Anthony Blinken er hættulegur maður

frettinErlentLeave a Comment

Eftir Ögmund Jónasson:

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er hættulegur maður. Nú hefur hann minnt þau ríki sem standa að Alþjóðaglæpadómstólnum á þá skyldu sína að handtaka Pútin forseta Rússlands eftir að dómstóllinn gaf út handtökuskipun á hendur honum.

Anthony Blinken var einn þeirra sem hvað ákafast hvatti til innrásarinnar í Írak árið 2003 en þá var hann framkvæmdastjóri demokrata í utanríkismálanefnd Öldungadeildar Bandaríkjaþings (Democratic Staff Director2002-2008). Hann var alla tíð náinn Biden, núverandi forseta BNA (sem um árabil sat í utanríkismálanefndinni, tvívegis formaður) og Obama forseta og var hann jafnan í hópi þeirra sem studdu “regime change” stefnu Bandaríkjamanna, en hún fól það í sér að beita ætti valdi til að skipta um stjórnendur í mikilvægum ríkjum væru þau andstæð hagsmunum Bandaríkjanna, sbr. Venesuela, Sýrlandi, Líbíu, Írak og fleiri ríkjum.

Enn færir Blinken sig upp á skaftið, nú sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og vill skipta um ríkisstjórn í Rússlandi því hvað annað er hægt að lesa í kröfu hans um að hvetja til handtöku forseta landsins. Rússneskir ráðamenn segja slíkt myndi jafngilda yfirlýsingu um stríð. Í tengslum við þessa hvatningu Bidens frammi fyrir bandarískri þingnefnd var hann minntur á að Bandaríkin viðurkenni ekki Alþjóðaglæpadómstólinn svo varla standi Bandaríkjamenn að handtöku forseta Rússlands. Biden svaraði með þeirri aulafyndni að Pútin væri ólíklegur til að heimsækja Bandaríkin í bráð svo varla gæfist færi á handtöku en sagði að þetta snerist um skyldur, “obligations” aðildarríkja að Alþjóðaglæpadómstólnum.

En þrátt fyrir útúrsnúninga og aulafyndni utanríkisráðherra Bandaríkjanna þá er þetta ekkert gamanmál. Þetta er dauðans alvara í orðsins fyllstu merkingu. Augljóst er að Bandaríkjamenn vilja viðhalda stríðsrekstrinum í Úkraínu og gera allt sem þau geta til að kynda undir. Þetta er enn eitt sprekið á bálið. En hver ætlar að slökkva eldinn? Hve lengi ætlar hinn vestræni heimur að láta gera sig að leiksoppi stríðsæsingamanna?

Fyrir utan glæfralega framgöngu Bandaríkjamanna og fylgiríkja þeirra mætti hafa mörg orð um tvöfeldni og óheiðarleika þeirra sem stýra stærsta herveldi heimsins og hernaðarbandalaginu NATÓ. Í því samhengi koma orð þessara manna og athafnir okkur við.

Sjá nýlega umfjöllun: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thad-var-tha

Skildu eftir skilaboð