Geir Ágústsson skrifar:
Starf ráðherra er krefjandi. Ég efast ekki um það. Að mörgu er að hyggja. Ráðherrar eru yfirleitt þingmenn líka og þurfa að rækta ýmsar skyldur. Þeir þurfa líka að troða sér í sem flest viðtöl til að minna kjósendur á tilvist sína.
Það er því kannski ekki skrýtið að maður fái það á tilfinninguna að íslensk stjórnsýsla sé full af stjórnlausum stofnunum sem haga sér eins og ríki í ríkinu án þess að ráðherrar grípi í taumana.
Þetta á við um Seðlabanka Íslands og auðvitað Samkeppniseftirlitið. Stofnanir ferðast um landið og slátra heilu fjárhúsunum ef þannig liggur á þeim. Þær verðlauna starfsmenn sína fyrir að ákæra sem flesta um brot og svik. Þær halda innfluttum vörum í gíslingu og dreifa sektum yfir fólk og fyrirtæki fyrir allskyns meint brot, eins og að verðmerkja ekki heilhveitibrauðið nógu vel. Vel reyndar aðferðir til að greiða úr málum víkja fyrir nýjum túlkunum. Leyfisveitingar eru settar ofan í skúffu til að tefja fyrir nauðsynlegum framkvæmdum.
Stjórnlausar stofnanir hvert sem litið er.
Mögulega gæti einhver séð lausn í því að raða enn fleiri aðstoðarmönnum á ráðherrana svo þeir geti fylgst almennilega með þeirri starfsemi sem heyrir undir ráðuneyti þeirra en ég held ekki. Ég held að ráðherrar ættu bara að taka slaginn við báknið þegar þess gerist þörf. Ef þeir þora. Þeir sem þora ekki mega gjarnan víkja.
Sjá viðtengda frétt: Málareksturinn kostaði 2. milljarða.