Páll Vilhjálmsson skrifar:
Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélags Íslands kynnir í skoðanapistli á Vísi vitundarherferð um mikilvægi blaðamennsku.
Digur orð eru höfð um mikilvægi blaðamennsku fyrir lýðræði og almannahag. Einhver uggur er í brjósti formannsins um að íslensk blaðamennska sé á fallandi fæti. Formaðurinn skrifar:
Upplýsingaóreiða og pólarísering í samfélaginu hefur aukist mikið og sótt er að blaðamönnum og fréttamiðlum með ýmsum hætti.
Ekki er tilgreint hverjir ,,sækja að" blaðamönnum og fjölmiðlum. Blaðamenn eru sjálfir verstu óvinir blaðamennskunnar. Það sést best á orðinu sem blaðamenn taka sér ekki lengur í munn. Það er eins og að nefna snöru í hengds manns húsi.
Orðið hefur fylgt blaðamennsku frá öndverðu. Orðinu bregður ekki fyrir, hvorki í pistli Sigríðar Daggar né í vitundarherferðinni.
Orðið er heiðarleiki.
Blaðamennska án heiðarleika er eins og hver önnur upplýsingaóreiða. Heiðarleikinn skilur á milli blaðamannsins sem skrifar fréttir eftir bestu vitund og falsfréttamannsins. Helgi Seljan er með hlutverk í herferðinni. Hann stundar hýenublaðamennsku:
Hýenublaðamenn leita ekki frétta. Þeir koma sér fyrirfram saman um hver skuli vera fréttin og skálda síðan frásögn. Skáldskapurinn er seldur almenningi sem staðreynd með afli endurtekningarinnar.
Sigríður Dögg útilokaði heiðarleika í vitundarherferðinni af ásettu ráði. Hugtakið heggur of nærri heimahögum.
Sigríður Dögg formaður er uppvís að skattsvikum. Hún segir skattsvikin sitt einkamál. Félagsmenn hennar láta sér það vel líka. Skal ekki undra. Fimm blaðamenn hafa réttarstöðu sakborninga í byrlunar- og símastuldsmálinu, þar á meðal Aðalsteinn Kjartansson varaformaður Blaðamannafélags Íslands. Aðrir blaðamenn láta gott heita.
Heiðarleiki og íslensk blaðamennska eru andstæður. Óheiðarleikinn er verðlaunaðuraf Blaðamannafélagi Íslands.
Þeim sem finnst djúpt í árinni tekið ættu að spyrja sig eftirfarandi spurningar: hversu margir blaðamenn hafa stigið fram og andmælt að blaðamenn grunaðir um glæpi fái verðlaun stéttafélagsins?
Heiðarlegir blaðamenn eru til á Íslandi. En þeir eru í felum, óttast hýenurnar.