Pútin-viðtalið sem allir (og enginn) eru að tala um

frettinInnlendar1 Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Um daginn var tekið viðtal við forseta Rússlands. Það var tekið af vestrænum blaðamanni, Tucker Carlson, og fyrsta viðtalið af þeirri tegund síðan Pútin sendi rússneska hermenn yfir landamæri Úkraínu í febrúar 2022. Viðtalið teygði sig í yfir 2 klukkustundir og fór um víðan völl. Blaðamaður spurði meðal annars hvernig kristinn maður gæti fyrirskipað dráp á fólki og hvers vegna hann héldi ungum, bandarískum blaðamanni í fangelsi. Blaðamaður hló hátt þegar Pútin sagðist ekki muna hvenær hann talaði seinast við Bandaríkjaforseta. Ákveðin vanvirðing, en hafði engar afleiðingar.

Þetta var athyglisvert viðtal. Það byrjaði á hefðbundinn hátt. Blaðamaður spurði spurningar er snéri að líðandi stundu. Forsetinn stoppaði þá blaðamann í sporunum og spurði:

Erum við í spjallþætti eða að í alvarlegum samræðum?

__________

Are we having a talkshow or a serious conversation?

Eftir þessa spurningu byrjaði viðtalið smátt og smátt að breyta um eðli. Svör forsetans voru löng þótt hann hafi ítrekað sagst vera að forðast smáatriðin. Smátt og smátt gaf blaðamaður leyfi fyrir löng svör án þess að trufla. Hann fékk líka að spyrja að vild, jafnvel eftir tvær klukkustundir af viðtalstíma.

Menn geta haft allar heimsins skoðanir á forseta Rússlands, blaðamanninum bandaríska eða því sem fór fram. En þarna fór fram langt viðtal þar sem margt kom fram. Flest kannski endurtekning fyrir þá sem hafa fylgt málum eftir, en kannski mikið af nýju efni fyrir aðra (viðtalið hefur fengið tugmilljónir áhorfa og ekkert lát þar á).

Það var auðvitað viðbúið að CNN, BBC og aðrir miðlar (sem sögðu eitthvað, frekar en ekkert) reyndu að afskrifa viðtalið strax sem drottningarviðtal (viðtal sem forðaðist óþægilegar spurningar) eða viðtal fullt af sögufölsunum.

En hvað fundu margir að viðtalinu?

Jú, það var svo langt!

Í mjög litlu fréttainnslagi á BBC (innan við 5 mín.) er kvartað yfir þessu í nokkur skipti. Um leið kvartar blaðamaður BBC yfir því að hafa ekki fengið að taka viðtal við Pútin, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir.

Setjum okkur aðeins í spor Rússlandsforseta: Blaðamaður vill taka við hann viðtal, en það þarf að vera stutt. Bara spurningar og svör. Engar langar ræður um söguna, eins og forsetinn sér hana, eða aðdraganda að einu né neinu. Viðtal þar sem er þjarmað að og öll frávik frá beinu svari meðhöndluð sem útúrsnúningur eða leið til að afvegaleiða umræðuna.

Skiljanlega hafnar maður sem hefur frá mörgu að segja, rétt eða rangt, slíkri viðtalsbeiðni.

Blaðamenn eru vitaskuld ekki með á nótunum. Svokallað "long-form interview", sem mætti einfaldlega þýða sem viðtal sem tekur langan tíma, eru undirstaðan að velgengni margra vinsælla hlaðvarpsþátta, og þarf þá fyrst og fremst að nefna Joe Rogan í því samhengi. Það er einfaldlega eftirspurn eftir dýpri samtölum, kæru blaðamenn!

Blaðamenn eru ekki komnir á þennan stað. Þeir vilja hraða vinnslu af spurningum og svörum og grípa fyrirsagnir úr slíku spjalli. Þeir eru ekki að hlusta. Þeir eru ekki að eiga í alvarlegum samræðum. Þeir eru að reka spjallþætti. Og kannski kæra sig ekki allir um að setjast í slíka gryfju.

Við blaðamenn vil ég því segja: Prófið að taka löng viðtöl, og ef þið þurfið að taka með ykkur vatnsbrúsa þá verður bara að hafa það. Margir mögulegir viðmælendur láta ekki bjóða sér annað.

Tel ég það vera lærdóminn af viðtali Tucker Carlson við Vladimír Pútin.

One Comment on “Pútin-viðtalið sem allir (og enginn) eru að tala um”

  1. „Poor half deaf idiots. They want immediate answers to everything. Even questions that involve ages of history.“

    – Monet

Skildu eftir skilaboð