Kári skrifar - greinin birtist fyrst á Ogmundur.is 5. feb. 2023
Lengi hefur „feluleikur“ einkennt það hvernig stjórnmála- og embættismenn ræða [eða ræða alls ekki] um hið raunverulega eðli EES-samningsins. Fólk reynir að halda „í þá von“ að hann sé „bara eins og hver annar alþjóðasamningur“. Það er að sjálfsögðu rangt.[i] Samningurinn nær mun lengra og er meira íþyngjandi en svo að hægt sé að setja hann í sama flokk og t.d. alþjóðasamninga Sameinuðu þjóðanna sem þó fylgja ýmsar skuldbindingar.
Í samráðsgátt stjórnarráðsins var birt mál nr. 27/2023 þann 8. febrúar síðastliðinn. Um er að ræða „Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, með síðari breytingum (bókun 35)“. Um þetta segir í samráðsgáttinni: „Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný 4. gr., til viðbótar 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, þess efnis að þegar lagaákvæði sem réttilega innleiðir skýra og óskilyrta reglu á grundvelli EES-samningsins er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skuli hið fyrrnefnda ganga framar.“[ii]
Forgangur Evrópuréttar
Að framan er lýst forgangsreglu Evrópuréttar. Markmiðið er að taka af öll tvímæli um það að Evrópurétturinn [EES réttur] hafi forgang þegar kemur til árekstra á milli innlends réttar við Evrópurétt, bókun 35[iii] fjallar um það. Í rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, frá 30. september 2020 er tildrögum málsins lýst.[iv]
Í frumvarpsdrögunum kemur þó ekki fram, beint, það sem þó er kjarni málsins alls, sem er íslenskt fullveldisafsal. Málið er lagt þannig upp að það sé hagsmunamál fyrir borgarana, svo þeir geti notið til fulls dásemda evrópska efnahagssvæðisins. Raunverulega ástæðan kemur þó fram í byrjun frumvarpsins.
„Sem lítið og opið samfélag hefur Ísland ríka hagsmuni af því að staðið sé við þjóðréttarlegar skuldbindingar. EES-samningurinn er umfangsmesti alþjóðasamningur sem Ísland hefur gert og mótar allt þjóðlífið. Með EES-samningnum fær Ísland aðgang að innri markaði ESB með þeim gagnkvæmu réttindum og skyldum sem í því felst.“[v]
Forgangur Evrópuréttar var fyrst staðfestur með tveimur dómum Evrópudómstólsins á sjöunda áratug síðustu aldar. Þeir eru: mál 26/62, Van Gend en Loos v Nederlandse Administratie der Belastingen [bein réttaráhrif] og mál 6/64, Flaminio Costa v ENEL [forgangur Evrópuréttar].
Evrópska efnahagssvæðið
Evrópska efnahagssvæðið (EES) samanstendur af 27 aðildarríkjum ESB auk Íslands, Liechtenstein og Noregs. Samræming laga og reglna er mikilvægt atriði þar. Margir sjá forgang Evrópuréttar sem nauðsynlega forsendu samræmingarninnar. Þannig má segja að forgangurinn sé beinlínis innbyggður í efnahagssamstarfið sem slíkt.
Það er því ákveðin mótsögn í því fólgin að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu en telja jafnframt að innlendur réttur (íslenskur) hafi forgang gagnvart evrópsku réttarreglunum. EES-samningurinn er vissuleg „sérsamningur“ en samt sem áður myndar hann beina tengingu inn í evrópska réttarkerfið. Samninginn er því hvorki hægt að uppfylla á „sérforsendum“ né móta aðra réttarhefð innan EFTA-dómstólsins en gildir almennt í Evrópurétti. Forgangurinn er innbyggður í Evrópuréttinn, hvað sem viðkemur bókun 35. Það gilda einfaldlega samræmdar reglur á innri markaði Evrópusambandsins og forgangurinn er liður í að tryggja virkni þeirra.
