Eftir Geir Ágústsson:
Ég skil alveg að það sé bara leyfð ein skoðun í einu. Þannig líður okkur best. Þannig eru allir vinir. Bóluefnin virka og valda engum aukaverkunum, börn þurfa sprautur, Pútín er brjálaður fjöldamorðingi, NATO hefur ekki gert neitt af sér og forseti Úkraínu er óspilltur mannvinur.
En þótt áróðurinn sé stanslaust keyrður á okkur finnst mér samt að það sé óþarfi að ljúga.
Tökum dæmi, úr frétt á Visir.is:
Í fréttinni kemur fram að rússnesk yfirvöld fari ekki lengur fram á Úkraína verði „af-nasistavædd“ en Rússar hafa haldið því fram, án þess að leggja fram sannanir þess efnis, að nasismi sé landlægur í Úkraínu.
Enginn nasismi í Úkraínu, gott og vel.
Grípum nú niður í grein á Wikipedia (en þar á bæ er allt óvinsælt fjarlægt) um þingkosningar í Úkraínu árið 2019, þar sem úrslitin voru eftirfarandi:
Þarna er meðal annars flokkurinn Svoboda sem hlýtur rúmlega 2% atkvæðanna. Samkvæmt Wikipedia er flokkurinn "ultranationalist", sem í tungutaki stjórnmálanna mætti kalla öfga-hægrisinnaðan eða hallan undir nýnasisma. En 2% atkvæðanna er ekkert, er það nokkuð?
Í þessari grein BBC frá árinu 2012 er talað um "the rise of Svoboda". Flokkurinn fékk 10% atkvæða í kosningunum 2012 og tæplega 5% í kosningunum 2014. Í 2014-kosningunum fékk annar flokkur hallur undir nýnasisma, Right Sector, tæp 2% atkvæðanna. Árið 2015 var leiðtogi Right Sector útnefndur yfirmaður úkraínska hersins. Leiðtogar nýnasista í Úkraínu vinna með og heilsa forsetanum.
En bíddu nú við, er forsetinn ekki Gyðingur? Jú, en nýnasistar eru ekki endilega að eltast við Gyðinga. Úkraínskir nýnasistar vilja Rússana í burtu. Það eru þeirra "Gyðingar". Nú fyrir utan að nýnasistar Úkraínu teljast núna nauðsynlegir í baráttunni gegn innrás Rússa. Kannski tilraun Rússa til að útrýma nýnasistum í Úkraínu sé hreinlega að styrkja þá - að færa þá nær valdinu.
Það eru þessar mörgu, öflugu og valdamiklu hreyfingar nýnasista sem rússnesk yfirvöld eru að vísa til. Það réttlætir ekki árásir og innrásir Rússa en það er óþarfi að láta eins og tilvist öflugra nýnasistahreyfinga sé ekki til staðar í Úkraínu. Þær eru það og þær eru óvægnar, vopnaðar og þjálfaðar og nú í fremstu víglínu að hrinda aftur innrás Rússa, sem meðal annars hefur fengið samfélagsmiðla til heimila yfirlýstan stuðning við þær, en slíkt mátti ekki áður en Rússar gerðu innrás.
Er okkur einhver sérstakur greiði gerður með því að afneita því sem er raunverulega til? Að okkur sé talin trú um að allt sem hrekkur af vörum Pútín sé lygi og uppspuni? Svona svolítið eins og Trump var meðhöndlaður og þegar var búið að kjósa hann frá völdum mátti allt í einu segja það sem hann sagði (Hunter Biden er spilltur, veira varð til á rannsóknarstofu, fíkn í rússneska orku er hættuleg Evrópu).
Ég skil að sumu leyti þá sem telja áróður vera einföldustu leiðina til að móta skoðanir okkar, en er ekki óþarfi að ljúga svona blákalt?