Er rétt að setja alla er hingað vilja koma undir einn hatt?

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, Innflytjendamál, InnlentLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Nýlega var fjallað um skýrslugerð Dana um kostnað/hagnað þjóðfélagsins vegna innflytjenda í Viðskiptablaðinu, en Danir hafa haldið skýrslur um atvinnuþátttöku, afbrot og kostnað/hagnað vegna innflytjenda frá hinum ýmsu löndum og afkomenda þeirra í nokkuð mörg ár. Skýrslur þeirra sýna að 62% innflytjenda frá MENAPT löndum (Mið -Austurlönd, Afríka, Pakistan, Tyrkland) kosta ríki og sveitarfélög umfram það sem þeir greiða í skatta. Í heild hafa þeir sem koma frá MENAPT löndunum  27,7% minni atvinnuþáttöku en Danir þegar þeir eru þrítugir og 44,6% minni við 55 ára aldur. Karlkyns innflytjendur frá MENAPT eru þrisvar sinnum líklegri til að brjóta dönsku hegningarlögin en þeir sem eru danskir að uppruna og afkomendur innflytjenda frá þeim löndum  eru 4,25 sinnum líklegri til að brjóta af sér en Danir. Árið 2019 var hreinn kostnaður af innflytjendum og afkomendum þeirra samanlagt 291 milljarður íslenskra króna, segir í Viðskiptablaðinu þar sem líta má súlurit er sýna atvinnuþátttöku, glæpatíðni og kostnað/hagnað vegna mismunandi hópa innflytjenda.

Á Íslandi er orðræðan enn sú að við þurfum á innflytjendum að halda og hunsum fregnir af því að sumir þeirra leiti stíft til hjálparstofnana því þeir eigi ekki fyrir mat. Slík er staðan víða í Evrópu. Í nóvember 2023 mátti t.d. lesa í Bild að á sama ári hefðu mun fleiri útlendingar en þeir sem hafi þýskan ríkisborgarrétt þegið það sem þeir kalla bürgergeld (tók við af atvinnuleysisbótum). Af þeim sem þiggja slíkar bætur og hafa fyrir fjölskyldu að sjá voru 221.918 þýskir en 354.826 útlendir. Erlend börn virðast þar mörg alast upp í fátækt.

Efnahagslega óvirkir innflytjendur

Nýlega vakti Nigel Farage (Mr. Brexit) athygli á því að samkvæmt nýrri skýrslu er Rob Bates hjá hugveitunni Center for Migration Control tók saman þá hefðu efnahagslega óvirkir innflytjendur í Bretlandi kostað þjóðina 24 milljarða punda frá 2020. Í viðtali við Nigel á GB News segir Bates að í landinu séu 1.13 milljónir manna er leggi ekki neitt til samfélagsins, séu ekki tímabundið atvinnulausir eða á milli starfa heldur óvirkir en þiggi samt ýmsa opinbera þjónustu. Nigel minnist á að 10 milljónir borgara hafi bæst við frá því að Tony Blair opnaði landamærin á sínum tíma, sem auki álag á heilbrigðiskerfið, löggæsluna, vegakerfið og húsnæðismarkaðinn og minnir á  reiði skattborgaranna yfir því að þurfa að leggja út 8 milljónir punda hvern dag til að halda uppi ólöglegum flækingum er koma með bátum frá Frakklandi.

Hann spyr Rob Bates, sem vann einnig að Brexit, af hverju slík skýrsla hafi ekki verið tekin saman fyrr og Bates segir að menn hafi verið sammála um að fjölgun íbúa Bretlandseyja sé góð fyrir efnahaginn, aukin verg þjóðarframleiðsla (GDP) sé sögð af hinu góða og bjúrókratarnir hangi á þeirri hugmynd eins og hundur á roði og efasemdir um ágæti fólksfjölgunarinnar komist ekki að.

Innflytjendagettó að hætti Dana og Svía

Verðum við ekki að fara að viðurkenna að innflytjendur tileinki sé ekki hugsunarhátt innfæddra hvað varðar þokkalega virðingu fyrir lögum og reglu og skilning á því að há atvinnuþátttaka sé forsenda velmegunar í landinu við það eitt að lenda í Keflavík? Verðum við ekki að fara að spá í hvaða fólk sé líklegt til að spjara sig í þessu harðbýla landi og aðlagast hér svo við munum ekki horfa upp á myndun innflytjendagettóa að hætti Dana og Svía?

Önnur spurning. Hermt er að Íslendingum fækki í Reykjavík þótt fjölgað hafi þar um 21.000 á tímabilinu frá 2014 til 2023. Verðum við sátt við að verða í minnihluta í höfuðborginni líkt og gerst hefur t.d. í London, þar sem aðeins 36.8% íbúa voru hvítir Bretar skv. manntali 2021? Verður það betri borg?

Skildu eftir skilaboð