Tenging EES við Evrópusambandið liggur í gegnum 217. gr. Lissabon-sáttmálans [310. gr. í Amsterdam-sáttmálanum frá 1997]. Hún hljóðar svo: „Sambandinu er heimilt að gera samninga við eitt eða fleiri þriðju ríki eða alþjóðastofnanir um stofnun bandalags sem felur í sér gagnkvæm réttindi og skyldur, sameiginlegar aðgerðir og sérstaka málsmeðferð.“[vi]
Þegar einstaklingar sækja um aðild að félagi gildir almennt sú regla að menn samþykkja og ganga að reglum félagsins sem þegar eru í gildi. Umsækjandinn sækir ekki um en ætlar á sama tíma að breyta reglum viðkomandi félags eða fylgja „sérreglum“ eftir því sem hentar. Enn fremur er það ákvörðun félagsins hvort umsækjandinn fær inngöngu eða ekki. Oft er aðild ekki sjálfgefin. Sama gildir um ríki sem sækir um aðild að ríkjabandalagi [t.d. ESB]. Ríkin ganga að þeim reglum sem þeim eru settar. Þess vegna er það rétt sem oft hefur komið fram, að það er ekki um neinar „samningaviðræður“ að tala heldur aðlögun og upptöku á reglum sem þegar gilda.
Í þessu ljósi sést enn betur að Evrópurétturinn er ráðandi og EES-réttur verður að fylgja honum. Evrópska efnahagssvæðið (EES) var stofnað árið 1994 til þess að færa út ákvæði ESB um innri markað, til ríkja fríverslunarsvæðisins (EFTA). Noregur, Ísland og Liechtenstein eru aðilar að EES. Sviss er aðili að EFTA en tekur ekki þátt í EES. Samstarfsaðilar ESB og EES EFTA (Noregur og Ísland) tengjast einnig með ýmsum „norðlægum stefnum“ [norðurslóðasamstarf] og vettvangi sem beinist að hraðri breytingu norðurhluta Evrópu og norðurskautssvæðisins í heild.[vii]
Tilgangur Evrópska efnahagssvæðisins (EES) er að færa út innri markað ESB til ríkja innan evrópska fríverslunarsvæðisins (EFTA). Núverandi EFTA-ríki vilja ekki ganga í ESB. Löggjöf ESB um innri markaðinn verður hluti af löggjöf EFTA/EES-ríkjanna þegar þau hafa samþykkt að taka hana upp. Stjórnsýslu og stjórnun EES er skipt á milli ESB og EFTA/EES ríkjanna í tveggja stoða skipulagi. Ákvarðanir eru teknar af sameiginlegum EES-stofnunum (EES-ráðinu, sameiginlegu EES-nefndinni, sameiginlegu EES-þingmannanefndinni og ráðgjafarnefnd ESA).[viii]
EES samningurinn gengur lengra en hefðbundnir fríverslunarsamningar á þann veg að að færa réttindi og skyldur innri markaðar ESB yfir til EFTA-ríkjanna [að Sviss undanskildu]. Fjórfrelsið nær til frjáls flæðis á vörum; frjálsra fólksflutninga; þjónustufrelsis og frjálsra fjármagnsflutninga. Við það má bæta samkeppnisreglum, flutningum, orkumálum [ranglega í tilviki Íslands], efnahags- og peningasamvinnu.[ix] Einnig vinnulöggjöf, „neytendavernd“ og umhverfismálum.[x]
Bókun 35 við EES-samninginn ber með sér að þar er reynt að „fara bil beggja“ [sem oft gefst illa í lögfræði]. Hún var innleidd sem lögskýringarregla og kemur fram í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Í lauslegri þýðingu hljóðar bókunin á þessa leið: „Samningur þessi miðar að því að koma á einsleitu evrópsku efnahagssvæði, sem byggir á sameiginlegum reglum, án þess að krefjast þess að samningsaðili framselji löggjafarvald til hvers kyns stofnunar á Evrópska efnahagssvæðinu; og þessu verður því að ná með innlendri málsmeðferð [án framsals löggjafarvalds].“[xi]
Seinni hluti bókunarinnar er hins vegar í beinni mótsögn við þann fyrri [Sole Article] og áréttar í raun það sem legið hefur fyrir frá því að Evrópudómstóllinn kvað upp dóma sína í Van Gend en Loos og Costa v Enel, um að Evrópuréttur skyldi hafa forgang, kæmi til árekstra: „Verði mögulegir árekstrar á milli innleiddra EES-reglna og annarra lagaákvæða, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur skuli ríkjandi í þeim tilvikum.“[xii]
Enginn þarf að velkjast í vafa um það hvor hluti bókunar 35 myndi ráða úrslitum kæmi málið fyrir Evrópudómstólinn. Kæmist EFTA-dómstóllinn að allt annari niðurstöðu væri það að minnsta kosti ekki í samræmi við seinni hluta bókunar 35, að ekki sé talað um forgangs- og meginreglu Evrópuréttar. Það skal tekið skýr fram, að hér er ekki verið að lofa og prísa fyrirkomulagið, heldur lýsa fyrirkomulaginu og þeim reglum sem gilda.
