Vandræðagangur vegna fjölmiðla

frettinBjörn Bjarnason, FjölmiðlarLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með því undanfarin ár hvernig gamalgrónir fjölmiðlar laga sig að breyttum aðstæðum, ekki síst með aukinni sókn á netið.

Það er magnað að sjá hvað vefst fyrir menningar- og viðskiptaráðherra, Lilju D. Alfreðsdóttur, að berja saman tillögur um starfsumhverfi íslenskra fjölmiðla á tímum þegar net- og alþjóðavæðingin hefur náð undirtökunum í þessu efni og stór hluti auglýsingatekna rennur annað hvort til risanna sem eiga samfélagsmiðlanna eða ríkisútvarpsins.

Í Morgunblaðinu í dag (13. mars) segir ráðherrann að ráðuneytið vinni „nú að fjölmiðlastefnu“ sem ætlað sé að „styðja við starfsumhverfi fjölmiðla í ríkara mæli en áður hefur verið“ en þó sé „fullsnemmt að segja nákvæmlega“ til hvaða aðgerða eigi að grípa enda standi fjölmiðlar hér „eins og fjölmiðlar um heim allan“ frammi fyrir viðfangsefnum sem séu „algjörlega af nýjum toga í fjölmiðlasögunni“.

Af þessum orðum ráðherrans mætti ráða að í fleiri löndum standi þeir sem reka fjölmiðla í sömu sporum og hér. Þeir bíði þess með vaxandi óþreyju að stjórnvöld móti stefnu svo að fjölmiðlar lifi af þessar sögulegu breytingar.

Dregið skal í efa að svo sé. Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með því undanfarin ár hvernig gamalgrónir fjölmiðlar laga sig að breyttum aðstæðum, ekki síst með aukinni sókn á netið og fjölbreyttri nýtingu þess með betri þjónustu við lesendur og auglýsendur.

Hér hefur þessi aðlögun einnig orðið eins og best sést á hvernig Árvakur hf. hefur fetað inn á nýjar brautir með útvarpsrekstri, sjónvarpssamtölum fyrir utan mbl.is. Þá er Vísiröflugur netmiðill sem nýtir sér alla stafræna tækni án þess að gefa út nokkuð á prenti eins og sumir íslenskir netmiðlar kjósa að gera.

Allir þessir miðlar búa þó við það séríslenska fyrirbæri að samhliða því sem skattgreiðendur greiða 5 til 6 milljarða til ríkisútvarpsins hrifsar það til sín stóran skerf auglýsingatekna og nýtur algjörrar sérstöðu í mörgu tilliti. Þetta ríkisfyrirtæki varð til við allt aðrar tæknilegar aðstæður við miðlun efnis og dytti engum í hug að ríkið ætti að koma því á fót nú á tímum.

Fyrir um það bil ári sagði ráðherrann, sem segir nú „fullsnemmt að segja nákvæmlega“ hvað fyrir henni vakir í fjölmiðlamálum, að ríkisútvarpið ætti að hverfa af auglýsingamarkaði. Vefst það nú fyrir ráðherranum hvernig á að ná þessu markmiði? Þarna er þó bent á meginmeinsemdina – fyrirferð ríkisútvarpsins og hvernig það þrengir að öðrum. Sé þessi mismunun í þágu ríkismiðilsins ekki viðurkennd í verki er til einskis af stað farið við umbætur í þágu íslenskra fjölmiðla.

Sérhæfing í fjölmiðlun hefur aukist með starfrænu byltingunni. Höfðað er til lesenda með því að bjóða þeim heimsendar fréttir sem höfða til áhugasviðs þeirra. Þessi þjónusta hefur ekki þróast hér.

Eitt dæmi má nefna. Árið 2007 var starfræna fjölmiðlafyrirtækið Politico stofnað í kringum samnefndan netmiðil sem sérhæfði sig í að birta með hraði nákvæmar stjórnmálafréttir fyrir markaði í Bandaríkjunum og Evrópu. Politico hitti í mark og nú birtist efni á prenti, í útvarpi, sjónvarpi, hlaðvarpi og á viðburðum undir merkjum Politico sem nýtur virðingar og hefur mikil áhrif með pólitískri blaðamennsku. Tækifærin eru til að nýta þau!

Skildu eftir skilaboð