Bætur vegna frelsissviptingar og illrar meðferðar á Sævari M. Ciesielski hækkaðar um 146 milljónir

frettinInnlendarLeave a Comment

Tveimur yngri börnum Sævars M. Ciecelski voru í dag dæmdar viðbótarbætur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Lilja Rún Jensen og Victor Ciesielski Jensen fá hvort um sig 77 milljónir vegna sak­fellingar og frelsis­sviptingar föður þeirra í Guð­mundar- og Geir­finns­málunum. Frá dragast áður greiddar bætur, tæpar 45 milljónir.

Lilja Rún og Victor höfðu í stefnun sinni vísað til laga sem Alþingi samþykkti í desember 2019 þar sem ráðherra var heimilað að greiða bætur til hinna sýknuðu og aðstandenda þeirra, þar á meðal barna hinna látnu. Þau sögðu að lögin yrðu ekki skilin öðruvísi en að um bótakröfur barnanna fari með sama hætti og um bótakröfur hinna lifandi.

Þegar litið er til bóta­fjár­hæða sem á­kveðnar voru með dómum Lands­réttar í málum Guð­jóns Skarpéðinssonar og Kristjáns Viðars þykja miska­bætur vegna sak­fellingar og frelsis­sviptingar Sæ­vars Marínós Ciecielski hefði hann verið á lífi, hæfi­lega á­kveðnar 385 milljónir króna.

Ríkið hefur þegar greitt 239 milljónir í bætur til að­stand­enda Sæ­vars en með dóminum er sú fjár­hæð hækkuð í 385 milljónir.

Aðeins tvö af börnum Sævars stefndu ríkinu með kröfu um viðbótarbætur vegna illrar meðferðar á föður þeirra. Í stefnunni er rakin sú hrikalega meðferð sem Sævar mátti þola við rannsókn málsins. Hann var yfirheyrður 180 sinnum af lögreglu í samtals 340 klukkustundir. Hið tilefnislausa og langvarandi gæsluvarðhald sem Sævar sætti jafngilti pyntingum, það hafi í raun verið fáheyrð andleg og líkamleg raun.

Þetta eru hæstu miskabætur sem ákvarðaðar hafa verið, en Kristján Viðar Júlíusson fékk 350 milljónir með dómi Landsréttar í fyrra.

Skildu eftir skilaboð