Fjölmiðlamógúllinn Jimmy Lai í Hong Kong hefur verið dæmdur í 13 mánaða fangelsi fyrir að taka þátt í minningarathöfn í tilefni fjöldamorðanna á Torgi hins himneska friðar.
Hinn 74 ára gamli Lai var fundinn sekur í síðustu viku fyrir að hafa hvatt aðra til að taka þátt í ólögmætri samkomu.
Lai var í hópi þúsunda sem hunsuðu bann við að mæta á samkomuna í júní síðastliðnum til að minnast morðanna í Peking árið 1989.
Fleiri en tuttugu stjórnmálamanna og aðgerðarsinna hafa verið ákærðir fyrir þáttöku.
Lai var einn af átta aðgerðarsinnum sem fengu dóma sína í dag, þar á meðal má finna þekkt nöfn eins og blaðamanninn Gwyneth Ho og lögfræðinginn Chow Hang Tung. Dómarnir yfir þeim eru allt frá fjórum og hálfum mánuði upp í 14 mánuða fangelsi.
Dómarinn Amanda Woodcock kvað upp dóminn í kjölfar málflutnings, þar sem lögfræðingar Lai lögðu fram handskrifað bréf sem Lai hafði skrifað úr fangelsinu.
Í bréfinu sagði Lai að hann væri tilbúinn að sæta refsingum vegna ákvörðunar sinnar.
„Ef það er glæpur að minnast þeirra sem dóu vegna óréttlætis, þá skaltu saka mig um þann glæp og leyfa mér að sæta refsingunni ... svo ég megi deila byrði og heiðri þessara ungu manna og kvenna sem úthelltu blóði sínu 4. júní 1989, “ skrifaði Lai.
Fyrr í réttarhöldunum hafði Lai haldið því fram að hann hafi kveikt á kertum á samkomunni á eiginn forsendum og hefði ekki „hvatt“ aðra til að taka þátt í ólögmætum mótmælum.
Hins vegar vísaði Woodcock dómari þessum rökum á bug og sagði að þátttaka þeirra „væri ögrun og mótmæli gegn lögreglunni.“