Fyrir nokkrum dögum kom barónessan Emma Nicholson í viðtal á bresku fréttastöðinni GB News og sagði frá skrýtnu máli. Fyrir tæpu ári var konu nauðgað á kvennagangi á ónafngreindu sjúkrahúsi í Bretlandi en er hún kærði var lögreglu sagt að það gæti ekki hafa gerst, því enginn karlmaður hefði verið þar til staðar. Þrátt fyrir að árásin hefði náðst á eftirlitsmyndavélar þá þráaðist spítalinn við, árásarmaðurinn var nefnilega trans og skráður inn í kerfið sem kona. Í desember sem leið tvítaði J. K. Rowling: “Stríð er friður. Frelsi er þrældómur. Fáfræði er styrkur. Einstaklingurinn sem nauðgaði þér með getnaðarlim sínum er kona.” Hún var þó ekki að vísa til þessa máls, heldur til lögreglunnar í Skotlandi sem leyfir nauðgurum að skrá sig sem konur við skýrslutökur - væntanlega til að fá að fara í kvennafangelsi.
GB News hóf útsendingar í júní á síðasta ári og hefur fjallað um efni sem er á bannlista hjá stóru fjölmiðlunum. Um það leyti er útsendingar hófust og jafnvel fyrr var farið í herferð gegn þeim sem bar þann árangur að margir auglýsendur hættu við að auglýsa hjá stöðinni - en þeir eru a.m.k enn í loftinu.
Á endanum þurfti þó sjúkrahúsið að viðurkenna að konunni hefði verið nauðgað og lögreglurannsókn er nú í gangi. Emma, sem nú situr í Lávarðadeildinni, kallar eftir endurskoðun á reglum sem gefi transfólki forréttindi og ógni rétti kvenna og stúlkna til öryggis og friðar og kalli á að þeim sé sýnd vanvirðing. Hún segir í viðtalinu að fleiri en 10 konur hafi haft samband við sig og sagst hafa kvartað undan því að karlmaður væri sjúklingur á deild þeirra en á þær hafi ekki verið hlustað. Hún segir einnig að hjúkrunarfólk hafi verið rekið fyrir að neita að ljúga því að sjúklingum að karlmaðurinn sem þeir kvörtuðu undan væri kona. Hún segir að þessi stefna að leyfa fólki að skilgreina kyn sitt sjálft án aðkomu yfirvalda hafi komið fram af fullum krafti 2015 og hvert landið af öðru tekið það upp. Hún segir þó að breskur almenningur sé ekki sáttur við þessa stefnu sem komi frá æðstu stjórn heilbrigðiskerfisins og að Frakkar séu líka mjög á móti þessu og Svíar séu farnir að spyrja sig hvort rétt hafi verið að gefa börnum lyf til að hamla kynþroska þeirra.
Emma er þeirrar skoðunar að það sé algjörlega óásættanlegt að skikka starfsfólk breska heilbrigðiskerfisins til að ljúga að sjúklingum og segir frá því að þrjár endurskoðanir á reglunum séu nú í gangi. Ekki sé þó von til mikils frá þeim öllum - ekki þegar þeir sem komu þessum reglum á eigi að endurskoða þær. Hún segist ekki bara vilja vekja athygli á þessum skaðlegu og niðurlægjandi reglum heldur hyggist hún slá þær út af borðinu.