25% líkur á Nató-stríði við Rússa

frettinErlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Næstu tvö árin eru 25% líkur á að stríð brjótist út á milli Bretlands og Rússlands, segir breska ríkisstjórnin. Rætt er um herskyldu í Bretlandi. Nánasti bandamaðurinn, Bandaríkin, skaffar ný kjarnorkuvopn.

Allt er þetta vegna Úkraínustríðsins sem hófst fyrir tveim árum. Fréttir af stríðinu gerast æ strjálli. Í stuttu máli er hægur framgangur, en hann er allur Rússum í hag. Þorri þeirra sem gefa sig út fyrir að vera sérfróðir telja að Úkraína tapi. Spurningin er hvenær og hvernig. Einhverjir mánuðir enn líklega, kannski ekki fyrr en vorið 2025, sem átökum linnir.

Áhugaverðari spurning er hvernig en hvenær. Tvær meginútgáfur eru í umræðunni. Að Rússar leggi undir sig Úkraínu alla annars vegar og hins vegar að þeir láti nægja austurhluta landsins, t.d. frá Dnepró-ánni.

Bretland óttast ekki innrás Rússa í eyríkið. Þjóðverjar tala á líkum nótum, segja stríð yfirvofandi, en gera ekki ráð fyrir rússneskum skriðdrekum í Berlín.

Ástæða ótta Breta og Þjóðverja, en síður Bandaríkjamanna, er Nató. Hernaðarbandalagið var stofnað í kalda stríðinu til að hemja heimskommúnisma Sovétríkjanna. Stofnskrá Nató segir að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll. Virkaði í kalda stríðinu. Síður núna.

Úkraínustríðið er bræðrabylta tveggja slavneskra þjóða. Ekki er um að ræða átök vesturs og austurs, líkt og í kalda stríðinu. Rússland stendur ekki fyrir heimskommúnisma eða aðra yfirþjóðlega hugmyndafræði. Helstu bakhjarlar Úkraínu, Nató og ESB, boða aftur yfirþjóðlega heimsvaldastefnu. Auðvitað er ekki gengist við hugmyndafræðinni. Hún er kölluð lýðræði sem er áferðafallegt orð en innihaldslaust í höndum alþjóðastofnana.

Á dögum Rómarveldis var talað um rómverskan frið. Hugtakið þýddi rómverskt yfirvald. Í Brussel, sem hýsir bæði höfuðstöðvar Nató og ESB, er litið á lýðræði sem ógn við stöðugleika þegar það er iðkað af aðildarþjóðum. Út á við er lýðræðið gert að æðstu verðmætum. Hljóð og mynd fara ekki saman.

Að því marki sem Úkraínustríðið er ekki innansveitarkróníka er það útþensla Nató og ESB í austurátt. Niðurstaðan liggur fyrir þótt ekki sé stríðinu lokið. Úkraína verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð Nató/ESB-ríki.

Í Austur-Evrópu er vestrænt lýðræði komið á endastöð. Það fór með Úkraínu eins og Írak sem átti að umbreyta í vestræna fyrirmynd. Í einn stað var eftirspurnin eftir vestrænu lýðræði ekki næg. Í annan stað voru vesturlönd ekki nógu sannfærð og staðföst um eigin yfirburði. Rómverjar þekktu gjaldið fyrir rómverskan frið. Fimmtíu árum fyrir fæðingu frelsarans lagði Júlíus Sesar undir sig lönd Galla, þar sem núna er Frakkland. Sesar drap um milljón manns. Það er töluvert blóð fyrir frið.

Næstu Nató-nágrannar Rússa, einkum Eystrasaltslöndin og Pólland, óttast að eftir rússneskan sigur í sléttustríðinu aukist matarlyst Pútín og félaga. Þetta er ástæðan fyrir ótta og andstyggð í London og Berlín. Samkvæmt Nató-reglum eru Bretland, Þýskaland og öll hín aðildarríkin, Ísland meðtalið, ábyrg fyrir ytri landmærum einstakra Nató-ríkja.

Í raun er það aðeins eitt Nató-ríki sem ákveður hvort hernaðarbandalagið fari í stríð við Rússland. Bandaríkin hafa öll ráð Nató í hendi sér. Í haust eru forsetakosningar þar vestra. Sigri Trump verður ekkert Nató-stríð við Rússa. Kannski verður ekkert Nató. Mestar líkur eru að í Evrópu ríki rússneskur friður.

Skildu eftir skilaboð