Magnús Freyr Sveinbjörnsson var aðeins 22 ára ungur maður í blóma lífsins þegar hann lést eftir hrottafengna árás tveggja manna í Hafnarstræti í Reykjavík árið 2002. Annar þeirra sem dæmdur var fyrir árásina er Baldur Freyr Einarsson sem nýverið gaf út bókina Úr heljargreipum. Bókin er sögð vera ævisaga Baldurs en þar fjallar hann meðal annars um árásina.
Ekki látin vita af útgáfu bókarinnar
Þorbjörg Finnbogadóttir móðir Magnúsar segir fjölskylduna ekki hafa verið látna vita af útgáfu bókarinnar og að það hafi komið sér í opna skjöldu að sjá færslu á Facebook þar sem Baldur var að safna fyrir bókinni á Karolina fund. Þorbjörg segir Baldur sverta mannorð sonar síns í frásögninni, atvikalýsingu sé breytt og sé ekki í samræmi við dóm Hæstaréttar. Þá sé nafni Magnúsar heitins breytt í Emil í bókinni.
Baldur hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðustu vikur vegna kynningar á bókinni. Þorbjörg hefur reynt að sneiða hjá allri umfjöllun þar sem Baldur kemur við sögu en stuttu eftir að bókin kom út hafði vinkona hennar samband við hana til að segja henni frá því að Baldur fari ekki rétt með staðreyndir þegar kemur að árásinni á Magnús.
Þorbjörg segir að Baldur segi ekki rétt frá atvikum og haldi því fram að Magnús hafi byrjað slagsmálin sem sé ekki rétt, því þegar dómur Hæstaréttar er lesinn og það sem haft er eftir vitnum, þá má sjá að lýsingarnar í bókinni passa engan veginn við frásögn Baldurs Freys. ,,Baldur er í bókinni að fegra sinn hlut og sverta nafn sonar míns,“ segir hún.
Segist aldrei hafa ,,lamið mann eins lítið"
Baldur segir m.a. í bókinni að ,,hann hafi aldrei lamið neinn eins lítið” og heldur því fram að Magnús hafi dottið aftur fyrir sig eftir að vinur hans Gunnar Friðrik hafi sparkað í hann og við það hafi Magnús fallið í götuna með hnakkann, sem Baldur telji að hafi orðið hans banamein. Magnús dregur þar að auki verulega úr sinni þátttöku í þessari hrottafengnu árás sem varð til þess að Magnús lést.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar og atvikalýsingum vitna og upptökum úr eftirlitsmyndavélum stenst lýsing Baldurs á atburðum enga skoðun, því Baldur er ákærður fyrir að hafa veitt Magnúsi mörg hnefahögg í höfuðið, veitt honum högg með höfðinu og sparkað með hné í höfuð hans og eftir að Magnús féll í götuna þá sparkaði Baldur margsinnis af afli í höfuð Magnúsar með hné og fæti. Ákærði Gunnar Friðrik hafi síðan eftir að Magnús reis upp eftir atlögu ákærða Baldurs Freys, sparkað í efri hluta líkama Magnúsar svo að hann féll í götuna á ný. Afleiðingar þessa alls hafi orðið til þess að Magnús hlaut höfuðkúpubrot og blæðingu inn á heila og lést þann 2. júní 2002 af völdum þessa og heilabjúgs.
Jafnframt segir í dómnum að ljóst sé af framburði vitna að tilefni árásar ákærða Baldurs Freys á Magnús hafi verið smávægilegt. Eftir að ákærði Baldur Freyr hafði verið dreginn ofan af Magnúsi þá hafi Baldur Freyr kallað til félaga sinna um að veitast að Magnúsi og var það tilefni árásar ákærða Gunnars Friðriks. Eftir árásina forðuðu ákærðu sér ásamt félögum sínum án þess að skeyta um hvað yrði af Magnúsi Frey og létu aðra um að hlúa að honum.
Baldur Freyr var einnig kærður fyrir tvær aðrar líkamsárásir í sama máli sem voru að mestu tilefnislausar og sérlega hrottafengnar. Í síðasta tilvikinu barði Baldur, sparkaði og skallaði andstæðinginn til skiptis hvað eftir annað og segir í dóminum, þegar virtar eru afleiðingar gjörða hans á hann sér ekki málsbætur og ber við ákvörðun refsingar að líta til 1. til 3. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.
