Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður skrifar þessa grein í Morgunblaðið í dag.
Hættið þessu
Ráðstafanir íslenskra stjórnvalda í tilefni af covid-veirunni hafa nú gengið úr öllu hófi. Langflestir Íslendingar hafa látið sprauta sig og langflestir með þremur sprautum. Yfirgnæfandi meirihluti manna er kominn í skjól á þann hátt að jafnvel þeim sem hafa smitast af veirunni stafar ekki hætta af henni. Meira en 95% þeirra fá engin eða bara smávægileg einkenni. Þeir sem eftir standa veikjast lítillega en nær enginn alvarlega. Morgunblaðið birti aðgengilegar upplýsingar um þetta 23. desember sl. (bls. 6).
Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru landsmenn, svo furðulegt sem það er, beittir frelsisskerðingum til að hindra að smit berist milli manna. Hafi einstakur maður verið í návist annars, sem ber veiruna með sér, er sá fyrrnefndi settur í sóttkví og bannað að umgangast annað fólk um tiltekinn tíma. Hann er mældur fyrir smiti í upphafi og við lok sóttkvíar, sem stendur í 5-14 sólarhringa. Það er því ekki skilyrði fyrir því að verða beittur ofbeldinu að hafa smitast af veirunni. Nóg er að hafa komið nálægt einhverjum sem hefur smitast. Þetta er sagt gert til að hindra útbreiðslu veirunnar. Samt segja yfirvöld að líklega muni um 600 landsmenn smitast á dag. Svo er að skilja að markmið þeirra sé að fækka í þeim hópi, kannski í 4-500?
Og þá skal spurt: Til hvers? Það liggur nefnilega fyrir að fáir þeirra sem smitast verða veikir og nær enginn, sem hefur nýtt sér þau úrræði sem gefist hafa, að láta sprauta sig. Þar að auki geta þeir sem veikjast að sjálfsögðu leitað til lækna eða heilbrigðisstofnana og skiptir þá engu máli hvort þeir hafi verið sviptir frelsi í aðdragandanum eður ei.
Þeir sem hafa smitast eru síðan beittir enn meiri þvingunum, settir í svokallaða einangrun um lengri tíma.
Þessi stjórntök á þjóðinni eru að mínum dómi fyrir neðan allar hellur. Og til að heilaþvo þjóðina er hættan mikluð með orðskrúði og með áskorunum til almennings um að sýna nú samstöðu. Hið sama gerist í öðrum löndum. Þeir sem þessu ráða virðast ekki hafa af því neinar áhyggjur að ráðstafanir þeirra valda miklu tjóni meðal annars hjá stórum hópi manna, sem þurfa að sæta fjöldatakmörkunum á viðskiptavinum og er í ofanálag bannað að halda fyrirtækjum sínum opnum nema afar takmarkaðan tíma á degi hverjum, nema þeim sé þá skipað að loka alveg. Þetta veldur fjárhagslegum þrengingum og jafnvel gjaldþrotum sem leiða til mikilla hörmunga hjá þeim sem í hlut eiga, jafnvel þannig að þeir gefast bara upp. Þá eru teikn á lofti um að áfengissala til heimila hafi vaxið til muna á síðustu tveimur árum, heimilisofbeldi hafi aukist, kvíði hafi orðið útbreiddari hjá viðkvæmu fólki, margir hafi veigrað sér við að leita til læknis vegna ástandsins og aðrir sjúkdómar þannig fengið að grassera ómeðhöndlaðir, svo nokkur dæmi séu tekin. Stjórnvöld hafa ekki enn birt tölur um fjölda þessara fórnarlamba sinna.
Það er auðvitað furðulegt að beita þvingunum til að forðast smit á sjúkdómi sem er svo til hættur að valda skaða og kallar ekki á önnur úrræði en aðrir sjúkdómar, þ.e. aðstoð lækna. Aðgerðirnar fela auk annars í sér alvarleg frávik frá meginreglunni um frelsi fólks og ábyrgð á sjálfu sér sem verður að teljast grunnregla í samfélagi okkar.
Svo ég segi bara við þessa valdsæknu stjórnarherra: hættið þessu, og það strax.