Eftir Geir Ágústsson:
Við munum væntanlega vel eftir grímuskyldunni. Grímur í búðum. Grímur í flugvélum. Grímur í margmenni. Við samþykktum grímuskylduna. Grímur hljóta jú að gera „eitthvað“ gagn. Eru þær ekki eðlilegur hlutur af sóttvörnum, og þá sérstaklega í heimsfaraldri? Sennilega var þetta upplifun flestra, og gott og vel.
En sumir gengur lengra en aðrir. Þegar ljóst var að grímur gerðu nákvæmlega ekkert gagn, hægðu ekki á útbreiðslu veiru og vernduðu ekki gegn smiti né því að smita aðra þá héldu margir samt áfram að bera þær af mikilli skyldurækni. Yfirvöld og blaðamannafulltrúar þeirra hjá fjölmiðlunum keyrðu vissulega þungan áróður en innst inni höfðu margir, og jafnvel flestir, sterkan grun um að gríman væri gagnslaus, fyrir utan að vera óþægileg. Af hverju var henni þá ekki hent í ruslið?
Það læðist að manni sá grunur að margir hafi kunnað afskaplega vel við grímuna og af ýmsum ástæðum. Gríman var mjög sýnileg táknmynd hlýðni – þess að hafa skilið fyrirmæli yfirvalda og sýnt getuna til að fylgja þeim fyrirmælum. Gríman faldi andlit okkar – gerði okkur andlitslaus í raun, og það kunnu margir hreinlega að meta. Gríman gerði okkur að góða fólkinu – fólkið sem ber hag samfélagsins í brjósti sér og hafnar eigingjörnum sérhagsmunum einstaklingsins og hans óþolandi sjálfstæðisbaráttu og þörf til að anda að sér hreinu lofti. Gríman átti að verja okkur, einhvern veginn, gegn því illa sem gekk yfir samfélagið, og átti að gera það með frekar lítilli fyrirhöfn og með litlum tilkostnaði. Gríman var borin eins og verðlaunapeningur þess sem sigrar í keppni – sigur í hollustu og skilningi á boðskapnum sem þurfti lífsnauðsynlega að hlýða.
Þegar grímuskyldan var afnumin héldu margir áfram að bera hana og hneykslast í laumi á þeim sem höfðu fyrir löngu hent henni í ruslið. Smátt og smátt snérist þó grímuskyldan upp í andhverfu sína og gríman orðin að svolitlu aðhlátursefni. Fólk með grímu var eftir á. Það hafði ekki heyrt nýjustu fyrirmæli yfirvalda? Gríman er ekki lengur skylda! Ertu eftir á? Ertu ekki að fylgjast með? Yfirvöld hafa jú afnumið grímuskylduna! Af hverju ertu ennþá með grímu?
Eftir situr að gríman var mögulega elskað fyrirbæri af mörgum. Hún var gullstjarna fyrir góða hegðun. Hún var tákn fyrir hinn þæga þegn. Hún faldi okkur og leyfði okkur að hverfa í fjöldann. Hennar er jafnvel saknað af einhverjum.
Getur gríman hjálpað okkur að skilja opinbera umræðu? Þörfina til að falla í kramið? Viljann til að fylgja línunni? Var hún léttir? Auðveld leið til að senda skilaboð til samborgara sinna um eigin dyggðir og skilning á hinum opinberu fyrirmælum um réttar skoðanir og réttan lífsstíl?
Það er ekkert að óttast fyrir þá sem sakna grímunnar. Margar leiðir eru ennþá í boði fyrir þá sem vilja flagga hlýðni sinni við hinn opinbera boðskap góða fólksins, svo sem að kveikja á fréttatímanum og merkja sig á samfélagsmiðlum. Margir aðrir eru samt dauðfegnir að þurfa ekki lengur að láta hrópa á sig úti á götu fyrir skoðanir sínar. Þær óþolandi skoðanir eru ekki lengur sýnilegar, í formi grímuleysis.
Greinin birtist fyrst á Krossgötur 28.03.2023
2 Comments on “Var grímuskyldan léttir fyrir marga?”
Af hverju er þá heilbrigðisstarfsfólk með grímu ? nú eða læknar.
Hvað spöruðu konur mörg kíló af varalit þegar þær þurftu að nota grímur?