Geir Ágústsson skrifar:
Fyrir ekki löngu síðan las ég eftirfarandi orð, byggð á viðtali við Íslending sem hafði fengið heilablóðfall og var, og er, að jafna sig á því:
„Ég hef aldrei drukkið, aldrei reykt, aldrei verið í yfirþyngd. Í rauninni eina boxið sem ég tikka í, sem er talið geta orsakað heilablóðfall er kannski streita. En það er annar hver maður að burðast með streitu. En ég er kannski smá sek um það […] Eins og ég skilgreindi velgengni var að hafa rosalega mikið að gera, segja já við öllum verkefnum og hafa nóg að gera,“
Ég held að íslenska ríkið ætti að tengja við þetta. Það telur sig vera í hollustunni en er það ekki.
Það er að segja já við öllu: Hælisleitendum, ákalli um að fjármagna stríðsátök, ákalli um að senda opinbera starfsmenn erlendis til að múta þar spilltum landamæravörðum, ákalli um að skipta út hagkvæmri orku fyrir óhagkvæma og úr hreinni orku yfir í óhreina, ákalli um að fjármagna ríkisreksturinn á yfirdrætti, ákalli um að gera allt fyrir alla á meðan það snýr ekki að grunnþjónustunni sem flestir halda, ranglega, að sé í forgangi.
Heilablóðfall íslenska ríkisins er hafið. Það er nú þegar að valda sársauka og jafnvel lömun.
Besta hugmyndin er þá sú að halda áfram að segja já við öllu en reyna að gera betur.
Kannski þingið ætti að hefja sumarfrí sitt bráðum. Ríkið gerir voðalega lítið af sér á meðan þingmenn eru í fríi. Það hættir að segja já við nýjum verkefnum. Heilablóðfall ríkisins fær möguleika á að hjaðna.
Betra er langt frí en vinnuvika sem endar á heilablóðfalli.