Áður en blásið er í vindmyllur

frettinGeir Ágústsson, Pistlar1 Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Vindmyllur í íslensku samhengi hafa hingað til verið lítil tilraunaverkefni sem hafa gengið misvel. Á köflum hafa þær skilað mikilli og samfelldri orku, á öðrum köflum hafa þær brunnið. Við vitum öll hvernig vindmyllur líta út í umhverfinu og hvaða ónæði getur stafað af þeim. Vængirnir geta brotnað af og skapað hættu. Þær snúast í gegnum loftið og fuglar sem rekast á vængina koma limlestir og jafnvel höfuð- eða vænglausir út úr slíkum árekstri. Þær þurfa mikið viðhald og flestar gerðir vængja er ekki hægt að endurnýta og þá eru þeir grafnir í jörðina. Og ef það blæs of mikið, eða of lítið, þá framleiða þær ekkert.

Allt þetta vitum við og það þarf lítið að ræða það. Í Evrópu og sérstaklega Danmörku eru vindmyllur vel prófuð og þróuð tækni. Vindmyllurnar eru komnar út á sjó og á góðum dögum framleiða þær mikið af ódýrri raforku sem hefur að auki þann kost að krefjast ekki fjárútláta til Miðausturlanda.

En reynslan þýðir ekki bara að menn geri meira af því sama. Reynsla þýðir stundum að menn stíga á bremsuna, staldra við og endurskoða fyrri áform.

birdÁhrif staðsetningar getur til dæmis þýtt mjög mikið fyrir fuglalíf. Séu vindmyllur staðsettar á slóð farfugla geta þær ollið miklum fugladauða. Ég heyri orðróma þess efnis að ný löggjöf í Hollandi muni kveða á um að stöðva vindmyllur á ferðatíma farfugla. Nú þegar er búið að kynna tækni sem hægir á vindmyllum ef ákveðnir fuglar í útrýmingarhættu, eins og ernir, nálgast þær. Vindmyllur geta einnig breytt umhverfi sínu, svo sem samsetningu sjávar og úrkomu.

Þetta, og meira til, er lítið rætt. Vindmyllur eru almennt álitnar vera umhverfisvænar, öruggar og áreiðanlegar. Það má vel vera. Ég er ekki að andmæla vindmyllum í sjálfu sér. Ef menn vilja hafa þær frekar en uppistöðulón í umhverfi sínu þá þeir um það. En það er engin ástæða til að finna upp hjólið þegar reynslubankinn er til staðar og fer sívaxandi. Það á enginn að þurfa láta koma sér á óvart ef íslenskir gæsastofnar missa höfuðið af því menn lögðu vindmyllur á flugleiðir þeirra. Rafmagnskapla þarf að grafa í jörðu og ástæðulaust að vanmeta áhrif slíkra framkvæmda á umhverfið. Hin mikla umferð bifreiða allan ársins hring sem sinnir viðhaldi á vindmyllum er fyrirsjáanleg. Uppskriftin að byggingu og rekstri vindmylla er til og vel þekkt. Það þarf bara einhver að lesa hana.

Og þá helst áður en menn leggja í þessa vegferð.

One Comment on “Áður en blásið er í vindmyllur”

  1. Það á enginn að láta sér detta til hugar að framleiða raforku, svo nokkru nemi, nema með kjarnorku, gerum smá samanburð:

    Ísland: Samanlögð framleiðsla allra orkuvera á landinu nemur nú: 2,65 Gwst.

    Frakkland, Paluel. Samanlögð framleiðsla þar i fjórum kjarnaofnum nemur: 4×1330 Mw= 5,32 Gwst

    Það þarf semsagt ekki nema 2 af þessum Paluel-ofnum til þess að standa jafnfætis allri íslensku framleiðslunni, og orkuverið þar tekur upp álíka stórt landsvæði, og álverið í Straumsvík.

    Tæknin sem beitt er við framleiðsluna í Paluel er af svokallaðri annarri kynslóð slíkra orkuvera (frá áttunda áratugnum, 1970-80), en undirbúningur að framleiðslu með þriðju kynslóðinni hefur staðið áratugum saman, og nálgast nú lokastigið (Flamanville), en þá verður ekki um neinn kjarnorkuúrgang að ræða, segja hönnuðirnir .

    Hvernig væri nú að hefjast handa við að loka í Straumsvík, og undirbúa svo staðinn fyrir framleiðslu með einum till tveimur kjarnaofnum, góð höfn og aðgangur að kælivatni úr sjó eru nú þegar ákjósanleg.

    Þar með væru orkuvandamál Íslendinga úr sögunni í eitt skipti fyrir öll.

Skildu eftir skilaboð