Reyndi að fyrirgefa en er nú komin á byrjunarreit í sorginni
Þorbjörg móðir Magnúsar heitins segist nú vera komin aftur á byrjunarreit í sorginni og hún skilji hreinlega ekki hvað Baldri gangi til með þessu og af hverju hann geti ekki verið hreinskilinn og heiðarlegur um atburðarásina fyrst hann var á annað borð að leggja sig fram við að skrifa bók um morðið. Baldur sé með þessu að svívirða ekki bara fjölskylduna heldur einnig Magnús sem er ekki hér lengur til að svara fyrir sig. Þorbjörg upplifir þetta sem siðblindu og getur ekki greint það að Baldur iðrist gjörða sinna með þessari framgöngu sinni.
Þess má geta að Baldur Freyr sem í dag rekur trúarsöfnuð sem ber nafnið CTF-kærleikurinn, hitti Þorbjörgu fyrir tilviljun á Kotmóti sem er kristileg hátíð sem haldin er um verslunarmannahelgina. Baldur notaði tækifærið til að fara fram á fyrirgefningu en fólk hvatti Þorbjörgu til að fyrirgefa, það væri mikilvægt hennar vegna. Þorbjörg ákvað að fara að þeirri ráðleggingu því hún hafði verið í 10 ár í stanslausri sorg og fann eðlilega til mikillar reiði út í morðingja sonar síns. Hún ákvað því að reyna að gefa fyrirgefningunni gaum í þeirri von um að geta losnað undan öllum þeim sársauka og reiði sem hafði þjakað hana í svo mörg ár.
Hitti Baldur Frey í Bónus
Baldur virðist hins vegar hafa misskilið tilgang Þorbjargar móður Magnúsar og ályktað sem svo að þar sem Þorbjörg hafi ákveðið að fara þessa leið, þá væri allt gleymt og grafið og þeim væri nú vel til vina og hafði Baldur m.a. oft orð á því á samkomum þar sem hann predikaði fyrir framan fjölda fólks.
Það kom Þorbjörgu síðan verulega á óvart þegar hún hitti Baldur Frey síðar í Bónus, en þá hafi Baldur Freyr gengið upp að henni og látið eins og ekkert hafi í skorist. Þorbjörg upplifði það eins og hann héldi að nú væri hún búin að gleyma morðinu á syni sínum, því Baldur hafi heilsað henni og byrjað að spjalla eins og þau væru góðir kunningjar.
Þorbjörg segir þetta hafi brotið hana mikið niður en tilgangurinn með fyrirgefningunni hafi ekki verið að verða vinkona Baldurs heldur hafi hún gert það fyrir sjálfa sig og Magnús því hann hefði aldrei vilja sjá móður sína í svo mikilli þjáningu, en þau mæðgin voru afar náin.
Systir Magnúsar heitins, Aníka Sveinbjörnsdóttir, ræddi einnig við blaðamann Fréttarinnar og segist hún hafa vitneskju um að Baldur hafi haldið því fram við söfnuðinn að öll fjölskylda Magnúsar væri honum vinveitt og allir búnir að fyrirgefa árásina hrottafengnu. Þetta sé ekki rétt, hún sé sjálf ekki búin að fyrirgefa Baldri morðið á bróður sínum og muni aldrei geta fyrirgefið honum. Þá sagði hún blaðamanni einnig frá því að Baldur hefði gengið upp að yngri bróður þeirra, Stefáni Rey, í ræktinni og faðmað hann. Við það hafi Stefán orðið stjarfur og ekki vitað hvernig hann ætti að haga sér og liðið mjög illa, en Stefán var einungis 13 ára þegar eldri bróðir hans var myrtur. Stefán skildi heldur ekki hvernig Baldur hafi þekkt sig en sennilega hefur hann munað eftir sér í réttarsal eða skoðað myndir á facebook.
Vilja lögbann á bókina - Baldur reyndi að prútta um fjárhæð miskabóta sem fjölskyldunni voru dæmdar
Fjölskyldan segist nú vera að leita réttar síns og vilji fá lögbann á bókina þar sem gert er lítið úr alvarlegum glæp sem endaði með andláti Magnúsar Freys. Þá sé nafni Magnúsar breytt og upplifir fjölskyldan skeytingarleysi gagnvart þeirri sorg sem hún hefur þurft að lifa með eftir andlát Magnúsar.
Foreldrar Magnúsar skildu í framhaldinu vegna yfirgnæfandi sorgar og fjölskyldan leystist upp. Aníka systir Magnúsar segir að eftir andlátið hafi hún oft farið niður á bryggju þegar skipið sem Magnús hafði verið á kom í land, í þeirri von um að þetta væri vondur draumur og Magnús kæmi gangandi niður tröppur skipsins. En auðvitað vissi hún að hann væri dáinn, en vonin var svo mikil að hún óskaði sér að þetta hefði verið martröð.