Hér má síðan rýna í dóm Hæstaréttar, í máli nr. 10/2013. Þar segir m.a.: „Í 3. gr. laga nr. 2/1993 er mælt á þann veg að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010 tekur lögskýring samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verður svo sem framast er unnt gefin merking sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu. Slík lögskýring getur á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið verði fram hjá orðum íslenskra laga eins og í dóminum segir.“[xiii]
Þarna er forgangi Evrópuréttar [EES-réttar] hafnað gagnvart íslenskum rétti. Nú er það svo að það er ekki Hæstaréttar að „víkja til hliðar“ meginreglum Evrópuréttar, hann hefur ekki vald til þess. Þá stendur eftir að EES-réttur hafi slíka sérstöðu að meginreglur Evrópuréttar eigi ekki alltaf við. Slík ályktun endar í blindgötu. EES-réttur er bein endurspeglun á Evrópurétti [enda sameiginlegar reglur á Evrópska efnahagssvæðinu] þótt hann taki til færri sviða.
„Feluleikurinn“ áðurnefndi kemur víða fram; á Alþingi, í dómskerfinu, í stjórnkerfinu og á fjölmiðlum. Reynt er að „skauta“ framhjá þeirri staðreynd að Evrópu/EES-réttur er yfirþjóðlegur réttur, með yfirþjóðlegar réttarreglur. Það er alvarlegt mál að festa þjóðina í slíku „kviksyndi“ en lausnin á vandamálinu er ekki sú að segja Alþingi eða stjórnvöld hafa vald sem þau hafa ekki og eru búin að afsala sér. Það kemur æ betur í ljós að aðgangurinn að Evrópska efnahagssvæðinu er dýru verði keyptur.
Í 6. gr. EES-samningsins segir: „Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna[xiv] sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, þó að því tilskildu að þau séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála.“[xv]
Sá fyrirvari er þó settur í 6. gr. að ákvæðin séu „efnislega samhljóða“. Að öðru leyti er það skýrt að Evrópudómstólinn varðar leiðina, EES-rétturinn fylgir á eftir.
Um reglugerðir og tilskipanir segir í 7. gr. EES-samningsins: „Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:
- a) gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;
- b) gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.“[xvi]
Forgangsregla Evrópuréttar merkir ekki að á Íslandi sé skylt að innleiða allar reglugerðir/tilskipanir Evrópusambandsins. Hún segir hins vegar til um rétthæð Evrópuréttar gagnvart innlendum rétti, eftir að sá fyrrnefndi hefur verið innleiddur.
