Erlendi Eurovision aðdáandinn, Perdo Rivas, lofar söngkonuna Diljá Pétursdóttur í hástert og telur að hún lendi í topp 5 sætunum. Rivas segir Diljá eiga skilið að vinna keppnina. Pedro er afar hrifinn af rödd söngkonunnar og hæfileikum hennar á sviðinu. Hann segir það mjög erfitt að syngja liggjandi, sem Diljá gerir auðveldlega og einnig sé erfitt að hamast á sviðinu, láta sönginn ganga svona vel og ná háum nótum á sama tíma.
Rivas segir Diljá búa yfir miklum persónuleika, með fallegt bros og töff hreyfingar og verður svo furðulostinn þegar að lagið breytist úr ballöðu yfir í "drum and base" og lýsir því sem einstakri snilld sem hafi ekki sést áður. Þá hrósar hann Íslendingum fyrir að bjóða Eurovision keppninni upp á þessa veislu í ár.
Ísland hoppaði úr 26. sæti í það 24. í veðbönkum og hefur farið hratt upp síðan að Diljá vann íslensku keppnina á laugardaginn. Sigurlíkurnar hafa ekki aukist enn sem komið er, en ljóst er að mikill kraftur er í siglingu söngkonunnar í veðbönkum þessa vikuna.
Norðurlöndunum er spáð talsvert betra gengi í keppninni í ár, að undanskildum Dönum sem er spáð 28. sæti.
Svíþjóð, sem ekki hefur enn valið framlag sitt til keppninnar, er spáð sigri. Líklegt þykir að söngkonan Loreen verði fulltrúi landsins, en hún er Eurovision-heiminum vel kunn. Vann hún Eurovision keppnina árið 2012 með laginu Euphoria.
Finnum er spáð öðru sæti, en Käärijä er fulltrúi landsins og flytur hann sannkallað partýlag, Cha Cha Cha.
Norðmönnum er svo spáð 5. sætinu, en framlag þeirra í ár er lagið Queen of Kings í flutningi Alessöndru.
Hægt er að sjá umfjöllunina hér neðar og athugasemdirnarna undir eru til marks um mikla ánægju með framlag Íslendinga í ár og einnig fleiri Eurovision aðdáendur tjá sig um flutninginn.