Aðalmeðferðir í fimm málum gegn sóttvarnalækni fara fram á morgun fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þau snúast öll um lögmæti fyrirmæla sóttvarnalæknis um að skipa einkennalausu fólki að sæta einangrun á grundvelli jákvæðs PCR-prófs.
Þetta er í fyrsta sinn sem látið er reyna á fyrirmæli um einangrun frá sóttvarnalæknis hér á landi.
„Málin snúast um það að fólk, sem hefur greinst jákvætt á PCR-prófi og er einkennalaust, sé skikkað í einangrun. Verið er að láta reyna á það hversu langt sóttvarnalæknir getur gengið gagnvart einkennalausu fólki. Þetta er gert til að knýja fram efnislega úrlausn um þann vísindalega grunn sem allar þessar aðgerðir stjórnvalda eru reistar á,“ segir Arnar Þór Jónsson, lögmaður þeirra sem málið sækja, í samtali við mbl.is.
Dæmt ólögmætt erlendis
Arnar sagði að það hafi reynt á gildi PCR-prófa fyrir dómstólum í Austurríki, Þýskalandi og Portúgal. Þar var niðurstaðan að stjórnvaldsákvarðanir mætti ekki reisa á PCR-prófum og því telur Arnar tímabært að láta reyna á málið hér á landi.
„Að mínu viti er full ástæða til að láta reyna á þetta. Framkvæmdarvaldið á ekki að vera bremsu- og aðhaldslaust. Ég tel því nauðsynlegt að láta reyna á það hvar valdmörk sóttvarnalæknis liggja og hvert gildi þessara PCR-prófa er sem verið er að reisa þetta allt saman á. Þessi próf hafa verið talin ófullnægjandi grundvöllur frelsisskerðinga víða erlendis. Því er tímabært að láta að reyna á þetta hér.“
Arnar segir að vænta megi niðurstöðu dómsins ekki síðar en á þriðjudaginn.
mbl.is greindi frá.