Fyrr í mánuðinum var það í fréttum í sænska sjónvarpinu, SVT, að sænska útvarpið ætlaði að draga mjög úr spilun á lögum gengjarapparans Yasins en hann var dæmdur ásamt öðrum fyrir mannrán rapparans Einárs, sem var síðar skotinn til bana af stuttu færi viku áður en hann átti að vitna í mannránsmáli sínu. Haft er eftir Karin Olsson, sem var menningarfulltrúi Expressen, að hún telji ekki að Svíar muni í framtíðinni sjá listamenn með afbrotaferil standa á verðlaunapalli. Það telur hún óhugsandi nú um stundir.
Fyrirmyndir unga fólksins
Eitthvað hefur breyst því gengjarappararnir hafa verið stærstu númerin hjá unga fólkinu, óháð húðlit. Í grein í Arbetet frá 2019 er hinum nýja sænska gengjarappara lýst sem kókaínsjúgandi, tramadoltyggjandi, drápsvél er sækist eftir lífsþægindum og vilji láta alla dansa við tónana af úrkynjun sinni og aldursslitum - sem sé því miður veruleikinn í Svíþjóð árið 2019. Skoði menn listann yfir vinsælustu lögin þá sé „Katten i trakten“ eftir rapparann Einár efst á blaði og í fjórða sæti sé „Kall“ eftir Ant Wans. Bæði lögin geti flokkast sem - saki vöntunar á betra orði - gengjarapp þar sem vopn, dóp og ofbeldi sé sýnt í rómantísku ljósi. Minnst er á að rappararnir Yasin og Jaffar Byn hafi verið dæmdir fyrir vopnaeign og að í lagi Alex Ceesays „Häromkring“ rappi hann m.a. „sértu seinn að borga, þá rukkum við mömmu þína“ og „mitt í umferðinni deyrðu, sé barnið þitt með þér í bílnum er okkur sama“. Í greininni segir frá því að Grammyverðlaunin það árið hafi hlotið hrokkinhærður 23 ára maður frá Tensta: Z.E. Fyrir tveim árum hafi hann afplánað dóm fyrir stórfelldan þjófnað. Sá hinn sami var handtekinn vegna sprengjuárásar á fjölbýlishús í vesturhluta Stokkhólms þann 1. janúar í ár samkvæmt sænskum blöðum. Kenning lögreglunnar var að árásin hefði beinst að öðrum gengjarappara, 1.Cuz.
Ofbeldið stigmagnast enn
Hinn 12 mars í ár var það í fréttum að fimmtugur maður í Tullinge hefði verið skotinn til bana. Hann hefði sjálfur ekki staðið í neinu vafasömu en sonur hans hefði tengst Vårbynätverket (líkt og Yasin) og segir blaðið Samnytt að ofbeldi innflytjendagengja á Stokkhólmssvæðinu fari stigmagnandi og nú séu aðstandendur gengjameðlima líka í skotlínunni og þeir séu farnir að koma ættingjum sínum úr landi þeim til verndar. Einnig segir blaðið að grunur leiki á að dauði tveggja kvenna, 18 og 50 ára, í bruna um helgina hafi komið til vegna hefndaraðgerða glæpaklíku.
Fyrr í mánuðinum var enn einn rapparinn dæmdur fyrir grófa líkamsárás. Akram H. som rappar undir nafninu Akke var ásamt félaga sínum dæmdur í eins árs og níu mánaða fangelsi. Forsagan er sú að 8-10 drengir af innflytjendaættum höfðu verið með ólæti í sundlaug og voru tveir þeirra, um 15 ára aldurinn, leiddir burt af lögreglu vegna ásökunnar um að hafa reynt að draga bikíníbuxur niður um 11 ára stúlku. Móðir annars þeirra hringir í eldri son sem ásamt vini sínum stöðvar bíl föður stúlkunnar og ráðast þeir á hann. Þeir sparka í höfuð honum svo hann missir meðvitund og hoppa á honum svo hann brákast á beini. Móðir rapparans hvatti son sinn til dáða, samkvæmt vitnum. Ungir synir mannsins reyndu að hjálpa honum, en auk 11 ára stúlkunnar var í bílnum fyrrum kærasta með barn í burðarpoka.
Nú er loks komið nóg
Svíar virðast loksins hafa fengið nóg af gengjaröppurum sínum en sú var ekki staðan í nóvember 2021 en þá var sænska sjónvarpið með frétt um að Svíþjóðardemókratarnir vildu að Brå (forvarnalögreglan) gerði úttekt á skaðsemi gengjarappsins með það í huga að sænska útvarpið hætti að spila slíkt. Haft er eftir Tobias Anderson, fulltrúa SD, að að það liggi beint við að takmörkun þessarar tegundar tónlistar hafi fyrirbyggjandi áhrif hvað afbrot varðar, og það sé afar mikilvægt. Hann bendir á að allir tónlistarmenn sem fá verk sín flutt í útvarpi fái STIM-peninga (Stef-gjöld) og það sé hluti vandans. Tengslin á mill gengjarapps og glæpastarfssemi liggi í augum uppi. Haft er eftir tónlistarstjóra sænska útvarpsins að þar á bæ ráði menn því sjálfir hvað sé spilað en ekki stjórnmálamennirnir. Amanda Lind, þáverandi menningarmálaráðherra var á sama máli og vísaði til frelsis fjölmiðlanna, það sé ekki hlutverk stjórnmálamannanna að stýra fjölmiðluninni.
Ljóst er að sænska útvarpið, sem er á framfæri skattgreiðenda, hefur átt sinn þátt í að koma á þeirri menningu er skilaði 90 sprengjuárásum og 63 líkum með skotsár á síðasta ári. Menning sú, gengjarappið, á upptök sín í Bandaríkunum eins og svo margt annað miður æskilegt sem berst þaðan austur um haf.