Skipuleggjendur vinsællar úlfaldafegurðarsamkeppni í Sádi-Arabíu hafa vísað 43 þátttakendum úr keppni eftir að hafa gripið til aðgerða gegn bótox-sprautum og annars konar ,,fegurðaraðgerðum" sem framkvæmdar eru af ræktendum dýranna.
40 daga úlfaldahátíðin King Abdulaziz, staðsett um 100 kílómetra norðaustur af höfuðborginni Riyadh, hófst í byrjun desember.
Hátíðin fer nú fram í sjötta sinn þar sem ræktendur keppa um rúmlega $66 milljónir í verðlaunafé, samkvæmt ríkisfjölmiðli Sádi-Arabíu SPA. Í húfi eru því miklir peningar.
Samviskulausir ræktendur hafa verið sakaðir um að nota ýmsar aðferðir til að gera úlfalda sína líklegri til að sigra, svo sem að sprauta í þá sílikoni og fylliefnum og blása upp líkamshluta með því að nota gúmmíbönd til að breyta útliti þeirra, segir í frétt SPA.
Á þessu ári hafa skipuleggjendur tekist á við 147 slík tilfelli sem er mesti fjöldi síðan hátíðin fór fyrst fram. Fjörutíu og þrír keppendur voru dæmdir úr leik.
Marzouk Al-Natto, talsmaður laganefndar hátíðarinnar, sagði að ræktendur sem verða uppvísir af þesskonar brotum þurfi að greiða sektir sem eru misháár eftir alvarleika brotsins, segir í frétt SPA.
Sem dæmi má nefna að sektin fyrir að sprauta fylliefni, bótox eða hormónum í dýrið getur numið allt að $27.000 á hvern úlfalda, en fyrir að flétta, klippa skottið eða lita úlfaldann er sektin $8.000.
Til að rannsaka hvort að átt hafi verið við úlfaldana eru þeir skoðaðir með ýmsum tækjum eins og röntgen og sónar.