstímum varðar, muni rannsaka þá hlið á innrásinni og var það tilkynnt tæpum tveim vikum eftir að New York Times birti niðurstöðu tveggja mánaða rannsókna sinna undir fyrirsögninni „Óp án orða: hvernig Hamas beitti kynferðisofbeldi sem vopni hinn 7. október". Í greininni er fyrst sagt frá Gal Abdush, tveggja barna móður sem fór á tónlistarhátíðina ásamt eiginmanni sínum en sást svo á myndbandi liðið lík, liggjandi á bakinu í rifnum kjól, nakin að neðan og útglennt. Í greininni segir frá því að lík í svipuðu ástandi hafi fundist á að minnsta kosti 7 stöðum - fleiri en 30 konur og stúlkur.

Samningar náðust um að um 100 gíslum yrði sleppt, þeim elstu og þeim yngstu, en enn eru fjórar 18-19 ára konur í haldi og óttast ættingjar að þær sæti sömu meðhöndlun og jasídakonur fengu hjá ISIS. Daily Mail birti nýlega myndir af þeim sem teknar voru skömmu eftir komuna til Gaza og þær höfðu greinilega verið beittar ofbeldi. Við síðustu „fangaskipti" virtist sem Hamas ætti í vandræðum með að finna gíslana og fólk sem hefur verið látið laust segir að sér hafi verið rænt af almennum borgurum og afhent Hamas og hin fransk/ísraelska Mia Shakem hefur sagt að fjölskylda hafi haft sig í haldi. Því er ekki einu sinni víst að Hamas gæti afhent stúlkurnar og Rauði krossinn getur ekki vitnað um líðan þeirra, þar sem meðlimir hans fá ekki eða vilja ekki fara inn á Gaza.

Það er engin von til að aðgerðum Ísraelsmanna gegn Hamas á Gaza ljúki á meðan þeir hafa alla þessa gísla í haldi og það sem hefur heyrst frá leiðtogum Hamas hefur ekki verið friðvænlegt. Það kom víða í fréttum er Ghazi Hamad hjá stjórnmálaarmi Hamas kom fram í sjónvarpi í Líbanon og lofaði að Hamas myndi endurtaka árásina hinn 7. október þar til Ísraelsríki hefði verið gjöreytt og æðsti leiðtogi Hamas, Ismail Haniyeh talaði á ráðstefnu í Katar (birtist á Al-Jazeera 9. jan.) um sigurinn sem hefði unnist hinn 7. október, tíminn ynni með þeim og nú væri tími „jíhads sverðanna" kominn. Hann talaði einnig um að Palestínumenn víða um heim mættu ekki líta á framlög til Gaza sem mannúðaraðstoð, heldur „fjármálalegt jíhad".

Nú er bara að sjá hvort Haniyeh tekst að æsa Palestínumenn á Vesturbakkanum upp í allsherjar jíhad eða hvort þeir spyrji sig hvort þeir eigi að hlusta á auðkýfinginn sem lifir lúxuslífi í Katar og halda áfram að moka peningum í þessa spilltu yfirstétt sem hefur rakað til sín hreint fáránlega miklum eignum á kostnað almennings. Sumarhúsið hans Marwan Issas, næstæðsta manns hernaðardeildar Hamas, er til dæmis hreint ekkert slor.

Skildu eftir skilaboð