Forstjóri BlackRock segir að tími glóbalismans sé liðinn – en hvað tekur við?

frettinIngibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Eftir Ingibjörgu Gísladóttur:

Hinn 24. mars ritaði Larry Fink, stjórnandi BlackRock, hluthöfum bréf þar sem stóð að endalok glóbalismans væru fyrirsjáanleg. Innrás Rússa í Úkraínu hefði bundið enda á þriggja áratuga stjórnun heimsmálanna og myndi hafa varanlegar efnahagsafleiðingar um allan heim. Nú muni menn þurfa að endurmeta hverjum sé ráðlegt að vera háðir og endurskipuleggja hvar vörur eru framleiddar og settar saman. Hann varar við að af-glóbalísering muni kalla á verðbólgu og seðlabankar muni þurfa að velja á milli hækkunar vöruverðs eða minni framleiðni. Einnig ritaði hann að havaríið sem innrás Rússa hafði í för með sér gæti styrkt rafmyntir í sessi. Rafrænt alheimsgreiðslukerfi, ef vel hannað, gæti auðveldað alþjóðaviðskipti og minnkað hættu á peningaþvætti og spillingu.

Þegar Larry lætur í sér heyra þá hlusta menn. Hann er einn af toppunum í World Economic Forum og Blackrock er stærsti fjárfestingasjóður í heimi, heldur utan um 10 trilljónir USD, og Larry hefur krafist þess af þeim fyrirtækjum er hann fjárfestir í að þau skili ekki aðeins arði heldur beiti sér einnig fyrir þjóðfélagsbreytingum. Í pistli 2018 hefur Andrew Ross Sorkin eftir honum: Þjóðfélagið krefst þess að fyrirtæki, einka- sem opinber-, þjóni samfélaginu ....Til að njóta langtíma velgengni, þarf hvert fyrirtæki ekki aðeins að standa sig fjárhagslega, heldur einnig að leggja sitt til þess að bæta samfélagið.

Í árlegu bréfi sínu 2020 sagði Larry að loftslagsbreytingar væru nú afgerandi þáttur í langtímaáætlanagerð fyrirtækja og að hann tryði því að róttæk endurskipulagning fjármála væri framundan. Hann sagði að við myndum í náinni framtíð sjá - og fyrr en flestir byggjust við - verulega endurskipulagningu á fjármagnskerfi heimsins. En ef Larry tryði á að heimurinn væri að hlýna til skaða af mannavöldum ætti hann þá að fjárfesta í fyrirtækjum eins og Lockheed Martin, Raython og Exxon Mobil? Vildi hann í alvöru bæta samfélagið myndi hann þá þvinga fyrirtækin til að taka upp woke kapítalismann, sem gerir ekkert fyrir hinn almenna launamann eða fjárfesta í Pfizer sem hefur margoft verið sektað fyrir brot á lyfjalögum og greiddi hæstu sekt er þá hafði verið lögð á lyfjafyrirtæki, 2.3 milljarða USD árið 2010?

Larry virðist boða sultardaga, verðbólgu og vöruskort. Vestræn ríki virðast eiga sjálf að fara að framleiða þær vörur er þau nota - með grænni orku, eða a.m.k. með dýrari orku en þekktist áður en hamfarahlýnunarspámennirnir náðu völdum og rafræna alheimsgreiðslukerfið þeirra í Davos er sagt eiga að vera forritanlegt svo að almenningur geti ekki eytt laununum sínum í neitt sem er talið skaðlegt Móður Jörð. Ferðalög til útlanda gætu því orðið takmörkunum háð, sökum CO2 útblásturs flugvéla og þrengt gæti orðið að neyslu manna með ófyrirsjáanlegum hætti. Hin nýja heimsmynd Davosliðanna er í smíðum og virðist langt komin. Erum við tilbúin?

Skildu eftir skilaboð