Áherslan á einsleitni [sjá einnig 105. gr. samningsins] og samræming rétttar á Evrópska efnahagssvæðinu kemur fram í 102. gr. EES-samningsins. Í 1. mgr. 102. gr. segir: „Til að tryggja réttaröryggi og einsleitni EES skal sameiginlega EES-nefndin taka ákvörðun um breytingu á viðauka við samning þennan eins fljótt og unnt er, eftir að bandalagið hefur samþykkt nýja samsvarandi löggjöf bandalagsins,[xvii] með það að markmiði að unnt sé að beita samtímis þeirri löggjöf og breytingunum á viðaukunum við samninginn. Bandalagið skal í þessum tilgangi tilkynna öðrum samningsaðilum í sameiginlegu EES-nefndinni eins fljótt og unnt er þegar það samþykkir réttarheimild um málefni sem fjallað er um í samningi þessum.“
Ef deilur rísa um túlkun og beitingu EES-samningsins kann að reyna á 111. gr. hans. Í 1. mgr. hennar segir: „Bandalagið eða EFTA-ríki getur lagt deilumál er varðar túlkun eða beitingu samnings þessa fyrir sameiginlegu EES-nefndina...“ Þá segir m.a. í 3. mgr. sömu greinar: “...hafi deilumálið ekki verið leyst innan þriggja mánaða frá því að það var lagt fyrir sameiginlegu EES- nefndina, geta samningsaðilar, sem eiga aðild að deilumálinu, samþykkt að fara fram á það við dómstól Evrópubandalaganna að hann kveði upp úrskurð um túlkun á viðkomandi reglum.“[xviii] Lögsaga Evrópudómstólsins er vissulega ekki skyldubundin samkvæmt ákvæðinu en sýnir þó vel hvaða túlkun skal ráða. Styrkir það sem áður er komið fram, að EES-rétti er ætlað að fylgja Evrópurétti.
Það var alvarleg valdníðsla stjórnvalda að láta ekki reyna á áðurnefnt ferli í tilviki þriðja orkupakkans [undanþágur], að ekki sé tala um klúðrið við sjálfa innleiðinguna; að innleiða úreltan Evrópurétt. Það sem þjóðina vantar ekki eru snjallmælar, brask og meiri fjárglæframennska. Ekkert af því er í hennar þágu.
Réttarheimildir og röðun þeirra
Eins og ýmsum er kunnugt, skiptist Evrópuréttur í frumlöggjöf [primary law] og afleidda löggjöf [secondary law]. Undir hið fyrrnefnda falla sáttmálar sem gerðir hafa verið á milli aðildarríkja ESB. Stundum er litið svo á að almennar meginreglur falli einnig undir frumlöggjöf. Aðrir flokka almennar meginreglur í sérstakan hóp. Það geta verið óskrifaðar réttarheimildir sem þróast hafa með dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Almennar meginreglur Evrópuréttar geta sömuleiðis átt rót í sameiginlegum stjórnarskrárhefðum aðildarríkjanna.[xix] En í stuttu máli má flokka réttarheimildir Evrópuréttar í eftirfarandi röð:
- Sáttmálann um Evrópusambandið (TEU), Sáttmálann um starfshætti Evrópusambandsins (TFEU) [mynda saman Lissabon-sáttmálann] og bókanir við þá (37 bókanir, 2 viðaukar og 65 yfirlýsingar, fylgja sáttmálunum til frekari upplýsinga, án þess að vera felldar inn í lagatextana í heild);
- Sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi [mannréttindi];
- Stofnsáttmála Evrópukjarnorkubandalagsins (Euratom) og enn er í gildi sem sérstakur sáttmáli;
- Alþjóðasamninga, með þeim fyrirvara sem áður hefur komið fram og snýr að því hvernig Evrópudómstóllinn beitir ákvæðum alþjóðasamninga eða hvort hann beitir þeim yfirleitt;
- Almennar meginreglur Evrópuréttar;
- Afleidda löggjöf [secondary law].[xx]
Rétthæð afleiddrar löggjafar stofnast samkvæmt greinum 289, 290 og 291 í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins [TFEU] og skiptist á milli lagagerða [legislative acts, settra laga], framseldra gerða [delegated acts] og framkvæmdargerða [implementing acts].[xxi]
Lagagerðir kallast þær gerðir sem samþykktar eru með venjubundnu eða sérstöku löggjafarferli. Framseldar gerðir eru að sínu leyti gerðir utan löggjafar, hafa almennt gildi og bæta við eða breyta tilteknum þáttum í lagagerðum sem minni þýðingu hafa. Löggjafinn [Evrópuþingið og Ráðið] getur framselt valdið, til samþykktar þessara gerða, til framkvæmdastjórnarinnar. Markmið, innihald og umfang, ásamt tímalengd valdaframsalsins, eru skilgreind í viðkomandi lagagerð sem og öll brýn málsmeðferð [urgent procedures] þegar það á við. Auk þess setur löggjafinn skilyrði um framsalið, t.d. heimild til afturköllunar eða andmælarétt.
