Utanríkisráðherra Ungverjalands, Peter Szijjarto, fordæmir nýlegar yfirlýsingar Emmanuel Macron Frakklandsforseta um að senda hermenn til Úkraínu. Szijjarto varar við því, að slík ráðstöfun gæti hrundið af stað allsherjar kjarnorkustyrjöld.
Franska útvarpsstöðin LCI ræddi við Szijjarto s.l. fimmtudag og var utanríkisráðherrann spurður um afstöðu sína gagnvart endurnýjaðri hótun Macron um að senda franska hermenn til að berjast með Úkraínumönnum í stríðinu gegn Rússum.
Ráðherrann fordæmdi hugmyndina alfarið og sagði ummæli franska leiðtogans hafa í sjálfu sér stuðlað að því að skapa verra ástand. Szijjarto sagði:
„Ef aðildarríki Nató sendir fótgönguliða, þá verða bein átök milli Nató og Rússlands og það þýðir þriðju heimsstyrjöldina.“
Macron herti hótanir sínar um að senda franska hermenn til Úkraínu á fimmtudag og varði slíka lausn í viðtali við The Economist.