Þorbjörg segir frá því að Baldur hafi haft samband við sig og reynt að fá afslátt á miskabótunum sem hann var dæmdur til að greiða í Hæstarétti. Fjölskyldan samþykkti það ekki, enda þótti þeim beiðnin fráleit.
Magnús grátbað Baldur um að hætta
Magnús Freyr var einstaklega vinnusamur og duglegur ungur maður sem vann til sjós á Júlíusi Geirmundssyni með föður sínum fram að andlátinu og var afar vel liðinn á meðal skipsfélaga og þótti einstaklega glaðlyndur og skemmtilegur. Magnús hafði keypt sína fyrstu íbúð 19 ára gamall og hafði einnig náð að kaupa sér nýjan flottan bíl. Hann hafði stundað íþróttir frá unga aldri og þótti mjög efnilegur í körfubolta. Hann var vinsæll og vinmargur í sínum heimabæ og þótti algert gæðablóð sem aldrei hafði gert nokkrum manni mein. Það þótti því skjóta skökku við þegar Baldur ásakaði Magnús um að vera upphafsmaður slagsmálanna, því allir sem þekktu Magnús vissu að hann hafði aldrei þann mann að geyma. Magnús var jarðbundinn og góð sál.
Kvöldið örlagaríka kemur fram á meðal vitna fyrir Hæstarétti að Magnús hafi beðist vægðar og grátbeðið Baldur að hætta eftir að Baldur hafði sparkað ítrekað og kýlt í höfuð Magnúsar svo að mikið blæddi úr og hann orðinn verulega vankaður eftir höggin. Samkvæmt vitnum í réttarsal gaf Baldur sig ekki og hélt áfram að berja á Magnúsi og hvatti svo félaga sína til að ráðast á hann líka.
Brot úr vitnisburðum vegfarenda má sjá hér að neðan, rétt er að vara viðkvæma við lýsingum sem eru hrottafengnar.
"Vitnið V19 kvaðst hafa séð tvo menn slást. Hún kvað Baldur hafa ögrað Z, sem hafi reynst að forðast átök. Hún kvað Baldur bæði hafa kýlt og sparkað í höfuð Z. Höggin hafi verið þung og örugglega fleiri en tíu."
"Vitnið V23 kvaðst hafa verið í för með V22 og er þeir voru staddir í D-götu þessa nótt kvaðst hann hafa heyrt læti og séð tvo menn slást. Hann kvaðst ekki vita upphaf átakanna, en fljótlega hafi annar mannanna náð yfirhöndinni. Síðan hafi það gerst að annar hafi náð að færa jakka hins mannsins yfir höfuð hans, sem ekkert hafi getað gert. Meðan hann hélt þannig jakka mannsins hafi hann gefið manninum í jakkanum nokkur hnéspörk í andlitið svo úr hafi blætt. Átökin hafi færst út á götuna þar sem fórnarlambið, sem vitnið kallaði svo, hafi haldið í árásarmanninn að sögn vitnisins og hafi fórnarlambið grátbeðið hinn um að hætta og kvaðst V23 telja að fórnarlambið hafi séð að hann hefði ekkert í árásarmanninn að gera."
Samkvæmt dómi Hæstaréttar þá neitaði Baldur Freyr sök og kvaðst hafa verið að verja sig og segir að Magnús hafi verið upphafsmaður átakanna sem urðu. Aldrei hafi staðið til af sinni hálfu að meiða Magnús.
Héraðsdómur Reykjavíkur fór fram á þriggja ára fangelsi fyrir morðið á Magnúsi en Hæstiréttur hækkaði refsinguna um helming eða upp í sex ár og sat Baldur Freyr alls inni á Litla Hrauni í fjögur og hálft ár.
Dóm Hæstaréttar og lýsingu vitna má skoða hér.
Blaðamaður hafði samband við Baldur Frey fyrir gerð fréttarinnar og spurði hann hvort hann vildi eitthvað tjá sig um málið og hvers vegna hann hafi breytt atvikalýsingu í bókinni varðandi árásina á Magnús og hvers vegna hann hafi breytt nafni hans í Emil í bókinni. Baldur hefur ekki svarað.
Baldur Freyr er í dag giftur og rekur Lausnina sem er fjölskyldu- og áfallamiðstöð, með eiginkonu sinni Barböru Hafey Þórðardóttur.
Þess má geta að Linda Baldvinsdóttir og Sveinn Snorri Sighvatsson tóku viðtal við móður Magnúsar heitins og má hlusta á það hér að neðan.