Framkvæmdagerðir eru almennt samþykktar af framkvæmdastjórninni sem er til þess bær þegar samræmdra skilyrða er þörf vegna innleiðingar lagalega bindandi gerða. Framkvæmdagerðirnar heyra einungis undir Ráðið í sérstökum tilvikum sem eru tilhlýðilega rökstudd og á sviðum sameiginlegrar utanríkis- og öryggisstefnu. Sé grunngerð samþykkt samkvæmt venjubundnu löggjafarferli, getur Evrópuþingið eða Ráðið hvenær sem er gefið framkvæmdastjórninni til kynna, að drög framkvæmdagerðar fari út fyrir framkvæmdavaldið sem kveðið er á um í grunngerðinni [basic act]. Þá verður framkvæmdastjórnin að endurskoða drögin.[xxii]
Afleidd löggjöf er þrenns konar og skiptist í: reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir. Þar vísast til 288. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Í 291. gr. sáttmálans segir: „Aðildarríkin skulu samþykkja allar ráðstafanir samkvæmt landslögum sem nauðsynlegar eru til að koma lagalega bindandi gerðum Sambandsins til framkvæmda.“[xxiii] Skýrara getur það varla verið.
Reglan um forgang Evrópuréttar [primacy of EU law] nær eins og áður er rakið aftur til byrjunar sjöunda áratugs síðustu aldar. Hún fellur undir almennar meginreglur Evrópuréttar.[xxiv] Það er ekki síst í því ljósi sem ýmsar spurningar vakna í tengslum við EES-samninginn og bókun 35. Að það sé samningsatriði, að ekki sé sagt „valkvætt“, að semja sig frá meginreglu Evrópuréttar kemur spánskt fyrir sjónir. Forgangsreglan hlaut alla tíð að fylgja með „í pakkanum“ þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. En eins og komið er fram, snýst bókun 35 einmitt um að tryggja forgang Evrópuréttarins sem aftur felur í sér fullveldisafsal á Íslandi.
Forgangsreglan er grundvallarstoð í réttarkerfi ESB og miðar að því að tryggja einingu og samræmi Evrópuréttarins. Evrópudómstóllinn krefst þess formlega að Evrópuréttur hafi algeran forgang fram yfir landsrétt aðildarríkjanna og hann hefur ávalt krafist æðsta valds til að ákvarða samband Evrópuréttar og landsréttar.[xxv]
Lagaleg staða Íslands gagnvart Evrópurétti flækist nokkuð þegar horft er til mismunandi réttarheimilda. Þar má nefna að innri orkumarkaður Evrópu byggir á lagastoðum í Lissabon-sáttmálanum [TFEU]. Þær eru 194. gr.; 114. gr.; 122. gr.; 170. gr.; 171. gr.; 172. gr.; 216. gr.; 217. gr. og 218. gr.
Ísland hefur aldrei samþykkt (innleitt) Rómarsáttmálann [frumlöggjöf] né aðra sáttmála sem á eftir honum komu, s.s. Lissabon-sáttmálann. Hins vegar eiga margar reglugerðir og tilskipanir [afleidd löggjöf] sér stoð í Lissabon-sáttmálanum og þær síðan hellast yfir Alþingi Íslendinga, til innleiðingar.
