Reisn, rottur og ungbarnamorð

frettinErlent1 Comment

Íris Erlingsdóttir skrifar:

Ef maður rekst á frásagnir af heimskulegum hugmyndum úr bandarískum löggjafarþingum – eins og kröfur um löggjöf sem skikkar framkvæmdavaldið til að gefa út fölsk persónuskilríki fyrir ákveðinn þjóðfélagshóp, eða bannar límgildrur svo rottur og mýs geti kvatt þessa jarðvist “með reisn” – er nokkuð víst að “Ísland” er í næstu málsgrein.

Fulltrúi Demókrata í Kaliforníu Ted Lieu kynnti nýlega frumvarp til laga um allsherjarbann á límgildrum. “Límgildrur eru ómannúðlegar og grimmileg leið til að útrýma nagdýrum… sagði hann og benti á að Ísland – án efa meðal heimsins kræfustu löggjafa – “…England, Írland og Nýja Sjáland hafa… bannað límgildrur.”
Fá löggjafarþing eru jafn reglugerðaglöð og Kaliforníuþing og Alþingi Íslendinga en hvorki Lieu né íslenskir þingmenn virðast hafa velt fyrir sér hvort notkun nagdýragildra sé yfir höfuð innan verksviðs löggjafans, hvað þá hvaðan þeir telja þingmenn hafa fengið rétt til að setja reglur um notkun þeirra á einkaheimilum.
Límgildrur, fyrir þá sem aldrei hafa notað þær, eru grunnir pappa- eða plastbakkar fylltir afar klístruðu lími og eru á Íslandi taldar brjóta í bága við l. 55/2013 um velferð dýra sem banna að "beita aðferðum [við eyðingu meindýra] sem valda þeim óþarfa limlestingum eða kvölum”. Með límgildrum “þarf að hafa daglegt eftirlit…til að aflífa mannúðlega þær mýs sem þar lenda (t.d. með kröftugu höfuðhöggi) eða sleppa þeim lifandi út” 🙄 og vitanlega er sauðsvörtum almenningi ekki treystandi fyrir þessu. Bann er því besta lausnin, þrátt fyrir þá augljósu staðreynd að sá sem setur gildruna vill binda enda á jarðvist kvikindanna sem þar festast eins fljótt og unnt er svo húsið fyllist ekki af Eau de rotnandi rottuhold ilmi.

Ekki aðeins er lagafrumvarp Lieu umdeilt, það stakk einnig harkalega í stúf við aðra tilkynningu þingmannsins sama dag, þar sem hann gagnrýndi andstæðinga fóstureyðinga. „Fimmtíu-og-eitt ár eru liðin frá ákvörðun Roe v. Wade [sem tryggði réttinn til fóstureyðinga]… „Roe var hnekkt af hæstarétti [Bandaríkjanna] öfga-hægrimanna…enn berjast MAGA öfgamenn gegn réttinum til fóstureyðinga.”

Þegar Roe v. Wade var felld úr gildi, gátu ríkin sett eigin löggjöf um fóstureyðingar – bannað þær alveg, sem 14 ríki hafa gert, leyft þær fram að ákveðnum tímamörkum (sex vikur í 16 ríkjum; 12–22 vikur í níu ríkjum) miðað  við “sjálfbærni” eins og 24 ríki hafa gert, þ.e., þegar fóstrið eða barnið getur lifað utan líkama móður (almennt miðað við 24 vikur) eða, eins og sjö ríki hafa gert, leyft ótakmarkaðar fóstureyðingar og þar með lögleitt heimild til að myrða fullburða ungbörn.

Hvernig hægt er hýsa þessar tvær hugmyndir – “reisn” fyrir rottur og mýs og stuðning við rétt til fóstureyðinga fram að fæðingu – samstundis í sama höfðinu er mér hulin ráðgáta. Að vilja löggjöf til að tryggja að nagdýr geti dáið með reisn og lög um takmarkalausan rétt til að deyða sex mánaða gömul fóstur – öllu heldur börn – og til að myrða fullburða börn í móðurkviði? Kalifornía bannar fóstureyðingar eftir 24. vikna/sex mánaða meðgöngu, en Lieu, eins og aðrir þingmenn Demókrata þar, vill ótakmarkaðan rétt til fóstureyðinga.

Í kjölfar ákvörðunar Hæstaréttar hefur réttindabarátta Demókrata varðandi fóstureyðingar gengið út í öfgar. Að 19 ríki skuli leyfa morð á 24. vikna eða sex mánaða gömlu fóstri, öllu heldur barni, og sjö ríki á fullburða barni, er merki um samviskulaust samfélag. Sex mánaða gamalt “fóstur” er barn og “fóstureyðing” er rangnefni. “Eyðing” 24. vikna fósturs er morð.

Baráttugleði Demókrata – já, “gleði”; eftir að þing Minnesotaríkis, þar sem ég bý, samþykkti lögin sem afnumdu allar takmarkanir á fóstureyðingum, “brutust út skrílslæti og húrrahróp eins og [eftir] vel heppnaðan fótboltaleik” en ekki atkvæðagreiðslu sem heimilaði að deyða ófædd börn, svo ég vitni í ummæli Ólínu Þorvarðardóttur eftir að Alþingi samþykkti l. 43/2019 um fóstureyðingar (“þungunarrof” er skræfulegt sýndaryrði) sem heimila fóstureyðingar til loka 22. viku í stað 18. “án þess að fyrir því liggi neinar…ástæður aðrar en ‘vilji’ móður” – væri skiljanleg ef ekki væri hægt koma í veg fyrir getnað, ef ekki væru í boði heilu hlaðborðin af upp að 99.8% öruggum getnaðarvörnum sem víða eru ókeypis, jafnvel hér í Bandaríkjunum. Það er auðvelt að koma í veg fyrir getnað barns, en guð almáttugur forði mér frá að tala um persónulega ábyrgð.

Ég hef aldrei gefið þessu málefni mikinn gaum – held ég hafi aldrei stungið niður penna það varðandi! Ég styð réttinn til fóstureyðinga fram að ákveðnum  tímamörkum og í fáfræði minni hélt ég að á Íslandi væru þau tólf vikur eins og í Danmörku, Finnlandi og Noregi, en af Norðurlöndunum er Ísland með frjálslyndustu löggjöfina – síðan 2019, þegar fóstureyðingar voru lögleiddar fram til loka 22. viku; Svíþjóð miðar við 18 vikur.

Ef unnt er að tala um ljósan flöt á umræðunni um fóstureyðingar er hann ef til vill sá að óvelkomin “slysabörn” þurfa ekki að fæðast inn í siðferðilegar eyðimerkur þar sem íbúarnir fagna réttinum til að myrða ungbörn en fangelsa fyrir meinta misnotkun meindýra.

Höfundur er fjölmiðlafræðingur

One Comment on “Reisn, rottur og ungbarnamorð”

  1. Fóstureyðing er morð á einstaklingi áður en hann fæðist. Brengluð hugmyndafræði guðleysingja breytir ekki þeirri staðreynd. En það má aldrei vanmeta sjúk lífsviðhorf guðleysingja.

Skildu eftir skilaboð