Þorsteinn Már talar á 12 ára afmælinu – RÚV þegir

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson, ViðtalLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Tólf ára afmæli Seðlabankamálsins var 27. mars. Þann dag árið 2012 skipulögðu RÚV og Seðlabankinn húsleit á skrifstofum Samherja á Akureyri og Reykjavík. Til grundvallar lágu fölsk gögn Helga Seljan á RÚV og rangir útreikningar seðlabankans á karfasölu útgerðarinnar. Verðmæti viðskiptanna, sem reyndust fyllilega lögleg, voru upp á 60 þús. evrur eða níu milljónir króna. Ekki beinlínis stórfé.

Myndatökumenn RÚV voru viðstaddir húsleitina sem fór fram að morgni. Búið var að skipuleggja Kastljósþátt um kvöldið. Á meðan húsleit stóð yfir voru sendar út fréttir og fréttatilkynningar á íslensku og ensku - beinlínis til að hámarka skaða norðlensku útgerðarinnar.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja settist í hljóðstofu Þjóðmála í tilefni afmælisins, ræddi sjávarútveg vítt og breitt en fór í saumana á húsleitinni og eftirmálum hennar.

,,Það er margt ömurlegt við þetta mál," segir Þorsteinn Már. Húsleitin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ekki fyrr en eftir tæp tvö ár fengu Samherjamenn að vita hvaða glæpi þeir áttu að hafa framið. Eftir margra ára málarekstur var málið fellt niður.

Ný bók Björns Jóns Bragasonar, Seðlabankinn gegn Samherja, rekur 12 ára sögu tveggja ríkisstofnana að klekkja á útgerðinni. Tifallandi skrifaði um bókina og vitnaði í greinargerð frá 2019, undirrituð af seðlabankastjóra, er sagði að húsleitin hjá Samherja hafi haft ,,töluverð fælingaráhrif."

Í viðtalinu vekur Þorsteinn Már athygli á að RÚV lagði ofurkapp á að sýna fram á sekt Samherja þótt rannsóknin væri vart hafin. Fréttaflutningur og viðtöl við stjórnmálamenn var samræmd frásögn um sekt Samherja. En ekkert var nokkru sinni sannað, það var ekkert afbrot. Aðeins flóðbylgja frétta um að útgerðin hefði brotið lög.

Hvorki RÚV né seðlabankinn hafa játað misgjörðir þótt kýrskýrt sé að tilefni húsleitarinnar sé fölsuð skýrsla RÚV annars vegar og hins vegar rangir útreikningar seðlabankans.

Viðtali Þjóðmála við Þorstein Má lýkur áður en komið er að framhaldi RÚV að herja á Samherja eftir Seðlabankamálið. Namibíumálið frá 2019 og byrlunar- og símastuldsmálið frá 2021 eru skipulagðar aðgerðir RÚV að klekkja á útgerðinni.

Fyrst beitti RÚV fölsuðum gögnum fyrir vagn sinn, síðan fyllibyttu og loks andlega veikri konu sem byrlaði og stal. Jafnt og þétt grefur Efstaleiti sig dýpra í fen spillingar, siðleysis og glæpa. Enginn grípur í taumana. Sérlega spilltum blaðamönnum og sakborningum í lögreglurannsókn er laumað út bakdyramegin á Glæpaleiti.

Hvernig stendur á því, gæti fólk spurt, að ríkisfjölmiðill kemst upp með slíkt háttalag í áravís? Jú, með stuðningi frá baklandi sínu, þingflokkum vinstrimanna.

Þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar tala upp tilhæfulausar ásakanir sem RÚV hefur í frammi. Í ræðustól alþingis fær RÚV-fleiprið löggildingu.

RÚV þegir um 12 ára afmæli húsleitarinnar. En þar sem íslensk blaðamennska er komin í ruslflokk, þökk sé RÚV, stendur yfir herferð Blaðamannafélags Íslands til að kaupa tiltrú almennings. Í herferðinni er ekki minnst einu orði á heiðarleika. RÚV-blaðamennska er járnbrautaslys sýnt hægt i beinni útsendingu.

Skildu eftir skilaboð