Lokaorð
Þegar samið var um inngöngu Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu voru menn vafalaust í góðri trú um að íslenskur réttur hefði forgang ef kæmi til árekstra þar á milli. Engu að síður lágu þá þegar fyrir nefndir tveir dómar Evrópudómstólsins, um forgang Evrópuréttar, og síðari dómar þar sem forgangurinn er áréttaður.
Það er ekki sanngjörn krafa að ætlast til þess að menn sjái áratugi fram í tímann. Alveg sértaklega á það við um jafn breytileg fyrirbæri eins og Evrópurétt og Evrópska efnahagssvæðið. Dr. Christian Frommelt fjallar um það í ágætri grein sinni og m.a. er vísað til í þessum skrifum, hvernig eðli Evrópska efnahagssvæðisins hefur breyst frá því sem stofnað var til upphaflega.
Kolefnisskattar ESB á millilandaflug, og Íslendingum er ætlað að taka upp, sýna vel þann vanda sem ráðandi íslenskir stjórnmálamenn eru búnir að koma þjóðinni og atvinnulífinu í. Skattarnir hafa í för með sér gríðarlegar hækkanir á flugmiðum enda er ætlunin að draga úr flugi. Það má jafnvel fullyrða að þessir skattar muni ganga af ferðaþjónustunni dauðri þar sem líklegt er að skattarnir muni hækka eftir að þeim er komið á. Fyrst er ákveðnum sköttum komið á en þeir síðan hækkaðir. Þarna eiga íslensk stjórnvöld að beita íslenskum fullveldisrétti, hafna þessari skattlagningu algerlega og hafna upptöku hennar í EES-samninginn. Eitt er skattlagningin sem slík og annað hvað síðan verður um það fé sem þannig er aflað. Íslendingar munu engu ráða um það en geta hins vegar hafnað umræddum Evrópurétti. Meðvirknin og hræðslan verður að víkja. Ísland sem eyþjóð er í allt annari stöðu en ríki á meginlandi Evrópu sem að auki hafa víðtæk og þétt lestarkerfi [ekki síst mjög góðar hraðlestir]. Hraðlestir eru ekki ferðamáti sem fólki stendur til boða frá Íslandi.
Stjórnvöld hafa neitað beiðni um birtingu svarbréfs Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, vegna undanþágu frá skattlagningunni. Hins vegar má næstum fullyrða að engar undanþágur fáist. Evrópusambandið viðurkennir ekki rétt smáríkja, hverra ráðherrar hafa auk þess skrifað undir Parísarsamkomulag án þess að hafa hugmynd um hvaða afleiðingar það kynni að hafa. „Veislugleðin“ verður vitinu yfirsterkari og timburmennirnir koma síðar.
Þegar þáverandi forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, ómakaði sig í heimsókn til Íslands sumarið 2019, var látið eins og um „kurteisisheimsókn“ væri að ræða, eitthvert þægilegt kaffispjall með Katrínu forsætis. Síðar kom í ljós, það sem allir máttu vita, að tilgangurinn var allt annar; nefnilega samþykkt orkupakka þrjú. Erindið var að tryggja framgang orkupakkans innan Alþingis. Það má síðan ræða hitt hvernig forsætisráðherrar, almennt talað, geta bundið þjóðþingin. Það gerist í krafti svokallaðrar „samstöðu,“ oft þvert á vilja þjóða. Íslenska stjórnarskráin er þó skýr um það að hverjum þingmanni ber að greiða atkvæði eftir eigin samvisku.
