Lögregluríki – frumvarp um njósnastarfsemi gegn borgurunum

frettinInnlendar1 Comment

Aðaleiður Ámundadóttir fréttastjóri á Fréttablaðinu, vekur athygli á frumvarpi í pistli á miðlinum í gær sem ber yfirskriftina lögregluríki. Frumvarpið sem nú hefur verið lagt fyrir Alþingi af dómsmálaráðherra inniheldur víðtækar heimildir til að fylgjast með fólki sem ekki er grunað um glæp til ýmist lengri eða skemmri tíma. Heimilt verður t.d. að taka myndir og myndbönd af fólki og safna þannig upplýsingum af viðkomandi úr ýmsum áttum. Með öðrum orðum ef frumvarpið verður samþykkt þá mun lögreglan hafa heimild til að stunda njósnastarfsemi gegn almennum borgurum með ýmsu móti án gruns um að hafa framið glæp.

Pistillinn hljóðar svo:

Í frumvarpsdrögum sem dómsmálaráðherra kynnir nú fyrir almenningi eru lögreglu veittar víðtækar heimildir til að fylgjast með fólki sem ekki er grunað um glæpi um ýmist lengri eða skemmri tíma, taka af því myndir og kvikmyndir og safna um það upplýsingum úr ýmsum áttum.

Ekki er hægt að skilja frumvarpið öðruvísi en að upplýsingum úr eftirlitskerfum, af samfélagsmiðlum, frá uppljóstrurum og almennum borgurum verði safnað í miðlægan gagnagrunn auk persónuupplýsinga fólks sem lögregla getur aflað hjá stjórnvöldum og stofnunum í því skyni að koma í veg fyrir að það fremji landráð eða aðra glæpi gegn stjórnskipan ríkisins.

Þeir sem eru í mestri hættu á að sæta þessu fyrirhugaða eftirliti lögreglu eru grunaðir hryðjuverkamenn, fólk sem lögregla telur hættulegt vegna þess að það aðhyllist „öfgakennda hugmyndafræði“ og fólk sem talið er líklegt til skipulagðrar brotastarfsemi.

Ólíkt því sem við eigum að venjast er ekki miðað við að þetta fyrirhugaða eftirlit fari fram í þágu rannsóknar á brotum sem hafa verið framin heldur vegna mögulegra brota sem kunni að verða framin í framtíðinni.

Þótt vissulega sé það göfugt markmið að koma í veg fyrir glæpi vita flestir sem hafa kynnt sér muninn á lögregluríkjum og réttarríkjum að hættan á misnotkun víðtækra rannsóknarheimilda gagnvart saklausu fólki er mikil. Hryðjuverkamenn gætu sprottið upp eins og gorkúlur og mikil fjölgun orðið í helstu glæpaklíkum landsins. Þess vegna er eins gott að eftirlit með notkun lögreglunnar á þessum nýju njósna­úrræðum sé ekki síður umfangsmikið.

Þar virðist frumvarp dómsmálaráðherra því miður bregðast. Eftirlitsnefnd lögreglu er vissulega kölluð til leiks í frumvarpinu. Hún fær hins vegar engar upplýsingar um eftirlitið nema lögreglan upplýsi hana sjálf og það ber ekki að gera nema eftirlitinu hafi verið hætt og komið hafi í ljós að enginn glæpur var í bígerð. Engin tímamörk virðast heldur á því hve lengi eftirlit með einstaklingi megi vara.

Einstaklingarnir sjálfir fá í fæstum tilvikum vitneskju um upplýsingaöflun og eftirlit lögreglu með þeim. Berist eftirlitsnefndinni upplýsingar yfir höfuð getur hún aðeins gert borgaranum viðvart hafi hún sjálf komist að þeirri niðurstöðu að lögreglan hafi brotið lög eða njósnað um viðkomandi að ósekju.

Fréttablaðið fjallaði fyrst um þessi áform dómsmálaráðherra í desember síðastliðnum. Þá virtust borgararnir hafa meiri áhyggjur af heimsfaraldri. Nú þegar ljóst er í hvaða átt ráðherra stefnir, verðum við að taka umræðuna.

Heimild

One Comment on “Lögregluríki – frumvarp um njósnastarfsemi gegn borgurunum”

  1. Rannsaka þarf skipulagða glæpastarfsemi í kringum ríkisreksturinn spillingu hjá ríkinu t.d vegagerð vegi sem þola ekki íslensk veðurfar og setja vegfarendur og ökutæki í stórhættu þrátt fyrir tugmilljarða frá ökutækjaeigendum. Mafían er orðin alltumlykjandi á íslandi og almenningur er í síðasta sæti.

Skildu eftir skilaboð