Eftir Geir Ágústsson verkfræðing og moggabloggara:
Moggabloggið, þ.e. þeir sem skrifa á blog.is sem rekstraraðili Morgunblaðsins á og rekur, er ruslakista að mati blaðamanns á framfæri hins opinbera. Þar kemur sjaldnast eitthvað fram sem vitglóra er í. Eða „yfirleitt aldrei“, svo því sé haldið til haga, og liggja eflaust faglegar og vandaðar rannsóknir að baki slíkri fullyrðingu.
Og hverjir eru að fóðra þessa ruslakistu með rusli? Sem stendur eftirfarandi fólk (20 efstu):
Ekki kemur fram hvort blaðamanni finnist fleiri rými tjáningar og skrifta vera ruslakistur. Mögulega er það svo.
Tilefni, eða innblástur, yfirlýsingar hins opinbera starfsmanns er ein færsla á einni síðu. Ég hef ekki lesið þá færslu enda er slíkt óþarfi til að leggja mat á hrokafulla yfirlýsingu um stóran vettvang fjölbreyttra skoðana fjölbreytts fólks sem að auki dregur að sér fjölda lesenda á hverjum degi. Hvað ætlar hinn opinberi starfsmaður að kalla þá sem sækja í ruslakistuna? Þvottabirni? Flækingshunda? Það fylgir ekki sögunni en eitthvað hlýtur sá hópur sem nærist úr ruslakistum að kallast.
Kannski það fari í taugarnar á blaðamanni með áratugi af blaðamennsku á bakinu að sjá að fleiri en lítill hópur með einsleitar skoðanir fái að tjá sig, og jafnvel enn verra en það: Að einhver kynni sér þá tjáningu. Liðnir eru dagar lesendabréfa sem birtust í litlum dálkum prentmiðlanna. Hvaða blábjáni sem er getur nú tjáð sig, í ruslakistum. En sú skelfing!
Athyglisvert er að hinn reyndi blaðamaður, á opinberu framfæri, með víðtækt aðgengi að stórum áhorfendahópi, nýti sér aðra ruslakistu til að tjá sig: Fésbókina. Þar er jafnvel enn auðveldar að tjá sig en í ruslakistu Morgunblaðsins. Nennir enginn að fylgjast með útsendingum viðkomandi á öðrum vettvangi? Spyr sá sem ekki veit, því sá sem spyr hætti fyrir meira en 20 árum síðan að sjá ástæðu til að eyða tíma í að kynna sér reglubundið skoðanir viðkomandi blaðamanns. Það dugir að renna yfir fyrirsagnir á miðlum atvinnurekanda hans til að vita hverjar þær eru. Önnur ruslakista það.