Páll Vilhjálmsson skrifar:
Í nótt sigraði Trump í forvali repúblíkana í Suður-Karólínu með yfirburðum. Trump á Repúblíkanaflokkinn, segir Die Welt. Í viðtengdri frétt segir Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Úkraínu nær Nató en nokkru sinni. Jens á við Evrópu-deild Nató, sem er nýtt hugtak um nýjan veruleika.
Nató er með böggum hildar eftir ummæli Trump að Bandaríkin ættu ekki að verja þau Nató-ríki sem koma sér undan skuldbindingum í varnarmálum. Trump er líklegur næsti Bandaríkjaforseti. Þjóðverjar, nákvæmnismenn sem þeir eru, hafa sett á kort þau ríki ekki njóta Nató-verndar, samkvæmt trúlkun Trump.
Bretland er ekki með neina áætlun ef Trump dregur Bandaríkin úr Nató, segir í Telegraph. Valdamenn í Evrópu vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Gamla varnarkerfið er að hruni komið og óvissa framundan.
Tveir hornsteinar Nató í kalda stríðinu voru hernaðarmáttur Bandaríkjanna annars vegar og hins vegar trúverðugleiki fimmtu greinar stofnsáttmála Nató um að árás á eitt bandalagsríki jafngilti árás á þau öll. Í kalda stríðinu var Evrópu skipt í tvennt, kommúnisma og borgaralegt lýðræði. Hornsteinar Nató stóðust prófraun kalda stríðsins.
Í dag er öldin önnur. Evrópa er ekki lengur tvískipt. Það er enginn kommúnismi, þótt trauðla megi með góðu móti kenna álfuna í heild við borgaralegt vestrænt lýðræði.
Sígild stórveldagreining á best við Evrópu samtímans. Tvö lykilríki, Frakkland og Þýskaland, stjórna Evrópusambandinu, sem má kalla stórveldi. Austan ESB er Rússland stórveldi. Vestur af meginlandinu er Bretland, sem er gamalt stórveldi en stendur ekki undir nafni nema að því leyti sem sögulega náinn vinskapur við Bandaríkin leyfir.
Stórveldin tvö í Evrópu, ESB og Rússland, stríða um hvort Úkraína skuli tilheyra ESB eða vera hlutlaust - í reynd undir áhrifasvæði Rússa. Bandaríkin hafa stutt viðleitni ESB, og höfðu til skamms tíma forystu, en nú með hangandi hendi. Vígstaðan er Rússum í vil enda Úkraína í bakgarði þeirra, líkt og Mexíkó er bandarískt heimatún í skilningi stórveldahagsmuna. Ný skoðanakönnun sýnir 64% Þjóðverja telja stríðið tapað. Skriftin er á veggnum.
Úkraínustríðinu lýkur á rússneskum forsendum. Sjálfkrafa veikist ESB, verður minna stórveldi í samanburði við Rússland. Austurvíkingi ESB er lokið. Nýr veruleiki blasir við. Nató, hernaðarbandalag þvert á Atlantsála, verður í reynd Ameríku-deild og Evrópu-deild. Er það ekki síst vegna þróunar bandarískra stjórnmála.
Bandaríkin fjarlægjast hægt en örugglega skuldbindingar sínar frá kalda stríðinu. Orð Trump eru til marks um það. Hvorki bandarískir hermenn né Nató-hermenn berjast í Úkraínu, nema sem málaliðar. Ástæðan er einföld. Það hefur ekki tekist að selja Úkraínustríðið sem baráttu góðs og ills. Takmörk eru fyrir trúgirni fólks. Jafnvel á meðan kalda stríðið stóð í blóma keypti almenningur ekki að víetnamskir hrísgrjónabændur væru útsendarar heimskommúnismans. Raunsæi trompar hugsjónir er til lengdar lætur.
Hver er staða Íslands í hnignun Nató? Harla góð. Í gildi er varnarsamningur á milli Íslands og Bandaríkjanna, sem vísar raunar í Nató, en samningurinn er að öðru leyti sjálfstæður milli tveggja lýðvelda. Endurskilgreining á öryggishagsmunum Bandaríkjanna mun alltaf fela í sér varðstöðu um Norður-Atlantshaf. Fullmikið væri sagt að Ísland sé Bandaríkjunum nauðsynlegt. Á hinn bóginn er kristalstært að heimavarnir austurstrandar Bandaríkjanna yrðu síðri ef ekki nyti aðstöðu á Íslandi. Við erum og verðum í Ameríku-deild Nató.
Í öryggismálum, síður í menningarmálum, er sérstakur bónus fyrir Íslendinga að vera ekki á evrópsku öryggissvæði heldur bandarísku. Meginland Evrópu, ESB, á fyrir höndum stórt verkefni, sem er að finna leið til að lifa með sterku Rússlandi. Fyrir Íslendinga er best að halda sig fjarri þeim hráskinnaleik.
Auga leið gefur að Ísland gengur ekki í fyrirsjáanlegri framtíð í Evrópusambandið og Evrópu-deild Nató í leiðinni. Trumpvæðing Ameríku tryggir Ísland gagnvart ásælni Evrópusambandsins.