Niðurstaðan varð sú að Alþingi Íslendinga tók norska (evrópska) hagsmuni fram yfir íslenska hagsmuni. Íslenska forsætisráðherrann skorti bæði myndugleika og kjark til þess að setja íslenska hagsmuni ofar öðrum. Öðruvísi mér áður brá. Árið 2004 gegndi Davíð Oddsson stöðu utanríkisráðherra. Þá var mál Bobby Fischer í hámæli. Hann fékk sem kunnugt er íslenskan ríkisborgararétt, eftir að hafa nánast sætt „ofsóknum“ af hálfu bandarískra stjórnvalda, vegna meints brots á viðskiptabanni gegn þáverandi Júgóslavíu, árið 1992.[xxvi]
Í máli Fischers þurfti skjót og rétt viðbrögð. Það gekk eftir. Bandarísk stjórnvöld beittu hins vegar þrýstingi og kröfðust framsals Fischers til Bandaríkjanna. Því hafnaði Davíð algerlega og vísaði réttilega til þess að íslenskir ríkisborgarar yrðu ekki framseldir.[xxvii] Þetta merkir samandregið að núverandi forsætisráðherra lyppaðist niður vegna heimsóknar Ernu Solberg, og norskra hagsmuna, en þáverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, stóð upp í hárinu á stórveldinu Bandaríkjunum og hafði sigur. Af þessu sést að það skiptir öllu máli hver tekur ákvarðanir og hvaða ákvarðanir. Þessi tvö dæmi skýra muninn á skorti á pólitískum myndugleika og pólitískum myndugleika. Veldur hver á heldur.
Góðar stundir!
[i] Sjá t.d.: Frommelt, Christian (2019): The two-pillar structure of the EEA. Analysis. efta-studies.org. https://www.liechtenstein-institut.li/application/files/1615/7435/7732/Two-Pillar-Structure.pdf
[ii] Utanríkisráðuneytið. (2023). Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, með síðari breytingum (bókun 35).
[iii] EEA Agreement. Protocol 35. https://www.efta.int/sites/default/files/documents/legal-texts/eea/the-eea-agreement/Protocols%20to%20the%20Agreement/protocol35.pdf
[iv] Surveillance Authority. Reasoned Opinion. Document No: 1047483. https://www.eftasurv.int/cms/sites/default/files/documents/gopro/Reasoned%20opinion%20-%20Own%20initiative%20case%20against%20Iceland%20concerning%20the%20incorporation%20of%20Protocol%2035.pdf
[v] Utanríkisráðuneytið, op. cit.
[vi] Samningurinn um starfshætti Evrópusambandsins [TFEU], 217. gr.
[vii] López, M.Á and Razauskas, A. (2022). The European Economic Area (EEA), Switzerland and the North. Fact Sheets on the European Union. European Parliament.
[viii] Ibid.
[ix] Sjá 5. kafla EES samningsins, 46. gr.
[x] López, M.Á and Razauskas, A., op. cit.
[xi] EEA Agreement. Protocol 35, op. cit.
[xii] Ibid.
[xiii] Hrd 10/2013.
[xiv] Svartletrun mín.
[xv] 6. gr. EES-samningsins. https://www.stjornarradid.is/library/03-Verkefni/Utanrikismal/EES/Meginm%c3%a1l%20EES-samningsins%20-%20fyrir%20vef.pdf
[xvi] 7. gr. EES-samningsins.
[xvii] Svartletrun mín.
[xviii] Svartletrun mín.
[xix] EUR-Lex. (2022). Sources of European Union law. https://eur-lex.europa.eu/EN/legal-content/summary/sources-of-european-union-law.html
[xx] Bux, U. and Maciejewski, M. (2022). Sources and scope of European Union law. Fact Sheets on the European Union. European Parliament.
[xxi] Ibid.
[xxii] Ibid.
[xxiii] Svartletrun mín. 291. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.
[xxiv] V. Trstenjak, "National Sovereignity and the Principle of Primacy in EU Law and Their Importance for the Member States," Beijing Law Review, Vol. 4 No. 2, 2013, pp. 71-76. doi: 10.4236/blr.2013.42009.
[xxv] Bux, U. and Maciejewski, op. cit.
[xxvi] Davíð Oddsson utanríkisráðherra: Brot Fischers fyrnt að íslenskum lögum. Morgunblaðið, 18. desember 2004.
[xxvii] Fischer ekki framseldur. Fréttablaðið, 30. mars 2005. https://www.visir.is/g/2005486270d