Tónlistargoðsögnin Elton John tók nýlega viðtal við íslensku tónlistarkonuna Laufeyju í hlaðvarpinu sínu Rocket Hour. Í þættinum fer hann fögrum orðum um tónlist Laufeyjar.
Í sameiginlegri færslu Laufeyjar og Elton John á Instagram er myndbrot úr þættinum þar sem þau tala um tónlistina og yfirstandandi tónleikaferðalag hennar.
„Sem tónlistarmaður veit ég hversu góður tónlistarmaður þú ert. Það er æðislegt að sjá hve góðum árangri þú hefur náð,“ segir Elton John við Laufeyju og spyr hvað sé á dagskrá hjá henni.
„Ég held að nú sé runnið upp fyrsta stóra tónleikaárið mitt. Ég verð mikið á faraldsfæti og ferðast til næstum hverrar einustu heimsálfu,“ segir hún.
Elton John segir frábært að sjá hersu margar konur eru að blómstra í tónlistariðnaðinum og nefnir þar Lana Del Rey, Billie Eilish, ásamt Laufey.
„Það er alveg dásamlegt sjá hið kvenlega taka yfir hið karlmannlega í tónsmíðum. Þú ert svo sannarlega ein þeirra sem ryðja þá braut,“ segir Elton.
„Mér finnst einmitt að þegar ég sem tónlist sem gerir mig að mér, sem sagt tónlist sem mér finnst sérstaklega góð, þá gengur mér best. Það er svo sannarlega góður tími fyrir konur í tónlist núna,“ svarar Laufey.
Elton John hefur haldið úti hlaðvarpinu frá árinu 2015 og hefur fengið til sín gesti á borð við Lizzo, Billie Eilish, Tame Impala og Tom Odell. Áskrifendur Apple Music geta hlustað á þáttinn í heild sinni þar.