Eftir Geir Ágústsson:
Bið eftir skurðaðgerðum var í byrjun árs orðin lengri en sem nemur viðmiði embættis landlæknis um ásættanlega bið eftir heilbrigðisþjónustu í næstum öllum flokkum skurðaðgerða sem til skoðunar voru.
Og munum þá að þessi viðmið eru alveg rosalega rúm og fólk getur verið að bíða svo mánuðum skiptir eftir nauðsynlegri meðferð án þess að nokkur sjái nokkuð athugavert við það.
Er þetta óbein afleiðing sóttvarnaraðgerða, ein af mörgum? Hvað eru mörg krabbamein sem fengu að blómstra á meðan allt snérist um eina veiru sem er aðallega hættuleg eldra fólki?
Af hverju er verktökum ekki hleypt að í meiri mæli til að lina þjáningar fólks? Það hafa ekki allir efni á milljónkallinum (með virðisaukaskatti) sem kostar að fá nýjan mjaðmalið. Margir telja nú niður dagana í örorku á meðan bein nuddast í bein. Viðmið landlæknis eru þessu fólki gjörsamlega ónothæf því hver einasti dagur er fullur af verkjalyfjum og síversnandi getu til að ganga á tveimur fótum.
Þessar sóttvarnaraðgerðir voru stórhættulegar samfélaginu og mun taka mörg ár að hreinsa upp rústir þeirra. Ekki er heldur búið að reisa neinar girðingar til að halda aftur af ríkisvaldinu þegar næsta pest kemur með haustinu. Fordæmi fyrir því að leggja samfélagið í rúst er nú til staðar. Stjórnmála- og embættismenn hafa séð hvað er auðvelt að hræða fullorðið fólk til hlýðni og fá það til að klappa með hvaða vitleysu sem er. Gagnrýni fjölmiðla og fagmanna er lítil og veik og auðvelt að hunsa. Alþingismenn brugðust gjörsamlega þar til alveg í blálok seinasta takmarkanatímabils þegar örfáir þeirra vöknuðu úr dauðadáinu (með örfáum undantekningum, nánar tiltekið tveimur undantekningum). Fjölmiðlar hafa raunar reynst verri en ekkert þegar kemur að því að veita samhengi og miðla gögnum og rannsóknum til almennings og auðvitað veita yfirvöldum aðhald.
Nú passa ýmsir af talsmönnum harðra aðgerða sig á að koma hvergi fram í fjölmiðlum og halda sér til hlés því það blasir við að afnám allra aðgerða er ekki að setja samfélagið á hliðina þótt Landspítalinn kvarti aðeins í skipulagsleysi sínu. Þeir sem vilja nota grímu gera það, þeir sem vilja versla á netinu gera það, þeir sem vilja styrkja ónæmiskerfi sitt gera það og þeir sem vilja forðast mannamót og samkomur gera það. Persónulegar sóttvarnir í raun. Aðrir iðka venjulegt líferni og byggja upp hjarðónæmi til að verja áhættuhópana. Og málinu lokið.
Loksins.
Eftir tvö ár af innfluttum kínverskum skottulækningum.