Hið breska Daily Mail var með frétt þann 26. mars um að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafi gefið út nýjar leiðbeiningar um fóstureyðingar og slær því upp að stofnunin leggi til að öll tímamörk á fóstureyðingum verði afnumin. Svo virðist sem þingmaðurinn Fiona Bruce hafi vakið athygli þeirra á málinu. Haft er eftir henni að slík tillaga „komi hreint ekki til greina“ og sé „hneykslanleg.“ Hún bætti við: „Lífvænlega mannveru mætti taka af lífi alveg fram að fæðingu. En samt, degi, klukkustund eða augnabliki síðar gæti sama gerð gagnvart barni talist manndráp.“
Lesa má um þessar nýju tillögur á bls. 28 í leiðbeiningunum. Vísað er í rannsóknir í hinum ýmsu löndum sem sýni að reglur sem takmarka fóstureyðingartíma hafi áhrif á greindarskertar konur, unglinga, ungar konur, konur sem búi langt frá læknastöðvum, konur sem þurfi að leggja í ferðalag til að fá fóstureyðingu, lítið menntaðar konur, fátækar eða atvinnulausar umfram aðrar. Þessar tillögur virðast því vera eins konar jafnréttiskrafa. Sagt er að rannsóknirnar sýni að afleiðingarnar af því að vera neitað um fóstureyðingu sakir þess hve meðgangan sé komin langt á leið gætu verið þær að konan væri neydd til að ganga með barnið gegn vilja sínum. Slíkt megi líta á sem ósamræmanlegt þeirri kröfu alþjóðlegra mannréttindalaga að bjóða skuli upp á fóstureyðingu ef meðgangan valdi konu verulegum sársauka eða þjáningum, án tillits til þess hvort fóstrið sé lífvænlegt.
Allt miðast við rétt konunnar. Hið ófædda barn hefur engan rétt. Í álitsgerðinni er minnst á að þvingaðar fóstureyðingar séu refsiverðar en hvergi minnst á að ekki megi eyða barni sem er af „röngu“ kyni þótt slíkt sé útbreitt víða um heim. Fjarlægja skal allar takmarkanir á fóstureyðingum og gera þær refsilausar en umræðu um siðfræði þess að taka lífvænlegt barn af lífi í móðurkviði vantar.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ætti kannski ekki að flíka mannréttindakröfum akkúrat núna þegar almenn mannréttindi hafa ekki verið og eru sums staðar enn lítt virt í kóvíðfárinu. Horft hefur verið framhjá 6. grein Alþjóðayfirlýsingarinnar um lífssiðfræði og mannréttindi sem boðar upplýst og þvingunarlaust samþykki fyrir inngripum í líkamann. Lygar og blekkingar teljast vart upplýst samþykki og hótun um atvinnumissi hlýtur að teljast þvingun.
One Comment on “Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með að leyfa fóstureyðingar fram að fæðingu”
Í rauninni kemur þetta ekki á óvart og það í sjálfu sér er óhuggulegt. Því miður er samhljómur þarna og með forsætisráðherra sem kallaði nýju lögin um fóstureyðingar (að 20-22viku?) áfangasigur, ef ég man rétt. Hún vildi leyfa fóstureyðingu fram að fæðingu. Já siðleysið er algert. Hvaða PANDORUBOX gæti slíkt opnað?