Árið 2016 gerði hinn virti kvikmyndagerðarmaður Oliver Stone heimildarmynd um Úkraínu, Ukraine on Fire. Í kjölfar innrásar Rússa í landið nýverið þá jókst áhorf á hana því menn vildu rifja upp hvað fram hefði komið þar en viðbrögð YouTube, sem er í eigu Google, voru að loka á sýningu hennar. Því var borið við að mikið væri um ofbeldisfullar senur í myndinni. Leikstjóri myndarinnar, Igor Lopatnok, ákvað þá að afsala sér höfundarrétti á myndinni svo að öllum væri frjálst að dreifa henni. Saga Úkraínu er vissulega ofbeldisfull og rekur Stone þá sögu frá upphafi. Hann fjallar m.a. um fjöldamorð Úkraínumanna á gyðingum og Pólverjum á stríðsárunum og það að nazisminn hefði aldrei horfið þar en komið fram í nýjum og nýjum myndum.
Litabyltingarnar fá sinn sess og Stone tekur viðtöl við Viktor Yanukovych, sem var komið frá í byltingunni 2014, Valdimir Putin og fleiri. Yanukovych fullyrðir að byltingin hafi verið skipulögð, en ekki sjálfsprottin eins og almennt er sagt. Hann segir að helsti tengiliður stjórnar sinnar við Bandaríkjastjórn á byltingartímanum hafi verið Joe Biden, en það hafi verið vandamál að hann hafi sagt eitt en svo hafi Bandaríkjastjórn gert annað í Úkraínu. Hann segir einnig að það hafi aldrei verið samþykkt lögformlega á úkraínska þinginu að hann færi frá. Á öðrum stað í myndinni fjallar rannsóknablaðamaðurinn Robert Parry um samtal Victoriu Nuland, þá aðstoðar-utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Geoffrey Pyatt, sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, þar sem þau virðast ræða um valdarán og endurskipulagningu ríkisstjórnar Úkraínu. Ýmislegt um valdarán CIA og hvaða tækni er beitt við þau kemur einnig fram í myndinni.
Fram kemur að Rússar hafi ekki viljað aðra Maidan á Krímskaga og því lýst yfir sjálfstæði skagans, án blóðsúthellinga, en íbúar í Donetsk og Lugans hafi mótmælt hinum nýju yfirvöldum og viljað m.a. fá rússnesku viðurkennda sem annað ríkismál. Sagt er að Turnchinov, sem var forseti Úkraínu um hríð, hafi staðið fyrir stríði gegn eigin þegnum í Donbass - sent herinn og því hafi fylgt blóðsúthellingar og ofbeldi. Stríðið hafi þó þurft að fara leynt, því Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn láni ekki til landa sem standi í stríðsrekstri. Í blálokin er komið inn á það er malasíska farþegaþotan MH17 var skotin niður. Obama hafi umhugsunarlaust kennt Rússum um og sett á viðskiptaþvinganir en rannsóknarskýrsla Almaz-Antey frá 2015 bendi frekar til að flaugin er grandaði henni hafi verið ættuð frá Úkraínuher.
Er fólkið hjá YouTube fyrst að uppgötva það núna að ofbeldi og stríðsátök sjáist í mynd Oliver Stones eða kemur fjöldaáhorf á myndina sér illa fyrir Joe Biden, Victoriu Nuland (sem nýverið sást viðurkenna tilvist líftæknirannsóknastofa í Úkraínu) eða aðra bandaríska embættis- eða stjórnmálamenn? Hvað um það, hafi menn áhuga þá má finna myndina nú víða svo sem á Rumble og jafnvel á YouTube og áhorf á hana er ókeypis.