Yfirréttur í Bretlandi hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé heimilt að framselja Julian Assange, stofnanda Wikileaks, til Bandaríkjanna. Áfrýjunardómstóllinn hefur þar með snúið við dómi á neðra dómstigi.
Fram kemur í erlendum fjölmiðlum að þetta þyki vera mikið högg fyrir Assange, sem er fimmtugur Ástrali og hefur í áraraðir reynt að komast hjá framsali, en hann er m.a. sakaður um njósnir í Bandaríkjunum.
Lögmenn Assange hafa tök á að áfrýja niðurstöðunni.
Í janúar komst breskur héraðsdómari að þeirri niðurstöðu að Assange yrði ekki framseldur vegna áhyggna um geðheilsu hans og að sú hætta væri fyrir hendi að hann myndi reyna sjálfsvíg í bandarísku fangelsi.
Bandarísk stjórnvöld hafa viljað draga Assange fyrir dómstóla í Bandaríkjunum fyrir að hafa árið 2010 birt leynileg skjöl bandaríska hersins um stríðreksturinn í Afganistan og Írak.
Tveggja daga vitnaleiðslur fóru fram í október þar sem bandarískir lögmenn héldu því fram að dómarinn sem kvað upp sinn úrskurð í janúar hefði ekki tekið almennilega til greina aðra vitnisburði sérfræðinga sem höfðu metið geðheilsu Assange.
Þá reyndu þeirra að sannfæra dómstólinn um að Assange yrði ekki vistaður á einangrun í hámarksöryggisfangelsi og að hann myndi hljóta viðeigandi meðferð.
Í kjölfar niðurstöðu yfirréttarins þá fer málið aftur til meðferðar hjá héraðsdómi. Stella Moris, unnusta Assange, segir að málinu verði áfrýjað sem fyrst.
Málið gegn Assange hefur staðið yfir í áratug þar sem stuðningsmenn Assange halda því fram að Wikileaks eigi sama rétt og aðrir fjölmiðlar til að birta leyniskjöl sem varða almannahagsmuni.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, segir það hræðilegt að heimild hafi verið veitt fyrir því að framselja Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, frá Bretlandi til Bandaríkjanna, þar sem hann á yfir höfði sér langan fangelsisdóm vegna meintra brota gegn njósnalöggjöf landsins.
Áfrýjunardómstóll í Bretlandi sneri í morgun við dómi undirréttar, sem úrskurðaði í janúar að Assange skyldi ekki framseldur vegna áhyggna um geðheilsu hans.
„Þetta eru skelfilegar niðurstöður og gersamlega óhugsandi og óröklegar í alla staði,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is.
Loforð Bandaríkjamanna loftið eitt
Hann segir óskiljanlegt að dómara í áfrýjunardómstólnum hafi borið skylda til þess að gefa Bandaríkjamönnum tækifæri til þess að leggja fram loforð um að vel yrði hugsað um Assange í höndum þarlendra yfirvalda.
Kristinn segir að tryggingar Bandaríkjamanna þar um haldi engu vatni og bendir á að mögulega geti stofnun, sem áformaði að ráða Assange af dögum, farið fram á öryggisvistun hans í einangrun.
„Það er engan veginn hægt að skilja röklegar forsendur í þeim dómi, sem kemst að þeirri niðurstöðu að undirréttardómaranum hafi borið einhver skylda til þess að upplýsa Bandaríkjamenn og gefa þeim tækifæri á að leggja fram einhvers konar tryggingar um að farið yrði vel með Julian þá og þegar hann yrði framseldur til Bandaríkjanna,“ segir Kristinn og bætir við að tryggingar Bandaríkjamanna, um að vel yrði farið með Assange í þarlendu fangelsi, séu innantóm loforð:
„Ekkert af þessu heldur nokkru vatni. Fyrir það fyrsta er til fjöldi úrræða til þess að setja menn í einangrunarvist, meðal annars getur bandaríska leyniþjónustan krafist slíkrar vistunar og þá erum við komin í þá stöðu að stofnun, sem var að gera áætlanir um að taka hann af lífi – miðað við fréttir sem bárust fyrir nokkrum vikum síðan og hefur ekki verið hafnað með neinum hætti – muni taka ákvörðun um örlög hans. Í öðru lagi er ekki nokkur leið fyrir hann að afplána einhvern dóm í Ástralíu fyrr en öll áfrýjunarúrræði eru tæmd í Bandaríkjunum.“
Kristinn segir einnig að farið hafi verið ofan í saumana á þeim loforðum sem Bandaríkjamenn gefa um að þeir fari mjúkum höndum um Assange og að niðurstaðan sé sú að það sé ekkert hæft í neinu slíku.
„Ég vil benda á það að Amnesty International hefur farið ítarlega ofan í þessar tryggingar, sem Bandaríkjastjórn henti fram eftir að þeir töpuðu málinu í undirrétti, og komist að þeirri niðurstöðu að þær séu fullkomlega haldlausar og halda ekki vatni.“
Slæmt fyrir blaðamennsku um heim allan og slæmt fyrir mannréttindi
Kristinn segir að fólkið í kringum Assange hafi miklar áhyggjur af framvindu málsins og framtíð Assange, sérstaklega ef málinu lýkur með því að hann verði framseldur til Bandaríkjanna.
„Auðvitað höfum við það," segir hann aðspurður. „Og nú verður málið sent aftur til undirréttar til endurákvörðunar þar sem dómaranum verður skylt að taka tillit til dóms áfrýjunarréttarins og breyta niðurstöðu sinni, en þá verður þeim dómi áfrýjað að nýju og við tekur annar hringur í bresku dómskerfi, það er að segja ef áfrýjunarrétturinn fellst á og heimilar áfrýjun. Það er náttúrulega algjörlega ótækt að hann verði þar á meðan að sitja í gæsluvarðhaldi í mesta öryggisfangelsi Bretlands. Hann er þegar búinn að sitja þar í tvö ár sem er algjörlega óásættanlegt mannréttindabrot gegn hvaða einstaklingi sem er. Þannig slagurinn heldur áfram.“
mbl.is sagði frá.