Eftir Arnar Sigurðsson:
Nýlega kom út athyglisverð bók sem heitir ,,Think Again” og eins og nafnið gefur til kynna minnir á að í flestum tilfellum sé það tímans virði að endurhugsa fyrri ályktanir. Bókin fjallar á skemmtilegan hátt um að þeir sem endurhugsi sínar ályktanir og spádóma hafi oftar rétt fyrir sér og það óháð gáfnafari eða námsstimplum. Höfundur bókarinnar bendir réttilega á að almennt taki fólk þægindi af sannfæringu framyfir óþægindi við að efast. Þannig hlustum við frekar á skoðanir þeirra sem fá okkur til að líða vel í stað þeirra sem gera kröfu um gagnrýna hugsun.
Líklega eru fáar stofnanir hér á landi sem þurfa jafn mikið á gagnrýninni hugsun að halda og embætti Landlæknis sem jafnframt er líklega sú slakasta á því sviði. Nú kann vel að vera að einhverjum finnist bréfritari taka stórt upp í sig en fólk þarf ekki að vera vísindamenn að atvinnu til að fjalla um staðreyndir frekar en að tryggt sé að vísindamenn virði staðreyndir eins og þeir eru þó menntaðir til.
Vísindi eða fullyrðingar?
Hjarðheilsuvísindamenn stofnunarinnar hafa lengi fullyrt að línulegt samhengi sé á milli aðgengis að áfengi og neyslu og lengi hefur verið fullyrt að einkarekstur í áfengisverslun hafi allstaðar haft í för með sér aukningu á neyslu og aukningu á margs konar ófarnaði tengdum áfengisneyslu. Því miður hefur ekki enn tekist að mæla slíkt með vísindalegum hætti því hvergi í vestrænu hagkerfi hefur einokunarverslun verið aflögð og hægt að mæla afleiðingar á þessu sviði. Sú staðreynd skiptir ,,vísindafólk” á þessu sviði engu máli, því þægilega útgáfan er að ,,allar rannsóknir hafi margsannað samhengið” og fullkomlega óþarft að endurhugsa fyrri niðurstöðu.
Samtökin ,,Society for the study of addiction” gerðu fyrir nokkrum árum stórfurðulega rannsókn á samhengi milli þéttni einkarekinna verslana og ótímabærra dauðsfalla í Bresku Kólumbíu milli 2003 og 2006 eftir að smásöluverslun var gefin frjáls (fylkið rekur áfram einokunarheildsölu). Þess má geta að hin 13 fylki Kanada hafa mismunandi stjórn á útsölu á áfengi. Í sumum fylkjum eins og New Brunswick og Saskatchewan, eru reknar einokunarverslanir en í Alberta ríkir viðskiptafrelsi. Breska Kólumbía sker sig nokkuð úr því þar eru áfengisverslanir bæði ríkis og einkareknar sem augljóslega gerir samanburðarmælingu ómögulega.
Ályktanir og orsakasamhengi
Niðurstaða rannsóknarinnar er engu að síður afgerandi, dauðsföllum á tímabilinu fjölgaði um 3,25% fyrir hverja 20% fjölgun á einkareknum vínbúðum! Ekkert er hinsvegar vikið að afleiðingum á þéttni þeirra ríkisreknu en þess má geta að þær selja um fimmfalt meira magn að meðaltali. Þegar betur er að gáð vakna þó nokkrar spurningar. Hvernig er hægt að fullyrða um aukningu dauðsfalla á einungis þriggja ára tímabili og hvernig er hægt að draga frá áhrif ríkisrekinna verslana frá þeim einkareknu sér í lagi þegar haft er í huga að verðlag þar er að meðaltali hærra en í smásöluverslunum hins opinbera? Hjarðheilsuvísindafólk hefur lengi fullyrt að verð og úrval auki neyslu en gagnrýnendur umræddrar breytingar hafa fullyrt að verð hafi einmitt hækkað og úrval minnkað en samt hafi neyslan aukist, semsagt þvert á eigin kenningar.
Veruleikinn á hvolfi
Til samanburðar má benda á reynslu hér á landi hvar frjálsar netverslanir hafa nú verið starfræktar um tveggja ára skeið með lægra verði, betri þjónustu og betra úrvali sem samt hefur ekki aukið neyslu samkvæmt nýjustu tölum úr talnabrunni Landlæknisembættisins.
Þó þess sé hvergi getið í öllum sannleiksskýrslum sem Landlæknir hefur teflt fram þá er augljóslega ákveðinn mælingavandi til staðar í þessu tilfelli. Annars vegar liggur Breska Kólumbía upp að þremur öðrum kanadískum fylkjum, hvar engin tollafgreiðsla er til staðar auk Bandaríkjanna þar sem eru tollfrjálsar verslanir á landamærum sem augljóslega rugla mælingu á heildarsölu. Hér gildir því lögmálið um lygi, bölvaða lygi og svo tölfræði.
Mikilvægasta ábyrgðin
Höfundar umræddrar skýrslu nefna Norðurlöndin og Ísland sérstaklega sem dæmi um vel heppnaðar einokunarverslanir. Fullyrt er að einokunarverslanir hvetji neytendur til að kaupa minna áfenga drykki með verðstýringu. Í því sambandi má benda á að Sante.is selur óáfenga bjóra og vín en ÁTVR selur enga slíka vöru auk þess sem álagning er lægri á sterkt áfengi heldur en létt í einokuninni!
Skýrsluhöfundar benda á að mörgum yfirsjáist að ríkisstarfsmenn séu mun líklegri til að fara að lögum og þannig sé betur tryggt að ungmennum sé ekki selt áfengi. Í því samhengi má geta þess að í netverslunum hér á landi verða allir að auðkenna sig rafrænt fyrir kaup en aftur á móti sýna eigin kannanir ÁTVR að fimmta hvert ungmenni fær afgreiðslu í verslunum stofnunarinnar þrátt fyrir yfirlýst markmið um að skilríkjaeftirlit sé ,,einn af mikilvægustu þáttum samfélagslegrar ábyrgðar”
Ennfremur má benda á að engum viðurlögum er beitt gagnvart lögbrotum ÁTVR á þessu sviði og það þrátt fyrir að afbrotin séu viðurkennd af stofnunni sjálfri í hverri einustu ársskýrslu!
Greinin birtist fyrst á Krossgötur 18.03.2023