Lygasagan um Föðurlandsvinadaginn fellur saman

frettinErlent, Fjölmiðlar, KrossgöturLeave a Comment

Eftir Baldur Benjamín Sveinsson:

Allir sem fylgjast með stjórnmálum ættu að hafa heyrt um Föðurlandsvinadaginn 6. janúar 2021 (Patriot’s Day). Narratíf valdhafamiðlanna er að föðurlandsvinir og stuðningsmenn Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, hafi gert tilraun til að gera árás á þinghús Bandaríkjanna þann dag. Okkur var sagt að fimm lögreglumenn hefðu látist af völdum árásarmannanna (eða „hryðjuverkamannanna“), að þetta væri mesta árás á lýðræðið síðan Suðurríkin börðust fyrir sjálfstæði frá Bandaríkjunum árið 1861, og að bandarískir þingmenn og öldungadeildarþingmenn hefðu óttast um líf sitt. Ógnin var sem sagt meiri en bæði Pearl Harbor og Tvíburaturnaárásirnar svo ekki sé meira sagt.

Allt kom þetta til vegna þess að Donald Trump boðaði til mótmæla því hann og stuðningsmenn hans töldu að kosningasvindl hefði verið framið fyrr um haustið, í forsetakosningunum nóvember 2020. Fjöldi manns mætti og hann hélt ræðu fyrir framan Hvíta húsið. Eftir það fylkti fólkið liði í átt að þinghúsinu þar sem mikil læti brutust út, enda mikil ólga í loftinu.

Dauði lýðræðisins? Eða hvað?

Myndskeið sem spiluð voru í fréttum sýndu hvernig reitt fólk (aðallega hvítt og aðallega karlmenn) ruddist inn í þinghúsið, kleif upp veggi, braut glugga, barði á hurðir og öskraði af reiði. Við fengum jafnvel að sjá mann sitja í sæti Nancy Pelosi með skítuga skóna uppi á borði (hræðilegt). Ekki nóg með það heldur fengum við líka að sjá gálga sem var reistur á lóðinni við þinghúsið. Ekki bætti úr skák að nokkrir kveiktu á rauðum blysum sem jók dramatíkina enn frekar. Og eitt það undarlegasta við þetta allt saman voru hinir meintu „hryðjuverkamenn“. Þeir litu út eins og karakterar úr teiknimynd. Einn þeirra, Jacob Chansley, var ber að ofan, með andlitsmálningu í bandarísku fánalitunum og bar skinnhatt á höfði sér með vísundahornum. Hann varð að táknmynd þessarar meintu „árásar“. Frægasta myndin af honum er hann öskrandi með galopinn munn, lokuð augu og hallandi höfðinu upp í loftið og myndin tekin í návígi. Narratífið var eins í öllum stóru fjölmiðlunum: Að lýðræðið hafi næstum því dáið þann dag. En sagan átti eftir að breytast.

Ný gögn og sagan fellur saman

Síðastliðinn mánudag, 6. mars 2023, sýndi Tucker Carlson, þáttastjórnandi á Fox News, myndskeið úr öryggismyndavélum úr þinghúsinu á umræddum degi. Þessum myndskeiðum hafði verið leynt fyrir almenningi. Og sagan féll saman. Myndskeiðin sýna m.a. áður nefnda „Q-Anon shamaninn“, Jacob Chansley, rölta um þinghúsið alveg pollrólegan í fylgd lögreglumanna. Hann var ekki dreginn af þeim í handjárnum öskrandi, heldur leit út eins og hann hefði fengið leiðsögn um húsið af þeirra hálfu. Hann og lögreglumennirnir sáust tala saman. Mesti fjöldi lögreglumanna sem fylgdi honum á tímabili var níu. Allir voru þeir vopnaðir skammbyssum og hann óvopnaður og hefði reynst þeim auðvelt að yfirbuga hann.

Tucker Carlson birti einnig myndskeið (að vísu áður þekkt) af Chansley fara með bæn í þinghúsinu þar sem hann þakkaði hinum Himneska föður fyrir að veita lögreglumönnunum innblástur til að hleypa honum og öðrum inn í bygginguna.

Tryllingsleg viðbrögð valdhafamiðlanna

Í kjölfar þessarar birtingar fóru valdhafamiðlarnir á yfirsnúning í bræði sinni. Reiðiblogg Oliver Darcy og David Goldmann á CNN voru vægast sagt ógeðsleg. Þeir svífast einskis og eru enn staðfastari á að „hryðjuverk“ hafi verið framin þennan dag og gefa ekkert eftir, jafnvel þegar að narratífið byrjar að hrynja.

Chuck Schumer, formaður öldungadeildarinnar, heimtaði að Rupert Murdoch, eigandi Fox News, ræki Tucker Carlson. Valdamesti maður öldungadeildarinnar er s.s. að krefjast ritskoðunar og félagsásókna (e. social lynchings), allt í nafni þess að „verja lýðræðið okkar“.

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Merrick B. Garland, lét ekki á standa og endurtók þá lygi að fimm lögreglumenn hefðu látist af völdum æsta múgsins eða „hryðjuverkamannanna“. Sannleikurinn er sá að enginn lögreglumaður dó þennan dag. Einn þeirra dó degi síðar úr heilablóðfalli og fjórir aðrir sviptu sig lífi nokkrum dögum síðar. Aftur á móti var einn mótmælandi, Ashli Babbit, skotin til bana í þinghúsinu af öryggisverði. Það er grafalvarleg að dómsmálaráðherra skuli ljúga upp í opið geðið á bandarískum almenningi og heimsbyggðinni allri með slíkum málflutningi.

Nú gætu sumir spurt sig hvers vegna þetta fólk ætti að ljúga um atburði þessa örlagaríka dags. Í besta falli hafi fjölmiðlar og aðrir hlaupið svo dæmalaust á sig, og með slíkum látum, að í geðshræringu sinni hafi þeir logið því að sjálfum sér og öðrum að um eiginlegt hryðjuverk hafi verið að ræða. Og að þeir hafi síðan vaknað upp við vondan draum og vitað upp á sig sökina. Því ef þeir verða dæmdir munu þeir eflaust verða dæmdir fyrir hrein og bein landráð. Slík er alvaran í þessu máli. Aftur á móti er það „best case scenario“. Við munum ekki komast að sannleikanum um þennan atburð fyrr en stór rannsókn hefst með tilheyrandi yfirheyrslum. En eitt er víst: Tröllasagan um Föðurlandsvinadaginn er fallin og fnykurinn af henni finnst víða.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is 11. mars 2023


Heimildir:

Blogg Goldmanns hjá CNN:
https://edition.cnn.com/2023/03/08/media/tucker-carlson-white-house/index.html

Blogg Darcy hjá CNN:
https://edition.cnn.com/2023/03/06/media/tucker-carlson-fox-news-january-6/index.html

Tucker Carlson á Fox:
https://www.youtube.com/watch?v=HPg9N_HiLMg

Skildu eftir skilaboð