Bann Ísraels á palestínskum verkamönnum skaðar báða aðila fjárhagslega

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, StríðLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Eftir innrásina frá Gasa hinn 7. október hefur verið skortur á vinnuafli í byggingaiðnaði í Ísrael því bann var sett á  að hafa Palestínumenn í vinnu. Aðeins 17.000 þeirra eru enn við vinnu í landnemabyggðunum segir á Alarabiya.net (Sádarnir). Samkvæmt þeim þá kostar frostið í byggingaiðnaðinum ísraelskan efnahag 840 milljónir USD mánaðarlega en tap Palestínumanna er meira. Fyrir októberinnrásina voru 156.000 Palestínumenn starfandi í Ísrael eða landnemabyggðunum; fimmti hver starfandi þegn Abbasar vann þar sem launin voru tvöfalt hærri en á heimavelli og laun þeirra námu fjórðungi af vergri landsframleiðslu Palestínsku heimastjórnarinnar (PA) segir í netmiðlinum. Einnig voru 20.000 Gasabúar með vinnu í Ísrael fyrir stríð.

Ekki bætir úr skák að PA hefur hafnað því að taka á móti sköttum er Ísrael innheimtir fyrir hennar hönd skv. samningi frá 1994 því Ísrael tók undan þann hluta sem hefði átt að fara til Gasa/Hamas og því getur stjórn Abbasar aðeins borgað 60% umsamdra launa, er haft eftir efnahagsráðherra Palestínu, Khaled al Osaily.

Skattar til geymslu í Noregi?

Aljazeera sagði frá því í janúar að Ísraelar hyggðust senda þá skatta er hefðu átt að fara til Gasa til Noregs, þar sem þeir yrðu í vörslu þar til stríðinu lyki. Þar er um að ræða skatta vegna starfsmanna Palestínsku heimastjórnarinnar sem héldu störfum sínum þegar Hamas náði völdum á Gasa en Ísraelsmenn telja hættu á að Hamas hirði peningana.

Haldið í Pay for Slay lögin

Ísraelsmenn hafa frá 2019 einnig haldið eftir greiðslum til Palestínsku heimastjórnarinnar sem samsvara því fé er greitt er til Palestínumanna eða fjölskyldna þeirra fyrir að ráðast á og reyna að drepa Ísraelsmenn, eða aðra þá er staddir eru í landinu. Samkvæmt PA eru það félagslegar bætur til að halda uppi fjölskyldum sem hafa misst fyrirvinnuna en Ísraelsmenn benda á að greiðslurnar séu hvatning til hryðjuverka því eftir því sem menn drepi fleiri þá séu greiðslurnar hærri, margfalt hærri en menn fá á vinnumarkaði hjá Heimastjórninni, auk ýmissa fríðinda er menn sleppi úr fangelsi. Lög þessi, Palestínsk lög nr.19 frá 2004 með viðbótum, eru enn í gildi því Abbas hafnar því alfarið að þau séu afnumin. Trump fékk á valdatíma sínum samþykkt Taylor Force lögin sem banna greiðslur til PA nema Pay for Slay lögin væru afnumin en stjórn Bidens hefu horft framhjá þeim lögum.

Mikill stuðningur við innrásina 7. október

Litlar líkur eru á að byggingamarkaðurinn í Ísrael taki við sér í bráð því nýjustu kannanir frá Palestinian Center for Policy and Survey Research sýna að 71% Palestínumanna á bæði Vesturbakkanum og Gasa telja að Hamas hafi gert rétt með innrásinni 7. október. Aðspurðir sögðu 64% íbúa Vesturbakkans og 52% íbúa Gasa að Hamas ætti að stjórna svæði sínu og 39% íbúa Gasa of 46% á Vesturbakkanum telja að aðeins með vopnaðri baráttu (jíhadi) geti þeir eignast eigið ríki.

Ef til vill þora sumir ekki að svara öðruvísi en slíkar kannanir vekja ekki hjá Ísraelsmönnum neina löngun til  samskipta við Palestínumenn yfirleitt.

Skildu eftir skilaboð