Eftir
Þann 25. mars 2020 birti belgíski sálfræðiprófessorinn Mattias Desmet stutta blaðagrein, titlaða “De angst voor het coronavirus is gevaarlijker dan het virus zelf”, eða “Óttinn við kórónuveiruna er hættulegri en veiran sjálf”. Þessi grein vakti mikil viðbrögð, fyrst í Belgíu en í kjölfarið víða um heim og greining Desmets á þeirri kreppu sem hófst fyrir þremur árum hefur svo sannarlega staðist tímans tönn. Í tilefni af þessum tímamótum endurbirti Desmet greinina á bloggi sínu á Substack og hefur veitt Krossgötum góðfúslegt leyfi til að þýða hana og birta. Bók Desmets, “The Psychology of Totalitarianism” kom út 2022 og verður að telja hana lykilrit þegar kemur að greiningu á atburðum síðustu þriggja ára. Greining hans og gagnrýni hefur mætt hörðum viðbrögðum og tilraunir hafa verið gerðar til að þagga niður í honum, m.a. hefur háskólinn í Ghent bannað honum að nota eigin bók við kennslu, en um það var fjallað á Krossgötum fyrir skemmstu.
Það þarf varla að taka það fram að samfélag okkar er að ganga í gegnum fordæmalausa kreppu – kreppu sem við getum ekki enn metið pólitískar, efnahagslegar, félagslegar og sálrænar afleiðingar af. Frásögn af veiru hefur nú heltekið okkur – frásögn sem er án efa byggð á staðreyndum. En hvaða staðreyndum? Við fengum fyrst innsýn í „staðreyndir“ í gegnum frásögn af veiru í Kína sem neyddi yfirvöld til að grípa til róttækustu mögulegu ráðstafana. Heilu borgirnar voru settar í sóttkví, ný sjúkrahús voru byggð í flýti, fólk í hvítum göllum sótthreinsaði almenningsrými o.s.frv. Hér og þar heyrðist að alræðisstjórn Kínverja væri að bregðast of harkalega við og að nýja veiran væri ekki verri en flensan. Jafnframt heyrðist hið gagnstæða; að veiran hlyti að vera miklu hættulegri en fram hafði komið, því engin ríkisstjórn myndi annars grípa til jafn harkalegra ráðstafana. Á þeim tímapunkti var allt enn fjarri ströndum okkar og við gerðum ráð fyrir að við myndum aldrei komast að raun um staðreyndirnar nákvæmlega, hvað þá að skilja merkingu þeirra.
Hvað segja staðreyndir okkur
Þar til veiran barst til Evrópu. Þá byrjuðum við að skrá fjölda sýkinga og dauðsfalla sjálf. Við sáum myndir af yfirfullum bráðamóttökum á Ítalíu, lestir af herbílum að flytja lík, líkhús full af líkkistum. Upp frá því virtust saga og staðreyndir renna saman og óvissa víkja fyrir vissu. Með réttu? Það er opið til umræðu. Hvernig ákveðum við til dæmis hver deyr „af“ COVID-19? Ef einhver sem er gamall og heilsulítill „fær kórónaveiruna“ og deyr, dó þá sú manneskja „af“ veirunni? Hvernig vitum við það og hvað ræður greiningu okkar á þessum tímapunkti?
Sama gildir um að ákvarða dánartíðni veirunnar. Það reynist líka langt frá því að vera ótvírætt. Eins og sérfræðingar eru sammála um er raunverulegur fjöldi sýkinga líklega að minnsta kosti tíu sinnum hærri en fjöldi greindra sýkinga. Þetta þýðir meðal annars að mat á dánartíðni, eða hættu vegna veirunnar, er mjög mismunandi. Eitt hundrað smitaðir einstaklingar og fjögur dauðsföll þýðir 4% dánartíðni; 1.000 smitaðir einstaklingar og fjögur dauðsföll þýðir 0,4%; dánartíðni; 2.000 smitaðir einstaklingar og fjögur dauðsföll þýðir 0,2% dánartíðni. Ef við byrjum á þessum raunhæfari fjölda sýkinga virðist kórónaveiran allt í einu miklu hættuminni. Og það sama á við um „mat“ á fjölda dauðsfalla. Á þessari stundu (25. mars 2020) er gert ráð fyrir um 16.000 dauðsföllum um allan heim. Er það mikið? Við fyrstu sýn, já. Þangað til maður áttar sig á því að á milli 290.000 og 640.000 manns deyja úr flensu á hverju ári, samkvæmt The Lancet. Sextán þúsund virðist þá allt í einu miklu lægri tala.
Frásögnin ákvarðar merkinguna
Þetta er það sem ég vil segja: Í þessari kreppu er enga vissu að finna í tölunum enda höfum við ekki hlutlæg gögn. Þau eru byggð á huglægum forsendum og samkomulagi. Og sem slíkt er mikilvægt að huga að einhverju sem við virðumst horfa framhjá í ofsahræðslu okkar: Það sem ákvarðar viðbrögð okkar við „veirunni“ eru ekki staðreyndirnar í sjálfu sér, heldur frásögnin sem byggist upp í kringum staðreyndirnar.
