Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Fyrr í vikunni gaf sérstakur rannsakandi Sameinuðu þjóðanna á kynferðisglæpum í stríði, Pramila Patten, út niðurstöður sínar úr rannsókn á kynferðisofbeldi Hamasliða hinn 7. október. Niðurstaða hennar eftir að hafa dvalið í Ísrael og skoðað ótal ljósmyndir og myndbandsupptökur, sumar eftir Hamasliðana sjálfa, var sú að fyrir lægju skýrar og sannfærandi upplýsingar um að þeir hefðu framið nauðganir, hópnauðganir og jafnvel níðst á líkum á þrem stöðum, á Nova tónlistarhátíðinni, á aðliggjandi vegi og í einu samyrkjubúi. Hún segir einnig að reikna megi með því að þeir gíslar sem enn eru í haldi á Gasa búi við kynferðisofbeldi, þar á meðal nauðganir. Guteres, framkvæmdastjóri SÞ hefur fengið afrit af skýrslunni.
Reynt að koma á vopnahléi
Bandaríkjamenn reyna nú að koma á sex vikna vopnahléi með möguleika á framlengingu, meðal annars til að koma vistum inn á Gasa, en Ísraelsmenn hafa krafist að fá að vita hverjir gíslanna væru enn á lífi en samningamenn Hamas segjast ekkert vita um slíkt eða hvar þeir séu. Til að finna út úr því þurfi vopnahléið fyrst að hefjast. Samningaviðræður munu enn í gangi, Ísraelsmenn vilja fá allar konur, aldraða og sjúka heim og Gasabúar munu vilja geta gert vel við sig á Ramadan, sem hófst 10 mars,.
Óbreyttur aðgangur að Al-Aqsa
Þótt að landið sé í miðju stríði við Hamas og önnur hryðjuverkaöfl á Gasa þá hefur Netanjahu, að fengnu samráði við IDF og Shin Bet, afráðið að leyfa múslimum í Ísrael og á Vesturbakkanum sama aðgang að Musterishæðinni (og Al-Aqsa moskunni) á Ramadan og undanfarin ár. Ungir múslimar af Vesturbakkanum og þeir sem eru á skrá hjá Shin Bet verða útilokaðir eins og venjulega. Samt er trúlegt að einhverjir taki upp á því að sanka að sér grjóti og jafnvel mólotovkokteilum inni í Al-Aqsa, grýti lögregluna og verði yfirbugaðir með táragasi og gúmíkúlum. Það er nær árlegur viðburður. Í ár verður spennan enn meiri en venjulega því Hesbollah hefur verið að sýna klærnar og svo hefur ekki verið neitt friðsemdarhljóð í helsta leiðtoga Hamas, Ismail Haniyeh, sem dvelur í góðu yfirlæti í Katar.
Helsti leiðtogi Hamas kallar eftir jíhadi sverðanna
Haniyeh hélt ræðu á þingi í Doha, Katar, í janúar á þessu ári og sagði að jíhad sverðanna væri runnið upp, annað dygði ekki. Orustan stæði um Jerúsalem og Al-Aqsa moskuna; þetta væri ekki stríð Palestínumanna eða Gasabúa. Hann sagði að tíminn ynni með þeim, þeir mættu ekki láta þetta tækifæri ganga sér úr greipum, byggja skyldi á þeim sigri er hefði unnist 7. október. Palestínumenn skyldu nú skipuleggja sig og þrýsta á yfirvöld þar sem þeir búi, jafnvel með mótmælum, og einnig senda fulltrúa sína til Vesturlanda til að tala um Palestínu, Jerúsalem og nauðsyn þess að hætta hernaði á Gasa. Einnig minnti hann á þörf þess að safna peningum fyrir málstaðinn, líta skyldi á það sem fjárhagslegt jíhad.
Ramadan mánuður verður því tæpast friðvænlegur og alls ekki nema vopnahlé komist á á Gasa - sem verður ekki nema kynlífsþrælum Gasabúa, auk öldruðum og sjúkum, verði skilað.