Að vinna gegn sjálfum sér

frettinBjörn Bjarnason, Innlent, StjórnmálLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Leiðin til að ná árangri er ekki að tala flokkinn niður heldur hvetja til svo mikils stuðnings við hann að tekið sé meira tillit til stefnu hans.

Óttar Guðmundsson læknir er glöggur greinandi á strauma í þjóðfélagsumræðunum. Hann fjallar í vikulegum pistli sínum í dag (9. mars) um pólitíska ólund.

Í upphafi minnist Óttar á mikla óeiningu á stjórnarheimilinu þar sem vinstri grænir og sjálfstæðismenn skiptist á ásökunum hvor í annars garð en framsóknarmenn sigli bil beggja í þögulli meðvirkni.

Óttar segir að með þessari stöðugu ólund haldi stjórnarflokkarnir uppi „öflugri stjórnarandstöðu“. Það sé „útilokað að ímynda sér pólitíska sigra eða stemmingu í kringum þessa óhamingjusömu pólitíkusa sem vinna af alefli gegn sjálfum sér“.

Þetta er hárrétt hjá Óttari og í raun stöðugt undrunarefni hve fljótt menn hlaupa út á þá braut að hallmæla einhverju úr fortíð eigin flokks þegar hann breytir þó um stefnu til betri vegar að þeirra eigin mati. Það er mjög rík tilhneiging til að slá sig til riddara á kostnað annarra og segja: Sjáið þið bara, ég hafði rétt fyrir mér! Að baki býr að þeim sé ekki unnt að treysta sem ráða ferðinni.

Óttar segir sömu ólundina í kringum Landspítalann. Nú séu „allir óánægðir með nýja spítalann áður en hann er fokheldur og finna honum allt til foráttu“. Á spítalanum séu nefnilega allir í fýlu og tali um hörmungarástand á bráðamóttöku og biðlistum. Daglegar fréttir berist frá læknum að allt sé í kaldakoli og stöðugu neyðarástandi og þeir sjálfir bæði að brenna út og kulna. Niðurstaða Óttars er skýr:

„Bæði spítalann og stjórnmálaflokkana vantar jákvætt fólk til að bæta ímynd þessara stofnana. Það er ekki eðlilegt að enginn vilji kjósa ákveðna flokka eða leita sér hjálpar á bráðamóttöku vegna ólundar og fýlupokastjórnunar. Það þarf að kenna fólki að hætta að tala sjálft sig niður!“

Þríhyrningur - úr Fljótshlíð.

Eðli stjórnmálastarfs er að þar skiptist menn á skoðunum og velji fólk til forystu í því skyni að hrinda stefnumálum í framkvæmd. Hér eru skýr ágreiningsmál milli stjórnmálaflokka og draga má línur á milli hægri og vinstri stefnu. Hér er einnig þingkosningakerfið þannig að beinlínis er gert ráð fyrir að flokkar semji sín á milli um stjórnarstefnu að kosningum loknum.

Í rúm sex ár hefur setið hér „stjórn yfir miðjuna“ eins og það er kallað annars staðar á Norðurlöndum þar sem skilin á milli hægri og vinstri flokkahópa eru mun skýrari en hér. Vinstrið hefur forsætisráðherraembættið hér en hægrið flesta ráðherra og þungavigtarráðuneyti, miðjan er einfaldlega á miðjunni.

Innan stórs stjórnmálaflokks eins og Sjálfstæðisflokksins eru hópar með mismunandi pólitísk baráttumál. Þeir sem aðhyllast aðild að NATO og EES geta ekki kvartað undan núverandi stjórn. Það gera hins vegar þeir sem vilja meiri orkuframkvæmdir, meira aðhald í ríkisfjármálum og harðari útlendingastefnu. Ráðherrar flokksins í þessum málaflokkum komast ekki eins langt með stefnumálin og flokksmenn vilja. Leiðin til að ná árangri er ekki að tala flokkinn niður heldur hvetja til svo mikils stuðnings við hann að tekið sé meira tillit til stefnu hans.

Skildu eftir skilaboð