Sú frásögn er mótuð af heilbrigðisstarfsfólki sem gerir sitt besta til að hjálpa, af fólki sem vill ekki sjá samferðamenn sína þjást, af stjórnmálamönnum sem vilja taka réttar ákvarðanir, af fræðimönnum sem vilja veita upplýsingar á eins hlutlægan hátt og hægt er. En frásögnin er líka mótuð af stjórnmálamönnum sem eru undir þrýstingi almenningsálitsins og telja sig knúna til að bregðast við af festu, af leiðtogum sem hafa misst stjórn á samfélaginu og sjá tækifæri til að taka aftur í taumana, af sérfræðingum sem vilja fela eigin fáfræði, af fræðimönnum sem sjá tækifæri til að gera sig gildandi, af eðlislægri tilhneigingu mannsins til ofsafenginna viðbragða og að búa til drama, af lyfjafyrirtækjum sem finna peningalykt, af fjölmiðlum sem þrífast á áhrifamiklum sögum, til dæmis frásögnum af einstaklingum sem veiktust sérstaklega illa…
En umfram allt er frásögnin mótuð af ótta og sálrænni vanlíðan sem hafði farið vaxandi í öllum lögum samfélagsins um alllangt skeið. Á árunum og mánuðunum áður en kórónukreppan skall á var varla hægt að afneita vísbendingum um að samfélagið væri á leið í sálræna kreppu. Veikindafjarvistir vegna andlegrar vanlíðunar og notkun geðlyfja var í veldisvexti; kulnun var orðin að faraldri og ógnaði starfsemi heilu stofnananna, fyrirtækjanna og ríkisstofnananna; framtíðarsýnin var sífellt mengaðri af svartsýni og skorti á heildarsýn. Ef siðmenningin skolaðist ekki burt með hækkandi sjávarborði, þá yrði hún vafalaust straumi flóttafólks að bráð, o.s.frv. Grundvallarfrásögn samfélags okkar – frásögnin um Upplýsinguna – vekur ekki lengur þá bjartsýni og jákvæðni sem hún gerði fyrrum, heldur þvert á móti. Frá sjónarhorni nútíma sálfræði er þetta einmitt skurðpunkturinn þar sem óttinn kviknar; skurðpunkturinn þar sem maður hættir að finna til vissu í frásögninni um eigin sjálfsmynd.
Hið raunverulega vandamál er óttinn
Hér er tilgáta mín: Þessi kreppa er fyrst og fremst sálræn kreppa – dulinn ótti sem þegar er til staðar í samfélaginu er að brjótast fram. Kvíði stafar í upphafi aðeins að mjög litlu leyti af raunverulegum vandamálum … en hann réttlætir sig með því að skapa raunveruleg vandamál. Við skynjum nú þegar þessi vandamál: á pólitískum vettvangi, uppgangi einræðisríkisins, á efnahagslegum vettvangi, í samdrætti og gjaldþroti óteljandi fyrirtækja og sjálfstætt starfandi einstaklinga, á félagslegum vettvangi, í varanlegu niðurbroti félagslegra tengsla milli fólks, sem veldur enn meiri kvíða og þunglyndi, og já… líkamlega, í kjölfar andlegrar og félagslegrar streitu, hruns ónæmiskerfisins og hrakandi líkamlegrar heilsu.
Ekki þarf annað en að kynna sér fræðirit um dauða af sálrænum orsökum, áhrif lyfleysu og notkun dáleiðslu við deyfingu til að komast að því hversu ótrúlega mikil áhrif sálfræðilegir þættir geta haft á líkamlega sjúkdóma og heilsu. Ef við náum ekki að rjúfa þann spíral ótta og sálrænnar vanlíðunar sem við sem samfélag höfum verið á leið inn í í áratugi, geta veirur sem eru tiltölulega skaðlausar í dag vel valdið hamförum í framtíðinni.
Við verðum að líta á óttann nú sem vandamál í sjálfu sér, vandamál sem ekki er hægt að smætta niður í „staðreyndir“ um „veiru“ en sem á sér orsök á allt öðru stigi, á sálfræðilegu stigi, og sem snýr á endanum að hinni Stóru Frásögn samfélags okkar. Hin Stóra Frásögn samfélags okkar er frásögn vélhyggjunnar, frásögn þar sem maðurinn er smættaður niður hreina líffræðilega tilvist. Frásögn sem hunsar algerlega sálræna og táknræna vídd manneskjunnar. Þessi sýn á manninn er kjarni vandans. Öll viðbrögð við faraldri sem eiga sér rót í þessari sýn á manninn munu aðeins gera illt verra. Eða eins og Einstein orðaði það: Þú getur ekki leyst vandamál með því að beita sama hugsunarhættinum og skapaði það.
Þetta er hið raunverulega verkefni sem við stöndum frammi fyrir sem einstaklingar og sem samfélag: Að byggja upp nýja frásögn, nýjan jarðveg fyrir sjálfsmynd okkar, nýjan jarðveg fyrir samfélag okkar, nýjan jarðveg fyrir sambúð okkar með öðrum. Hannah Arendt áttaði sig á því þegar árið 1954 að gamla frásögnin væri að renna út á tíma og því stæðum við frammi fyrir „einstæðum vandamálum mannlegs samfélags“. Það eru ekki fyrst og fremst efnislegar varnir gegn veiru sem þarf að reisa, heldur táknræn vörn gegn óttanum. Ef við höfum þetta í huga gæti það hjálpað okkur að bregðast rétt við á réttum tímapunkti í þessari kreppu.
Þorsteinn Siglaugsson þýddi.
Greinin birtist fyrst á Krossgötur 30.03.2023